Kuldinn háir rafbílum, en þó miklu minna en áður.

Tröllasögur á tímabili á netmiðlum á borð við þá, að rafbílaeigendur þyrftu "að hafa bílana í gangi á næturna á frostnóttum" til þess að forða þeim frá því að frostið eyðilagði þá, áttu sér ekki stoð í veruleikanum, en hitt er staðreynd, að kuldi er einn af ókostum landsins okkar varðandi þessa bíla. Tazzari. Farþegarými

Í handbók hins örlitla tveggja sæta Tazzari rafbíls er þess getið, að upplýsingar um drægni bílsins séu miðaðar við 20 stiga lofthita, en við hvert hitastig fyrir neðan 20, lækkaði drægnin um 1 prósent.

Þá segja kannski einhverjir að það sé nú ekki mikið, en samt samsvarar það því að í 5 stiga frosti minnki drægnin um heil 25 prósent, eða um fjórðung. 

Meðalhiti sumarmánaðanna hér á landi er nálægt tíu gráðum, svo að á þeim árstíma er drægnin 10 prósent minni. Tazzari í snjó

Meðalhiti ársins hér á landi er um fimm stigum lægri en á norðanverðu meginlandi Evrópu og síðan bætist það við, að það þarf meiri miðstöðvarhita inni í bílnum til að hita hann upp heldur en í bílum, þar sem orkan kemur eingöngu úr brunahólfi sprengihreyfla, þannig að miðstöðvarhitinn fæst á sjálfvirkan hátt að miklu leyti. 

En rafhreyfillinn verður hins vegar að búa mestallan hita til og eyða með því orku, sem annars færi í í knýja bílinn áfram. 

Á nýja Honda e-bílnum, sem var frumsýndur í fyrradag, er kerfi, sem jafnar hitann á vél og driflínu, en erfitt er að sjá, að nýtni sprengihreyflanna náist til fulls með því. 

Svo aftur sé minnst á Tazzari rafbílinn, er það kostur hans, að rýmið fyrir þá tvo, sem bíllinn tekur, er auðvitað tvöfalt minna en á fjögurra sæta bíl, og því þarf mun minni hitaorku úr miðstöð hans til upphitunar en á venjulegum rafbílum, sem eru miklu stærri og meira en helmingi þyngri. 

Kuldinn íslenski og íslenska veðurfarið hefur því ekki reynst neitt vandamál í rúmlega tveggja ára akstri hans, alls um níu þúsund kílómetra í öllum veðrum, allt árið. 

Á síðustu misserum hefur stærð rafhlaðna og drægni allt að þrefaldast í rafbílum svo að gallinn vegna upphitunar þeirra er orðinn brot af því sem áður var.  


mbl.is Litríkur orkusparnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reykjavik er ekkert svo köld borg miðað við celsíus kvarðann  . Vetrarkuldi er lítill miðað við margar borgir Evrópu og  Norður Ameríku.  Lýsingarorðið er "umhleypingar" og hraglandi . Frost nær mjög sjaldan mínus 2 stafa tölu á celsíus.

Höddi. (IP-tala skráð) 6.1.2020 kl. 10:14

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef not bílsins eru samfelld og nokkuð jöfn yfir árið, skiptir meðalhitinn mestu máli, en hann er lægri en í næstu löndum á meginlandi Evrópu, mest af því að hitinn á sumrin er nokkrum gráðum lægri, svo að 20 stiga hitinn fær nánast aldrei að njóta sín hér. 

Ómar Ragnarsson, 6.1.2020 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband