Misjöfn snjóalög á hálendinu.

Snjóalög á hálendinu á leiðinni frá Rangárvöllum til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum í opnunarleiðangri í gær  reyndust vera mjög misjöfn.IMG_0381

Það skiptir miklu máli fyrir þá, sem sækjast eftir ferðum um hálendið og þar með líka þá, sem hyggjast standa fyrir ferðum og leiðsögu um Hjarta landsins. 

Sem dæmi má nefna, að Sauðárflugöllur, sem er í 660 metra hæð yfir sjó, var marauður og miðað við loftmyndir og veðurathuganir á veðurstöðinni Brúaröræfi, sem er rétt hjá vellinum, hefur hann líkast til verið auður mestallan maímánuð og því vel nothæfur. 

Á efstu myndinni hefur verið lent á TF-ROS, en í fjarska er jökulhvel Brúarjökuls, stærsta skriðjökuls á Íslandi. 

Þarna var 11 stiga hiti, en hitinn að undanförnu hefur hitinn farið marga daga upp í 10-12 stig. 

Nú er spáð kuldakasti í tvo daga, og í dag er aðeins tveggja stiga hiti. DSC00297

En ef til vill hlýnar eftir helgi. 

Skipt var um vindpoka og flugbrautirnar allar skoðaðar. Þetta flugvallarstæði vekur endalausa undrun fyrir það, hvernig það þornar og verður hart jafnvel vikum fyrr en umhverfið. 

Í heimsókn komu bræðurnir Jón Karl Snorrason og Haukur Snorrason og Snorri, sonur Jóns Karls, á Jodel-vélinni TF-ULF. 

Á myndinni glyttir í Snæfell í baksýn.  

Hins vegar er kolófært allt í kringum flugvöllinn.DSC00293

Bæði er það vegna skafla í lautum og skorningum og einnig vegna þess, að svo virðist sem mikill klaki hafi komist í jörðu fyrr í vetur, líkast til eftir mikla rigningu sl. haust, sem síðar hefur farið í frost í hörðu kuldakasti strax á eftir.

Og fyrir utan völlinn eru sums staðar djúp kviksyndi eða aurbleytur á milli skaflanna.  

Á myndinni er horft til norðurs yfir Brúaröræfi, svæðið milli Grágæsadals og Sauðárdals, og sést Kárahnjúkur fyrir miðri mynd í fjarska. DSC00289

Mikill snjór er víða allt frá Snæfelli að ánni Kreppu, en þar fyrir vestan er stórt svæði, sem hefur greinilega verið að mestu autt í margar vikur, það er frá Dyngjujökli og allt norður til Herðubreiðarlinda. 

Á mynd hér við hliðina er horft í átt til Herðubreiðar, en góð von ætti að vera um að leiðirnar á þessu svæði, milli Krepputungu og Öskju, geti orðið færar á skaplegum tíma. 

Hugsanlega verður hægt að opna á venjulegum tíma inn í Öskju, en við Drekagil sýndist vera minni snjór en í fyrra. 

Mikill snjór er enn á Gæsavatnaleið og Dyngjufjallaleið og einnig á Sprengisandsleið. DSC00282

Á neðstu myndinni úr ferðinni í gær er horft úr suðri yfir hluta Þórisvatns, og eru Kerlingarfjöll og Hofsjökull í fjarska. 

Enn er ekki farinn allur ís af Þórisvatni og mikill snjór virðist vera á Fjallabaksleið nyrðri austan Landmannalauga. 

 


mbl.is Þúsundir bókana til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband