"Fljúgandi furðuhlutur" fyrr á tíð. Af hverju rann bunga flóans ekki út úr flóanum?

Þegar þessi pistill er skrifaður, er horft út um stofuglugga yfir Faxaflóa, spegilsléttan. 

Í tæru veðri sést Snæfellsjökull vel, en þó ekki neðsti hluti fjallsins. DSC08511

Ef farið er niður að sjó við Kollafjörð, munar strax um 65 metra lækkun; minna sést af neðri hluta jökulsins. 

Ef gengið er á Esjuna sést jökullinn hins vegar allur, alveg niður í fjöru við Arnarstapa. 

Við nútímamenn vitum skýringuna: Jörðin er hnöttur og það er bunga á hafinu, bunga á Faxaflóanum.  

Ef einhver hefði fært þetta í orð við þá, sem bjuggu við Kollafjörð á dögum Ingólfs Arnarsonar eða Stjörnu-Odda, og sagt að fyrrnefnt fyrirbrigði hlyti að sýna fram á hnattlögun jarðar, hefði sá hinn sami verið talinn geggjaður. 

Augljóst væri að það gæti ekki verið bunga á Faxaflóa, því að þá myndi vatnið í bungunni renna inn á strendurnar allt í kringum flóann þangað til hann væri orðinn alveg sléttur og flatur. 

En hvers vegna að vera að nefna þetta í kvöld?

Jú, vegna þess að sá sem pikkar niður þennan pistil sá óútskýranlega sjón úr flugvél sinni fyrir um 40 árum, þegar hann var á flugi í myrkri úr norðaustri yfir Hvalfjarðarströnd í aðflugi til Reykjavíkur. 

Birtist þá allt í einu aðeins hærra á lofti til vinstri risastórt hnöttótt og upplýst fyrirbæri, sem helst líktist risastórum framenda B-29 sprengjuflugvélar úr Seinni heimsstyrjöldinni. 

Nema að það, sem líktist risastórum margglerja glugganum á B-29, var margfalt stærra en nokkur framendi jarðneskrar flugvélar, og enginn skrokkur eða vængur sást skaga út úr þessu uppljómaða flykki.

Frá þeim stað, sem þessi sýn sást, sást inn til Reykjavíkur, svo að næsta skref var að kalla upp aðflugsstjórn og flugturn til að grennslast fyrir um það, hvort eitthvað annað fljúgandi fyrirbæri en flugvélin TF-FRÚ sæist á aðflugsratsjá. 

Svarið var neikvætt, og sðspurðir flugumferðarstjórar sáu alls ekki neitt annað fyrirbæri en FRÚna á lofti. 

Í þessum svifum hvarf furðuhluturinn inn í skýjaslæðu og málið varð þar með sjálfdautt. 

Nema, að síðan þetta gerðist, þarf ekki annað við skrif þessa pistils en að lygna augunum og horfa til vinstri til að sjá í minningunni þessa ógleymanlegu sjón. 

Horfa síðan yfir flóann og hugsa til þess, hvort einhver hafi haft orð á því hvernig hægt væri að sjá bunguna á Faxaflóa á öldum áður úr mismunandi hæð, og verið talinn snarklikkaður.  

 


mbl.is „Fljúgandi furðuhlutir“ í myndböndum Pentagon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Makalaust, gætirðu teiknað þetta upp eftir minni? Stærð miðað við jökulinn?Lit?

Halldór Jónsson, 30.4.2020 kl. 00:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég birti myndina af jöklinum bara vegna þess hvernig pistillinn hefst með vangaveltum um bungu jarðar á yfirborði Faxaflóa. 

Lýsing mín með tilvísun í fremsta hluta B-29 getur kannski nýst mér við útlitslýsinguna, en í stríðinu voru tvær sprengjuflugvélar, B-29 og Heinkel He-111 með nefi með þessu lagi. 

Þegar og ef tími gefst til prófa ég kannski að taka nærmyndir af framhlutum þessara flugvéla og gefa það síðan upp, að furðuhluturinn stóri sýndist vera á stærð við risastóra byggingu. 

Það var rökkur, þegar sýnin birtist, og þetta hugsanlega stóra geimfar upplýst innan frá með afar sterku ljósi. Hluturinn var á hæð við flugvélina innar í Hvalfirðinum, en þó aðeins neðar, þannig að það, að sjá hann úr þessu frá þessu sjónarhorni gerði það auðveldara að giska á stærðina heldur en hann hefði verið hærra og borðið við himin. 

Þeir, sem hafa flogið næturflug kannast við það, hvað það getur verið erfitt að meta fjarlögð upplýstra hluta eins og húsa í myrkri.  

Furðuhluturinn sást í 2-3 mínútur, nógu langan tíma til þess að fá svar frá flugumferðarstjórum þess efnis, að engin umferð við Hvalfjörð önnur en mín, sæist á ratsjá. 

Ómar Ragnarsson, 30.4.2020 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband