Stórmerk og áhugaverð saga bíls.

Sænsku bílaverksmiðjurnar Saab voru stórmerkilegar á sínu glæsilega blómaskeiði og merkilegt að jafn fámenn þjóð og Svíþjóð skyldi áratugum saman framleiða bíla, sem voru meðal hinna þekktustu í heiminum.  

Volvo og Sasb líkt og skiptu með sér verkum á þann hátt, að Volvoinn var lengst af tákn íhaldssemi og öryggis en Saab tákn framsækni og dirfsku. 

Fyrsti Saabinn var viljandi hafður með einherju ítrasta straumlínulagi þess tíma og loftmótstöðu, sem var á pari við það besta, sem tíðkast nú á dögum, en hálfri öld á undan samtíð sinni hvað snerti svo litla og ódýra bíla.

Þrátt fyrir þær rýmisfórnir sem slík lögun bíla getur kostað, tókst að hanna lítinn og léttan 800 kílóa Saab-bíl, sem nýtti lítið vélarafl léttrar og ódýrrar tvígengisvélar til hins ítrasta. 

Merklegt var það nauma en þó næga rými, sem var í aftursætinu, og með framhjóladrifinu, sjálfstæðri fjöðrun á öllum hjólum og samansoðinni heilli og grindarlausu skel fengust einstaklega góðir aksturseiginleikar, sem skiluðu bílnum nokkrum frægðarsigrum í þekktustu rallmótum Evrópu í höndum Eric Carlssonar. 

Lengi vel tókst Saab að halda dampinum með stækkandi bílum eins og Saab 35, sem voru þess verðir að vera samboðnir flugvélaverksmiðju, sem framleiddi orrustuþotur á borð við Saab Gripen. 

En þegar miskunnarlaus alþjóðavæðingin fór að há smáþjóðunum og báðar sænsku bílaverksmiðjurnar neyddust til að byggja bíla sína á erlendum meginhlutum á borð við botnplötur, yfirbyggingu og vélbúnað, lentu báðar í fjárhagsvandræðum. 

Strax á sjöunda áratugnum neyddist Saab til að leita á náðir Ford til að hætta við úrelta og mengandi tvígengisvél og síðar var svo komið að lítinn mun var að sjá á Saab og ítölsku bílunum Lancia, sem voru í meginatriðum sömu bílarnir og Saab. 

Og nú snerust hlutverk Volvo og Saab við, því að hönnuðum Volvo tókst að gera útlit þessara fyrrum íhaldslegu bíla nógu sérstætt til þess að það sæist vel útlitsmunur á Volvo og skyldum bílum í alþjóðasamvinnunni. 

Þar með var búið að ræna Saab sérstöðu sinni hvað útlit snerti og grafskriftin var á veggnum. 

En gömul frægð og orðstír hinna fyrrum góðu og byltingarkenndu Saab bíla lifir. 


mbl.is Síðasti Saab-inn undir hamarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

SAAB 96 var ekki með sjálfstæða fjöðrun að aftan, heldur voru hjólnöfin fest á C boga sem var festur við skelina framan við fremmri brún á afturhjólum. Saabinn kom of seinnt með 4 dyra bíl og tapaði held ég mikið á því vegna þess hve þröngt var að fara aftur í hann

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.10.2019 kl. 13:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir athugasemdina og afsaekið ónákvæmnina. En Saab 96 var með sjálfstæða gormafjöðrun að framan og gormafjörðun allan hringinn, sem var fáheyrt um svo lítinn bíl á þeim tíma sem hann kom fram. 

Í þýsku yfirlitsriti um bíla frá þessum tíma stendur:  "Hinten Kurbelachse mit Schraubenfedern, zentrale Befestung og aussere Langslenker."

Ómar Ragnarsson, 21.10.2019 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband