"Dauði geisladisksins" kom á óheppilegum tíma.

Lokaorðin í langri fræðsluþáttaröð í Sjónvarpinu um miðlun tónlistar endaði á tveimur orðum: 

"Geisladiskurinn er dauður."  Þetta eru hörð orð, einkum vegna þess að erfitt er að sjá hvernig neitt getur leyst hann af hólmi. 

Fyrir nokkrum árum hélt ég að ég hefði fundið verðugt verkefni fyrir fræðslukvikmynd um það hvernig best væri að haga akstri um óbyggðir landsins án þess að valda spjöllum og lenda í óþörfum. 

Reynt var að draga fram gulrót í formi fallegra mynda frá mörgum landshlutum í þessari mynd. 

Ég átti von á því að frá um 200 bílaleigum landsins, bílaumboðum, Íslandsstofu, tryggingarfélögunum og Samgöngustofu fengjust styrkir í verkefnið og að upplagt væri að selja svona efni þeim, sem ferðuðust um landið. 

Þarna væri komin mynd með efni, sem væri jákvætt og gæfi arðbært verkefni. 

En svo óheppilega vildi til að sala á mynddiskum og geisladiskum hrundi á þeím tíma sem þetta kom fram. 

Og annað verra kom fram: Engin einasta bílaleiga, samtök þeirra eða Íslandsstofa hafði áhuga á þessu verkefni. 

Sjónvarpið keypti að vísu sýningarréttinn og hefur sýnt myndina og endursýnt hana, en endursýningarnar komu heldur seint, síðsumars. 

Frumsýningin drukknaði í miðju HM í fótbolta. 

Eitt tryggingarfélag, TM, veitti 300 þús króna styrk, styrkur fékkst úr sjóði Pálma Jónssonar og frá Landsbankanum, og Suzukiumboðið styrkti um 50 þúsund krónur.

Það tókst að vísu að klára myndina en ekki að fylgja málinu eftir.

Í myndinni var ítarleg útskýring á áhrifum utanvegaaksturs og því, hve mikilvægt væri að virða lög um þau efni. 

Vonbrigðin varðandi fjárstyrki voru mest varðandi bílaleigurnar, en einn eigandi bílaleigu tjáði mér, að umfjöllun um veghæð og mismunandi torfærugetu bíla væri þess eðlis, að enginn þyrði að taka áhættuna af því að sýna þau mikilvægu sannindi sem þar voru sýnd. 

Ég var búinn að undirbúa að gera erlendan texta, en gerð myndarinnar út um allt land með fimm mismunandi gerðum bíla hafði kostað það mikið, að framhald kvikmyndagerðarinnar féll af fjárhagsástæðum í byrjun, en síðar einnig vegna hruns mynddiska- og geisladiskasölunar. 

Ekki var þó bruðlað með bílana, þeir voru allir í eigu okkar hjóna og aðeins einn ekki kominn til ára sinna.

Víðtæk fræðsla og aðhald eru þau atriði sem mestu skipta í svona máli.

Þess vegna voru það vonbrigði að komast ekki lengra í þessu mikilsverða náttúruverndarmáli.  

 


mbl.is Utanvegaakstur ein helsta ógnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í morgun tók ég upp korters video í UHD upplausn og varpaði svo yfir í sjónvarpið og horfði á. Kíkti einnig á bíómynd á Netflix og horfði svo á stöð tvö í ræktinni. Spilaði gegnum bluetooth í bílnum nokkur lög af Spotify og geri svo eins við græjurnar í stofunni, heimabíóhljóðkerfið og heyrnartólin. Smellti af nokkrum myndum sem ég get skoðað á öllum mínum skjám og prentað út. Tólið sem ég notaði er hálf stærð og vegur svipað og geisladiskur í hulstri. "Geisladiskurinn er dauður." og það er ekki erfitt að sjá hvað hefur leyst hann af hólmi og hvers vegna.

Vagn (IP-tala skráð) 31.5.2019 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband