Fórnarlamb eigin velgengni?

Hægt er að telja upp fjölda samgöngutækja, sem voru svo vel heppnuð, að þau nutu dæmalausrar velgengni sem var færð í metabækur. 

En um furðu mörg þessara snilldarverka gilti það að þau urðu að fórnarlömbum eigin velgengni. 

Oftast var það vegna þess að tímarnir breyttust og þar með markaðurinn og þarfirnar, en hönnuðir snilldarverkanna áttuðu sig ekki á þeim takmörkunum, sem ný staða hafði leitt yfir söluvöru sína. Einnig vegna þess að það voru takmörk af tæknilegum ástæðum fyrir því hve mikið var hægt að breyta þessum kjörgripum til þess að þeir stæðust nýjar kröfur. 

Dæmi: 

Ford T. naut einhverrar dæmalausustu velgengni sem sagan kann frá að greina. 

Á árunum 1908 til 1923 óx salan og óx uns svo var komið að meirihlutinn af öllum bílum, sem framleiddur var í heiminum, var Ford T, og helmingur bílaflota heimsbyggðarinnar var af þessari gerð. 

Bíllinn skóp einn og sér nýja öld í heimssögunni, bílaöldina. 

Hann svo einfaldur og ódýr í framleiðslu, að hann seldist hraðar og hraðar, en samt var hann nógu sterkbyggður til að þola lélegt vegakerfi þessara tíma, vera nógu stór fyrir meðalfjölskyldu og njóta þess hvað viðhaldið var hlægilega einfalt. 

Velgengni hans skóp líka auknar tekjur hjá milljónum fólks, sem í krafti kjarabóta fór að geta veitt sér dýrari og betur búna bíla. 

Og það var einmitt hinn mikli efnahagslegi uppgangur á þriðja áratugnum, sem skóp aðstæður, sem voru dauðadómur fyrir Ford T. 

Þegar keppinautarnir komu með flóknari, betur búna og öflugri bíla reyndist ómögulegt að breyta Ford T nógu mikið til þess að hann væri samkeppnishæfur. 

Nýjustu bílar keppinautanna voru að vísu aðeins dýrari, en fleiri og fleiri töldu sig hafa efni á því að eignast þá. 

Svo seinn var Henry Ford að átta sig á þessu, að þegar hann neyddist til að hætta framleiðslu Ford T. 1927 tóku við nokkrir mánuðir áður hægt var að byrja að framleiða nýjan bíl frá grunni, Ford A. 

Chevrolet varð mest seldi bíll Ameríku næstu áratugina, ekki síst þegar hann kom með sex strokka vél 1929, sem Ford gat ekki svarað fyrr en 1932. 

Saga Volkswagen Bjöllunar var svipuð, og þessi mest selda bílgerð allra tíma var næstum búin að setja Volkswagen á hausinn upp úr 1970 þegar salan hrundi af svipuðum ástæðum og hjá Ford T 45 árum fyrr.  

Boeing 737 er langmest selda farþegaflugvél allra tíma, svo af ber, um 10 þúsund stykki. 

Á svipaðan hátt og Henry Ford og síðar ráðamenn Volkswagen héldu, að hægt væri að framlengja velgengnina með því að forðast of gagngerar breytingar, fóru ráðamenn Boeing út í það að stórbreyta mjög afmörkuðum hluta 737 án þess að það þýddi að setja þyrfti upp nýskráningu hjá FAA og dýrt þjálfunarkerfi fyrir flugmenn. 

Á sínum tíma var það aldrei ætlun Henry Ford að tapa einstæðri markaðaðstöðu sinni, og það var heldur ekki ætlun ráðamanna Volkswagen að þurfa á ríkisaðstoð að halda meðan kúvent var í bílaframleiðslunni og farið yfir í að framleiða bíla með vatnskældar lóðréttar vélar þversum frammi í og framhjóladrif í stað loftkældra láréttra boxaravélar afturí með afturdrif.  

Það var heldur ekki ætlun þeirra hjá Boeing að tapa góðri markaðsaðstöðu við að troða nýjum og mun stærri hreyflum mun framar á vængina en áður, en búa til nýtt og flókið tölvustýrt viðbragðskerfi til þess að fást alveg nýja og varasama flugeiginleika MAX vélanna. 

Nú berjast þeir um á hæl og hnakka við að koma í veg fyrir að Boeing 737 verði fórnarlamb eigin velgengni eins og Ford T og Volkswagen Bjallan urðu á sínum tíma.   

 

 


mbl.is Kyrrsetning varir lengur en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Góð grein, Ómar - Góð lesning.

Már Elíson, 25.5.2019 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband