"Hvernig fannst þér Landmannalaugar?" "Hræðilegar; alltof margt fólk."

Þetta voru nokkurn veginn orðaskiptin í sjónvarpsþætti í kvöld um útlending, sem hefur ferðast fótgangandi og berfættur um Ísland. 

Hann rómaði víðernin á hálendinu en þegar hann var spurður um Landmannalaugar, kvað við annan tón. 

"Alltof margt fólk; mikil vonbrigði." 

Okkur Íslendingum virðist það erfitt að skilja það, eftir hverju útlendingar sækjast hér á landi og búið er að auglýsa erlendis. 

Gott dæmi voru ummæli á ráðstefnu um gildi hálendisins hér um árið, þegar maður einn við aldur reis upp í salnum og sagði: "Ég sit ekki lengur hér undir einhverju kjaftæði um auðnir, hraun og eldfjöll á hálendinu. 

"Ég er búinn að eiga heima á Austurlandi í meira en hálfa öld og veit, hvað við eigum að nota til þess að lokka til okkar erlenda ferðamenn. Það er Hallormsstaðaskógur!!"

Með þeim orðum rauk hann á dyr, sannfærður um það að fólk, sem byggi skógi vaxin lönd erlendis myndi flykkjast til Íslands til að skoða Hallormsstaðaskóg. 

Í ummælum um myndir á facebook af Teigsskógssvæðinu á facebook má lesa þau orð, að mikið verði það nú mikil framför að geta þeyst á 90 kílómetra hraða eftir beinni, breiðri og hábyggðri hraðbraut eftir endilangri ströndinni þegar búið verði að mylja hana undir hið glæsilega mannvirki. 

Félag um framfarir setti fyrir nokkrum árum stórskipahöfn í Loðmundarfirði með uppbyggðri hraðbraut þaðan beint strik eftir endilöngu miðhálendinu til Reykjavíkur sem takmark, sem keppa þurfi að. 

Síðan hafa komið fram enn stórbrotnari hugmyndir um svipaða stórskipahöfn í Finnafirði, sem keppi við Bremerhaven um stórskipaflutninga á olíuauðnum, sem dælt verði í stríðum straumum upp úr botni Norðurhafa.  

 

 


mbl.is Leitaði uppi fegurðina eftir veikindi sonarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Þetta var feikn skemmtilegur þáttur!
Sá mest eftir því að hafa ekki horft
á fyrri þætti þá loksins að hálendinu
voru gerð einhver skil.

Húsari. (IP-tala skráð) 15.6.2020 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband