Ófullkomið lýðræði.

Lýðræðið er líklega skásta stjórnarform, sem fundist hefur, en á því eru víða óþarfir gallar. 

Bandaríkjaforseti flaggar því stanslaust að hann hafi verið lýðræðislega kosinn, þótt við blasi, að mótframbjóðandinn fékk næstum þremur milljónum fleiri atkvæði 2016. 

Flokkur mótframbjóðandans ber reyndar að fullu sína ábyrgð á því að gallað kjörmannakerfi skuli ráða í stað hreins og beins lýðræðis, því að báðir stóru flokkarnir í Bandaríkjunum hafa keppst við að nýta sér meinbugina á þessu kerfi, og 2016 reyndust fylgjendur Trumps einfaldlega útsmognari í því að nýta sér þessa veilu. 

Í Bretlandi eykur Íhaldsflokkurinn fylgi sitt um aðeins eitt prósentustig en fær yfirgnæfandi meirihluta þingmanna út á 43ja prósenta heildarfylgi, þannig að jafnvel þótt hinir flokkarnir séu alls með 57 prósent atkvæða meirihluta, geta þeir sig hvergi hrært. 

Tvisvar á síðustu öld munaði minnstu að einn flokkur fengi hreinan meirihluta á þingi hér á landi út á afgerandi minnihluta atkvæða, árin 1931 og 1953, í fyrra skiptið Framsóknarflokkurinn, en í síðara skiptið Sjálfstæðisflokkurinn. 

Þessu olli meingallað kosningakerfi einmenningskjördæma, sem skilaði Seyðisfirði tveimur þingmönnum 1949 út á nokkur hundruð atkvæði. 

Sumir myndu segja, að stjórnarandstaðan sé hvort eð er ósamstæð, og að það sé því Bretum fyrir bestu að tryggur meirihluti þingmanna gefi af sér stöðuga stjórn. 

En lýðræðislegt geta svona úrslit tæplega talist. 


mbl.is Samþykkt að ákæra Donald Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bandaríkin eru samband ríkja með visst sjálfsforræði. Hvert ríki á kjörmenn, sem kosnir eru, sem velja forsetann. Þetta er sjálfsákvörðunarréttur hvers ríkis.

Þetta kjörmannafyrirkomulag mun vera grundvallaratriði í stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Þessu verður ekki breytt enda þótt það komi stundum fyrir að forsetinn styðjist við minnihluta kjósenda.

"Bandaríki Evrópu" eru hugsjón margra, jafnvel einhverra Íslendinga. Ef Íslendingar ættu að hafa snefil af sjálfsforræði í þessu samstarfi þá þyrftu þeir að hafa miklu meiri áhrif þar, þ.á m. á kjör "forseta", heldur en íbúafjöldinn segir til um.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 19.12.2019 kl. 12:53

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég tel að FOSETAÞINGRÆÐI (eins og er í frakklandi)

sé heppilegasta KOSNINGAKERFIÐ.

Jón Þórhallsson, 19.12.2019 kl. 13:57

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Öll kosningakerfi, alls staðar, hafa einhverja annmarka. Og allir stjórnmálaflokkar haga vitanlega sínum málum þannig að þeir nái sem bestum árangri, innan þess kerfis sem þeir starfa í.

Það að einhver sé kosinn með færri atkvæðum en annar í einhverju tilteknu kerfi merkir ekki að viðkomandi sé ekki lýðræðislega kjörinn. Vitanlega er hann það.

Þorsteinn Siglaugsson, 19.12.2019 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband