"Sænska leiðin" seinfær ef hjarðónæmi er æskilegt. "Ef" og "kannski" um bóluefni.

Ástandið í Svíþjóð varðandi COVID-19 faraldurinn vekur vaxandi athygli vegna hins háa dánarhlutfalls, sem þar er, meira en 300 manns á hverja milljón íbúa á sama tíma og hlutfallið hér á landi er 27 á hverja milljón.  

Sem sagt: Ellefufaldur munur.     P.S. Að kvöldi 21. maí er munurinn orðinn fimmtánfaldur. 

Fregnir hafa borist af því að ein ástæðan fyrir hinni háu tíðni meðal Svía sé sú, að mörgum af þeim, sem voru aldraðir eða með undirliggjandi sjúkdóma; eða hvort tveggja; hafi einfaldlega verið látnir deyja drottni sínum, einkumm á hjúkrunarheimilum. 

Í upphafi framkvæmdar "sænsku leiðarinnar" var það talið til kosta út af fyrir sig ef mikið yrði um smit og þar með andlát, því að þá myndu til dæmis Stokkhólmsbúar mynda hjarðónæmi, sem virkaði líkt og bóluefni. 

Nú hefur ný könnun á því máli varpað stórum efa á það að hjarðónæmi muni nást. 

Þar með beinist athyglin að því að styttra verði í það að bóluefni verði tilbúið en vonast var til, og má benda á upplýsingar á bloggsíðu Halldórs Jónssonar um góðan gang í starfi fyrirtækisins Moderna í því efni. 

Í þessum upplýsingum fyrirtækisins er greint frá gangi mála í fyrsta hluta starfsins, sem út af fyrir sig gæti orðið fyrirboði þess að nothæft bólefni finnist. 

En í seinni hluta yfirlýsingarinnar er samt sem áður eytt allmiklu máli í að lýsa ýmsum vafaatriðum og efasemdum, sem gætu komið upp og tafið vinnuna, og orð eins og "ef" og "kannski" kunni eiga eftir að verða oftar notuð en æskilegt væri. 

Þessi varfærni fyrirtækisins er skiljanleg í ljósi þess hve mörg óvissuatriði og rannsóknaratriði gætu komið upp, og að gott sé að hafa allan varann á varðandi þá ábyrgð, sem hvíli á lyfjafyrirtækjum og sérfræðilæknum og lyfjafræðingum. 

Moderna er í kapphlaupi við nokkur önnur fyrirtæki og veltur á miklu hverjar lyktir verða í því kapphlaupi. 

Þótt flugvélasmíði og lyfjaframleiðsla teljist kannski ekki beint hliðstæð fyrirbæri, má geta þess að síðustu tuttugu ár hefur mikið kapphlaup Airbus og Boeing orðið til þess, að síðarnefnda fyrirtækið flýtti sér einum um of, og sýpur nú seyðið af því. 

Hefði betur gætt betur að því að stytta sér ekki um of leið að settu marki.  

 


mbl.is Einungis 7,3% Stokkhólms myndað mótefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvernig dettur þér í hug að halda því fram að það sé ellefufaldur munur á dánarhlutfalli hér og í Svíþjóð? Gerir þú þér enga grein fyrir að þar hefur faraldurinn gengið langtum hraðar yfir en hér?

Þorsteinn Siglaugsson, 21.5.2020 kl. 20:48

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Öll vinnan er samt svo ótrúleg að maður skilur ekki upp né niður. Hvernig þeir geta tekið erfðaefnin í þáttunum adnín, thymín oasfrv  í rna veirunnar og endurraðað því þannig að það nýtist henni ekki. Algerlega óskiljanleg tækni fyrir okkur dauðlegum.

En allt getur skeð í heimi vísindanna

Halldór Jónsson, 21.5.2020 kl. 21:12

3 identicon

Það hafa einfaldlega ellefu sinnum fleiri dáið af völdum þessa faraldurs í Svíþjóð en Íslandi. Meðal annars af því að honum var leyft að fara hraðar yfir þar. Hvort það hafi verið rétt að leyfa það er svo önnur spurning. Þessi rannsókn vekur ekki góðar vonir um það.

ls (IP-tala skráð) 21.5.2020 kl. 21:15

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er út í hött að bera saman dánartölur milli landa sem hafa gjörólíka nálgun gagnvart faraldrinum. Eina skynsamlega markmiðið í þessu er það sem kallast að fletja út kúrfuna. Það snýst um að láta faraldurinn ganga eins hratt yfir og heilbrigðiskerfið ræður við. Þetta hafa Svíar gert. Á Íslandi er kúrfan horfin. Og það lofar ekki góðu upp á framhaldið. Fólk verður að gera sér grein fyrir að veiran er alls staðar á kreiki og henni verður ekkert útrýmt. Hvað sem líður bjartsýnisköstum um bóluefni er það ekki í augsýn nærri strax. Á endanum munu talsvert margir deyja úr sjúkdómnum, spurningin er bara hversu hratt það gerist og hversu miklu tjóni það veldur að reyna að tefja það úr hófi.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.5.2020 kl. 21:31

5 identicon

Semsagt, endanlega dánartalan segir til um árangur hverrar nálgunar. Eins og staðan er í dag lítur nálgun Svía ekki vel út, hvað sem síðar verður. 

ls (IP-tala skráð) 21.5.2020 kl. 21:38

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Endanlega dánartalan já. Ekki dánartalan á einhverjum tilteknum tímapunkti áður en faraldurinn er um garð genginn.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.5.2020 kl. 22:44

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrstu smitin í Svíþjóð fundust á undan fyrstu smitunum hér. Faraldurinn þar virðist vera jafnlangur og hér, og nú er dánartalan, miðað við mannfjölda þjóðanna, orðin fimmtán sinnum hærri hér en hjá okkur. 

Þetta er ekki eitthvað sem "mér datt í hug," þetta eru tölurnar. 

Ómar Ragnarsson, 21.5.2020 kl. 23:16

8 identicon

 Og ef þessar tölur um ónæmi eru réttar eiga Svíar mjög langt í langt í land að ná hjarðónæmi. Ég ætla því að halda áfram að líta svo á að þessar tölur, eins og þær eru nú (og virðast bara halda áfram í eina átt) sýni að mönnum hafi bara einfaldlega gengið betur hér. Ég veit að ÞS er ekki sammála mér, en ég er alveg sáttur við að íslenski sóttvarnarlæknirinn heitir hvorki Anders Tegnell eða Þorsteinn Siglaugsson. 

ls (IP-tala skráð) 21.5.2020 kl. 23:39

9 identicon

Þorsteinn virðist ekki gera sér grein fyrir að faraldurinn er á fullu blússi í Svíþjóð en virðist nánast lokið hér. Ekki er því hægt að segja með réttu að „þar hefur faraldurinn gengið langtum hraðar yfir en hér“, honum er alls ekki lokið í Svíþjóð.
Ef kemur önnur bylgja til Íslands, þá verður væntanlega tekið á henni á sama eða svipaðan hátt og áður sem leiðir til lítillar bylgju á skömmum tíma. Svíþjóð gæti þá enn verið á kafi í drullunni.

Nonni (IP-tala skráð) 22.5.2020 kl. 00:07

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er fjarri lagi að faraldrinum sé lokið hér. Um leið og landið verður opnað aftur blossa smitinu upp að nýju. Það er furðulegt að fólk skuli ímynda sér að faraldrinum sé lokið þegar fyrir liggur að smit eru enn á fullu erlendis og landið verður að sjálfsögðu ekki lokað til eilífðarnóns. Nema menn séu svo miklir kjánar að ímynda sér að slíkt gangi upp.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.5.2020 kl. 08:55

11 identicon

Þessi leið sem stjórnvöld í Svíþjóð völdu er hreinasti hryllingur.  Lengi vel hélt maður að mannúð væri eitt af höfuðstoðum Svíaríkis.  Allt er þetta fokið út í veður og vind. 

Hilmar Bjarnason (IP-tala skráð) 22.5.2020 kl. 15:57

12 identicon

Faraldrinum er meira og minna lokið á Íslandi. Í bili. Kannski til frambúðar, það veit enginn. Allra síst Þorsteinn Siglaugsson neikvæður heimsendaspámaður og Svíaklappstýra. Kjáni, svo notuð séu orð hans sjálfs.
Hann hefur væntanlega aldrei þrifið heima hjá sér. Þegar búið er að þrífa er þrifnaði lokið. Þangað til næst. Sama á við um þrif á fatnaði, fötin eru hrein inni í skáp þar til þau hafa verið notuð aftur. Þá er sett í þvottavél.
Þetta er ágætt dæmi til að lýsa þessum faraldri. Ef landinu væri haldið lokað er harla ólíklegt að nokkuð smit kæmi upp aftur. Ef faraldurinn blossar upp aftur, þá þarf aftur að þrífa. Meira að segja kjánar ættu að skilja þessa samlíkingu. :-)

Nonni (IP-tala skráð) 25.5.2020 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband