Íslenski "jeppa"brandarinn verður æ skondnari.

Í tengdri frétt á mbl.is er greint frá þeirri staðreynd að í Evrópu hafi bílakaupendur í vaxandi mæli snúið sér frá kaupum á dísilbílum og keypt jeppa í staðinn. 

Þetta er sagt berum orðum í fréttinni, að fólk kaupi jeppa í staðinn, og það ekkert smáræði, því að um er að ræða milljónir bíla af þessu tagi á ári.  

Ekki hefur farið fram hjá neinum, að þessi þróun hvað snertir svokallaða "jeppa" hefur líka verið í gangi hér á landi. 

Áður hefur verið fylgst með "jeppa"æðinu íslenska hér á síðunni og fáránleikanum, sem sú íslenska orðanotkun felur í sér, því að í stað þess að þýða ensku skammstöfunina SUV, sem er notuð erlendis, og tala um fjölnotabíla eða sportnytjabíla, hefur gamla orðið jeppi verið dregið fram og snúið all hressilega út úr því til þess að fá kaupendur til að halda að þeir aki torfærubíllum þegar þeir aka í raun ósköp venjulegum fólksbílum. 

Til fróðleiks má geta þess að fyrstu bílarnir, sem hlutu skilgreininguna SUV, voru Dodge Caravan og Renault Espace í kringum 1983. 

Engum lifandi manni datt þá í hug að þetta væru jeppar, hvorki sportjeppar né jepplingar, enda báðir aðeins með drif á tveimur hjólum. 

En eftir að bílar ein og Rav 4 og Honda CRV slógu í gegn um miðjan siðasta áratuginn, kom fram þessi knýjandi íslenski draumur um jeppa, en þó í byrjun talað um jepplinga.

Þar með var komin af stað þróun á notkun orðmyndarinnar "jepp" sem vegna gríðarlegrar samkeppni í sölu slíkra bíla er fyrir löngu komin út í vaxandi ógöngur og orðinn að æ skondnari brandara. 

Ekki er ástæða til að taka neitt umboð sérstaklega út úr; allir neyðast til að taka þátt í þessu gríni. 

Nýjasta dæmið er rafbíll, sem auglýstur er sem fyrsti rafknúni sportjeppinn. 

Síðuhafi brá sér með mælitæki í umboðið til að athuga veghæð, drif og annað, sem hlyti að tilheyra svo göfugum jeppa, og komst að því að þegar bíllinn er mannlaus, er veghæðin aðeins 16 sentimetrar, sem þyðir 15 sentimetrar þegar einn maður sest upp í hann;  lagið á framendanum líkara snjóplóg en framenda raunverulegs jeppa, og aðeins hægt að fá þennan "sportjeppa" með drifi á framhjólunum einum. 

Veghæðin er aðeins einum sentimetra meiri en á rafbíl af svipaðri stærð, sem hefur komið hér á markað á svipuðum tíma, en engum dettur ennn í hug að kalla sportjeppa. 

Í lýsingu á bílnum er heitið "sportjeppi" meðal annars réttlætt með því hve há yfirbygging hans sé. 

Samt er hún lægri en á Nissan Leaf og Opel Ampera-e, sem engum dettur enn í hug að kalla sportjeppa. 

Í nokkur skipti þegar síðuhafi hefur hitt ánægða eigendur nýrra "sportjeppa" sem eru aðeins með drif að framan en eru í stækkandi hópi bíla, sem þannig háttar til um, hafa þeir ekki trúað því þegar þeim var bent á að það vantaði fjórhjóladrif i "jeppann." 

En þeir hafa samt litið með ljómandi bros upp og sagt sem svo; "Það gerir ekkert til því að hann er miklu ódýrari fyrir bragðið, með stærra skott en ella og gefur samt möguleikann á því að allir haldi að ég sé á jeppa."

 


mbl.is Hættir sölu dísilbíla í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Fyrir hvað stendur enska skammstöfunin SUV? Ég hef séð þetta líka í textum á ensku, en veit ekki hvað stafirnir þýða.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 25.9.2019 kl. 18:51

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Sport

Utility

Vehicle.

Notað yfir farartæki sem eru ekkert af þessu.

Ásgrímur Hartmannsson, 25.9.2019 kl. 19:20

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég varpaði upp hrárri, beinni þýðingu:  

Sport  -   Sport

Utility  -  nytja 

Vehicle  -  bíll. 

Þeir tveir fyrstu, Dodge Caravan og Renault Espace, höfðu ekki hina minnstu sport eiginleika en voru með átta sæti. 

Ómar Ragnarsson, 25.9.2019 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband