Breiðamerkursandur og Eyjafjallajökull, takk.

Það þarf að vanda til við það, ef sífellt þarf að þýða íslensk örnefni. Og helst að láta það vera. 

Diamond Beach segir ekkert umfram heitið Breiðamerkursandur um sandinn, ána og lónið og óþarft að ryðja íslenska heitinu út. 

Þegar Eyjafjallajökull gaus vafðist útlendingum skiljanlega tunga um tönn, því að tvisvar í íslenska heitinu eru tvö samliggjandi l, sem aldrei eru borin fram í erlendum málum á sama hátt og í íslensku. 

Til allrar hamingju féllu menn ekki í þá freistni að þýða nafn eldfjallsins og kalla það Islandsmountainglacier eða Islemountainglacier.  

Og sem betur fer fær Reykjavík að halda sínu íslenska heiti í stað þess að það sé þýtt, annað hvort sem Smoke Bay eða Steam Bay. 

Black Sand Beach er afleitt heiti fyrir Reynisfjöru, því að allar fjörurnar frá Þjórsárósum austur fyrir Hornafjörð eru dökkar. 

Að ekki sé talað um Sauðárkrók = Sheepriverhook eða Hrútafjörður = Ramfjord. 


mbl.is Diamond Beach í stað Breiðamerkursands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Þegar Spiegel Online flutti fréttir af gosinu í Eyjafjallajökli var nafnið þýtt = Inselberg Gletscher.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 13.7.2019 kl. 22:59

2 identicon

Fyrir þjóð sem er hreykin af því þegar Kanadamenn af íslenskum uppruna skýra börnin sín Íslenskum nöfnum og getum varla sest niður og fengið okkur bjór í erlendum borgum öðruvísi en að kalla aðalgötuna Laugaveg erum við furðu viðkvæm þegar aðrir leita nafngifta í sinn uppruna.

Vagn (IP-tala skráð) 13.7.2019 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband