Þeim, sem hafa viljað línur í jörð, kennt um.

Sérkennilegt en þó fyrirsjáanlegt er að sjá og heyra þau viðbrögð ráðamanna, að það sé umhverfisverndarfólki að kenna hvernig raflínukerfið í landinu hefur brugðist. 

Þar er margt að athuga áður en slíkum leik er haldið áfram og þarf að svara ýmsum spurningum. 

Hvernig stóð á því að ein allra nýjasta línan, Þeystareykjalína, sem er stóriðjulína fyrir kísilverið á Bakka, var meðal þeirra fyrstu, sem biluðu?  

Umhverfisverndarsamtök, sem vildu fá meira af línunumm milli Kröflu, Þeystareykja og Húsavíkur í jörð, urðu að beygja sig fyrir kröfum Landsnets um sem beinasta loftlínu. 

Nú er þeim, sem vildu meira af línum í jörð, kennt um að loftlínur hafi bilað!

Um Blöndulínu 3 hefur staðið styrr undanfarin ár vegna eindæma þvermóðsku Landsnets um að vaða með risa loftlínu frá Blöndu austur um Miðnorðurland. Og fara meira að segja þvert yfir Kjarnaskóg og fyrir brautarenda á Akureyrarflugvelli með tilheyrandi truflun á öryggis flugvallarins! 

Ekki er annað að sjá, en að viðgerðirnar núna séu á línum utan þessa svæðis, í ytri byggðum Norðurlands. En samt fullyrðir ráðherra á vettvangi í kvöldfréttum, að bilanirnar séu umhverfisverndarfólki að kenna þótt fyrir liggi, að það fólk reyndi að fá Landsnet til að leggja meira af Blöndulínu í jörðu. 

Landsnet bar á sínum tíma fyrir sig hundruða milljóna króna athugun sem það hefði keypt og syndi að línur í jörðu væru margfalt dýrari en loftlínur. 

En Landsnetsmenn vildu ekki verða að ósk um að leyfa andmælendum línunnar að sjá skýrsluna. 

Þegar þeir voru síðan skikkaðir til þess í krafti upplýsingalaga að afhenda skýrsluna, kom svarið: Því miður, hún er týnd!  

Vísa má í umfjöllun Karls Ingólfssonar um línumálin á facebook, og i færslu Jóns Bjarnasonar á netinu þar sem kemur fram að línan milli Blöndu og alla leið austur í Fljótsdal skapaði ekkert af þeim vandræðum sem umhverfisverndarfólk og landeigendur eru nú sakaðir um að hafa valdið. 

Og nú fljúga um netið fullyrðingar um að það sé hundrað sinnum dýrara að leggja línur í jörð en að hafa þær á staurum og möstrum. 

Slíkar "fréttir" eru því miður ekki einsdæmi, þvi að fyrir nokkrum dögum flaug sú "frétt" um netheima, að hver strætisvagn mengaði á við 7500 einkabíla! 

Svo langt gekk þessi dómadagsvitleysa, að fréttastofa eins ljósvakamiðilsins sá sig til knúna að leita réttra upplýsinga um málið og greina frá niðurstöðunni af því. 


mbl.is Skort stuðning við uppbyggingu kerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hörður Arn­ar­son, for­stjóri Lands­virkj­un­ar hefur nú hingað til einungis haft áhuga á að styrkja þann hluta flutningskerfisins  sem getur tengst sæstreng til ESB.

Ég hef aldrei heyrt hann tala um að bæta þurf afhendingarörygið innanlands

en tengja kerfið við ESB og hækka rafmagnsverð til íslendinga hefur hann verið hrifin af

Grímur (IP-tala skráð) 13.12.2019 kl. 21:20

2 identicon

Það er greinilega snúið þegar hlutafélagi er ætlað að veita vissa þjónustu og sýna 15% hagnað en ræður ekki sinni gjaldskrá og fær ekki framlög af sköttum landsmanna. Fyrirtækið þarf að reka sig og býr ekki við þann lúxus ofgnóttar og bruðls sem vegagerðin, landspítalinn og tryggingastofnun búa við.

Afleiðingin verður gjarnan sú að öryggi er fórnað og ekki sett fé í að vera tilbúinn óvæntum skakkaföllum. Ódýrara verður fyrir fyrirtækið að gera við slitnar línur og brotna staura á nokkurra ára fresti en að vera með línur í jörð og afhendingu úr meira en einni átt. Sparað er með færri viðgerðarflokkum og reynt að láta dagvinnuna nægja. Og öll hönnun og skipulagning miðast við lágmarks kostað og þjónustu. Úrbætur teljast óþarfa sóun, glatað fé. Og umhverfismál ekkert sem kemur fyrirtækinu við.

Í um viku á fimm eða tíu ára fresti fer svo þjóðfélagið á hvolf í hneykslun og kröfum um úrbætur, en gleðst þess á milli yfir lægri sköttum og lægri kostnaði raforkudreifingar. Og þó hávaðinn bendi til brennandi áhuga er ekki að sjá að neinn notfæri sér það að opið sé fyrir frjáls framlög til umbóta.

Vagn (IP-tala skráð) 13.12.2019 kl. 23:08

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er ekki fjárskorti að kenna að flutningskerfið hafi ekki verið bætt, heldur því að Landsnet þverskallast við að leggja línur í jörð, en reynir þess í stað að troða háspennumöstrum upp í túngörðum bænda, sem vitanlega nýta sér rétt sinn til að stöðva áformin.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.12.2019 kl. 01:00

4 identicon

Já, já, Þorsteinn, Landsnet, hlutafélag sem hefur þau einu hlutverk að dreifa rafmagni og skila eigendum sínum hagnaði, hefur bara áhuga á því að troða hundruðum óþarfa háspennumastra upp í túngörðum bænda. Enda eingöngu umhverfisterroristar og illmenni sem þar vinna. Heimurinn er ekki flókinn þegar maður hundsar rök og skynsemi og getur látið sér hugaróra nægja.

Bændur hafa þann rétt að hafna lagningu um lönd sín. Og Landsnet hefur þá skyldu að leggja ekki raflínu nema hún skili eigendunum hagnaði. Orkuveita Reykjavíkur getur til dæmis ekki með nokkru móti afsakað hækkun útsvars Reykvíkinga með tapi á háspennulínu í Skagafirði. Landsnet þarf því aðgang að skattfé eða heimild Orkustofnunar til að hækka verð þar sem óhefðbundnar dýrari lausnir þarf.

Þar sem verð viðmið Orkustofnunar eru hefðbundnar háspennulínur í lofti þá er ekki grundvöllur fyrir lagningu jarðstrengs. Eftir áhugann sem ráðamenn þjóðarinnar sýndu við síðasta rafmagnsleysi verður forvitnilegt að sjá hvort þeir vilji skera niður einhverstaðar, eða hækka skatta, til að borga fyrir jarðstrengi.

Vagn (IP-tala skráð) 14.12.2019 kl. 02:54

5 identicon

Ef ég man þetta rétt þá stóðu skagfirskir afturhaldssinnar á móti því að lögð yrði rafmagnslína sem myndi hringtengja kerfið. Þeir heimtuðu jarðstreng þrátt fyrir að þeim var bent á að slíkt væri ekki mögulegt vegna aðstæðna þarna fyrir norðan ( Jarðvegur, hæðarlega og annað). Það sem hefur komið í ljós núna er að gamlir staurar úr tré voru að gefa sig. Það hlýtur að vera forgangsatriði eð endurnýja þar sem þeir eru enn til staðar. Ég held að mönnum sé nokk sama hvort kæmu í staðinn jarðstrengir eða stálvirki, kosnaðurinn hlýtur að ráða ferð. Ef hægt er að plægja niður jarðstreng með viðráðanlegum kosnaði þá á sjálfsögðu að gera það. Rafmagnsöryggi var ekkert í forgangi þeirra sem börðust gegn lagningunni heldur sjónmengunin ef uppaliðiðí 101 reykjavík skyldi nú álpast norður í land.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 14.12.2019 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband