Mistök eins flugstjóra breyttu gangi stríðsins.

Þegar Göring ákvað og lofaði Hitler því að eyða breska flughernum og aðstöðu hans áður en gerð yrði innrás í Bretland, beindust árásir Luftvaffe, sem mörkuðu upphaf orrustunnar um Bretland í júlí 1940, einkum að flugvöllum og hernaðarmannvirkjum, sem gögnuðust breska flughernum. 

Áætlunin gekk ágætlega þótt draga yrði Stuka-vélarnar út úr henni, og sagnfræðingar hafa síðan velt vöngum yfir því hvort hún hefði heppnast, ef henni hefði verið fylgt fram af einbeitni og fullum þunga. 

En þá gerðist atvik, sem virtist ekki mikilvægt í sjálfu sér, að áhöfn einnar af sprengjuflugvélum Þjóðverja villtist, og flugstjórinn ákvað, frekar en að fljúga með sprengjurnar til baka, að varpa þeim á byggð, sem birtist fyrir neðan vélina. 

Byggðin reyndist vera hluti af London, og Churchill varð bæði sleginn og reiður og valdi það sem hefndaraðgerð að senda flota sprengjuflugvéla til þess að varpa sprengjum á Berlín. 

Göring hafði lofað Hitler því í upphafi að engin flugvél Breta myndi komast til Berlínar, en þegar það brást, varð Hitler ævareiður og skipaði svo fyrir, að breytt skyldi um áætlun og ráðist af öllum þunga Luftvaffe á London og aðrar breskar borgir. 

Með því yrði hægt að valda svo miklum usla, að breskur almenningur og stjórn landsins myndu gefast upp. 

Annað kom á daginn, því að hinar illræmdu árásir stöppuðu stálinu í Breta, sem efldust við að hlusta á hinar mergjuðu og mögnuðu hvatningarræður Churchills. 

Ein þeirra hlaut heitið "The few" og fjallaði um dáðir bresku flugmannanna,  það að aldrei fyrr í átakasögu mannkynsins hefðu jafn margir átt jafn mikið að þakka jafn fáum. 

Enn í dag velta menn vöngum yfir því hvort það hefði fært Þjóðverjum sigur í lofthernaðinum að flugstjóri einnar árásarvélar hefði ekki sleppt sprengjum vélarinnar fyrir mistök yfir byggð í útjaðri London. 

Bent hefur verið á að ratsjár Breta, færir orrustuflugmenn og hagræði þeirra af því að verjast á heimavelli af stuttu færi flugvélum, sem komu það langt að, að drægi þeirra var illilega takmarkað, hefðu hvort eð er reynst Þjóðverjum dýrkeypt og óvænt óhagræði, auk þess sem hægt hefði verið að berjast frá breskum flugvöllum, sem lágu lengra inni í landi. 

Þegar Þjóðverjar gerðu örvæntingarfulla stórárás 15. september og misstu miklu fleiri flugvélar en þeir áttu von á, varð niðurstaðan sú, að fresta innrásinni Sæljón um óákveðinn tíma og draga innrásarflotana í höfnum á meginlandinu til baka og dreifa honum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhvern tímann heyrði ég að þó nokkur hluti af þessum "The few" hafi verið pólskir orustuflugmenn sem sluppu til Bretlands eftir uppgjöf Pólverja.   En ekki get ég fullyrt að svo hafi verið.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 21.11.2019 kl. 14:06

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, Pólverjar komu við sögu og meira að segja sendu Ítalir smá flugsveit á vettvang til að hjálpa Þjóðverjum, en þessar ítölsku vélar fóru svo halloka að það varð endasleppt.  

Ómar Ragnarsson, 21.11.2019 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband