Sogin og rannsóknarleyfin.

Það eru ekki aðeins erlendir ferðamenn sem ganga sums staðar illa um landið.

Hin undur litfagra náttúruperla Sogin, sem eru gil við suðurenda Trölladyngju á Reykjanesskaga, á ekki jafningja á Suðvesturlandi, og þarf að fara austur á Landmannalaugasvæðið til að finna annað eins. 

Svipaða litafegurð er að finna innst í Hengladölum, en ekki á eins myndrænu og stóru svæði. 

Nýjustu umhverfisskemmdir í Sogunum af völdum vélhjóla eru dapurleg tíðindi og sama að segja um skemmdir í Sveinsgili eystra. 

En Sogin eru hluti af heild sem nær frá Höskuldarvöllum og yfir til Djúpavatns. 

Úr Sogunum rennur Sogalækur meðfram suðurhlíð Trölladyngju og við lækinn skerst lítill en fallegur gróinn gígur inn í hlíðina með látlausum rústum lítils sels í miðjum flötum gígbotninum. 

Meðan þetta svæði var ósnortið var það ánægja margra að ganga á grónum bakka Sogalækjarins upp í mynni Soganna og fara síðan upp á hálsinn milli Soganna og Djúpavatns til þess að skoða þetta einstaklega fallega gil ofan frá. 

Slíkt þar helst að gera í sólskini því að þá myndast björt útgæslun frá fosfórsamböndum í gilinu, sem raunar fangast ekki á myndir teknar með venjulegum myndavélum. 

Fyrir um tveimur áratugum fékk HS orka rannsóknarleyfi á Trölladyngjusvæðinu og nýtti það til þess að leggja upphleyptan verktakaveg beint í gegnum gönguslóðina á bakka Sogalækjarins. 

Vegurinn var lagður til þess að komast að með stórvirk tæki til þess að saga 3000 fermetra borplan inn í mosavaxna hlíðina við gilkjaft Soganna og valda með því miklum umhverfisspjöllum, langt umfram allar skynsamlegar þarfir. 

Vel hefði verið hægt að hafa borplanið nokkur hundruð metrum fjær og leggja veginn ekki í gegnum dýrmæta gönguleið. 

Fyrir þrettán árum ollu vélhjólamenn nokkrum spjöllum hinu megin við hálsinn og voru fluttar fréttir í sjónvarpi af því þar sem þáverandi umhverfisráðherra kom á staðinn. 

Ráðherranum var sagt á staðnum frá margfalt verri spjöllum af völdum HS orku í hálftíma göngufæri en kvaðst ekki hafa tima til að fara þangað. 

Nú eru enn framin umhverfisspjöll með vélhjólum á þessu svæði og aftur er því sleppt að fjalla um verk HS orku, sem hefur fengið rannsóknarleyfi vegna Hvalárvirkjunar og virðist ætla að fara þar eins um og við Sogin.  


mbl.is Segja ferðamenn ganga betur um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband