"Sáuð þið, hvernig ég tók hann!"

Eina af þekktustu setningum íslenskra leikbókmennta lagði Matthías Jochumsson í munn Jóni sterka í Skugga-Sveini eftir að Jón féll í glímu, en spratt eins og fjöður upp og hrópaði: "Sáuð þið hvernig ég tók hann!"

Jón kemst þó ekki með hælana þar sem Bandaríkjaforseti hefur tærnar hvað varðar umfang og tiðni svipaðra ummæla alls hans viðskiptaferils, þar sem hann hefur fullyrt, að hann hefði haft frækinn sigur í öllum sínum mörgu gjaldþrotamálum. 

Enn stærri eru upphrópanirnar á stjórnmálaferlinum, svo sem það að hann hefði í raun borið sigurorð af Hillary Clinton 2016 hvað snerti bæði atkvæðamagn og kjörmannafjölda. 

Þó er það staðreynd að Clinton fékk tæplega þremur milljónum fleiri atkvæði samtals en Trump!

En Trump fær allt annað út með því að segja að ef hann hefði viljað fá fleiri atkvæði en Hillary, hefði honum tekist það léttilega; það hefði bara verið einfaldara og öruggara að stefna að meirihluta kjörmannanna!  

Þótt Bandaríkjamenn skuldi Kínverjum hrikalega háar fjárhæðir er Trump efst í huga frækinn sigur í tollasstríði við sem hafi orðið til þess að þeir hafi beygt Kínverja, en ef Hillary hefði verið kosin hefðu Kínverjar brunað fram úr Bandaríkjamönnum á kjörtimabilinu! 

Trump mærir mjög hve langt hann hafi komist í að gera Ameríku mikla,

Í krafti þessa kjörorðs síns setti hann meira en 200 prósenta toll á ákveðna stærð af nýjum þotum af kanadískum uppruna, sem voru miðaðar af miklu hugviti við stækkandi markhóp flugfarþega, sem sætaskipanin 2 plús 3 í stað 3 plús 3 hentaði afar vel og skapaði meira rými og þægindi á hvern farþega en áður hafði þekkst í þessum stærðarflokki.  

Á Trump er svo að skilja að útilokun þessara þotna frá bandarískum markaði og hámarks hindranir í því að þær fengju góðar viðtökur myndi eiga þátt í að gera Ameríku mikla á ný, sem er dálítið skondið í ljósi þess að Kanada er í Norður-Ameríku rétt eins og Bandaríkin. 

Þetta dæmi er táknrænt fyrir margt af því, sem þröng hugsun múra og hindrana getur komið til leiðar á þann hátt að einn þátttakandi í heimsframleiðslunni þjösnist fram í krafti ítrustu síngirni á kostnað heildarinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Andstæðingar kvótakerfisins á Íslandi tala oft um að flytja þurfi störfin heim í hérað til að halda byggð í landinu.

Trump er bara enn einu sinni að efna kosningarloforð í þetta sinn um að flytja störfin aftur til USA

Kosningakerfið í Bretlandi er líka þannig að meirihluta stjórn getur haft minnihluta atkvæða bak við sig og vegur ekki atkvæði á Vestfjörðum mun meira en atkvæði vesturbæings

Trump þarf að hæla sjálfum sér því m.a. Bloomberg fréttaveiturnar hafa fengið skipun frá eigandunum um að dreifa um hann óhróðri

Grímur (IP-tala skráð) 30.11.2019 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband