"Sjáumst á ný." Einstök rödd.

Sumar söngraddir eru svo einstakar, að það er varla vogandi fyrir aðra að ætla sér að syngja vinsælustu lögin, sem þessar raddir túlkuðu. 

Einnig eru til lög, sem eru sungin þannig, að þau eru alveg einstök fyrir þennan söngvara og því erfitt fyrir aðra að túlka þau. 

Í hugann koma erlend lög eins og "Crasy" hjá Patsy Cline, "What a difference a day makes" með Dinah Washington og nokkur lög, sem Ellý Vilhjálmsdóttir söng hér heima. 

"We meet again" með Veru Lynn er hugsanlega þekktasta lagið af þessum toga. "White cliffs of Dover" er ekki langt undan. Það er einhver sérstakur tregatónn í röddinni, sem gerir túlkunina svo ágenga og heillandi. 

Þetta er svo vinsæll fjöldasöngur hjá Bretum, að þeir syngja þetta saman nokkurn veginn hvar sem þeir eru staddir. 

Ross Parker gerði ljóðið, og það er nokkuð óvenjulegt að því leyti hvað enskan texta snertir, að það er bæði innrím og endarím í honum. 

Ef þýða ætti textann á Íslensku yrði líka að gera kröfur til ljóðstafa, og miðað við það, hve ensk orð eru yfirleitt styttri en íslensk, hélt síðuhafi lengi vel, að ómögulegt væri að þýða textann.  

En þegar sérstakar aðstæður knúðu á tilraun, kom í ljós, að í fyrstu tveimur ljóðlínunum koma orðin "...meet again.." tvisvar fyrir. 

Með því að nota orðin aðeins einu sinni opnaðist glufa fyrir þýðingu og í minningu Veru Lynn er hér þessi íslenska þýðing. Þess má geta, að í upphafi lags og í miðju er stef í því, sem sjaldan er sungið, en er hér haft með:   

 

SJÁUMST Á NÝ. 

 

Klökknandi kætumst og gleðjumst; 

þegar við kveðjumst blika tár. 

Gott er um góðvini´að dreyma; 

aldrei gleymast hin hugljúfu ár. 

 

Sjáumst á ný björtu sólskini í, 

þótt um stað og stund við vitum ekki nú. 

Bros gegnum tár munu´um ókomin ár

bægja öllum skýjum burt, það er mín trú. 

 

Ó, kysstu alla frá mér, vini´og vandamenn hér, 

biðin verður ei löng, 

og tjáðu þeim mína ást; er þú síðast mig sást; 

að ég söng þennan söng: 

 

Sjáumst á ný björtu sólskini í; 

glöð og sæl við hittumst aftur, ég og þú.  

 

Birtir upp öll él um síðir;

þú engu kvíðir um vorn hag. 

Ást okkar ekki við byrgjum; 

ekkert syrgjum við nú, hér í dag. 

 

Sjáumst á ný...o. s. frv. 


mbl.is Vera Lynn látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Undurfallegt Ómar. <3

Ragna Birgisdóttir, 18.6.2020 kl. 13:45

2 identicon

What a  Wonderful World  -  Louis Armstrong 

er meistara verk sem ég hef aldrei séð íslenskan texta við?

en vissulega sungu jafnvel Pink Floyd um Veru Lynn

Grímur (IP-tala skráð) 18.6.2020 kl. 14:46

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það voru þeir félagar, Þorgeir Ástvaldsson og Ragnar Bjarnason, sem báðu mig að spreyta mig á þessum texta. 

Ég svaraði því til að þetta væri einn af þremur enskum textum, sem ekki væri hægt að gera íslenska texta við. 

Hinir væru "Smoke gets in your eyes" og "My way." Hefði getað bætt "What a wonderful world" við.  

Ómar Ragnarsson, 18.6.2020 kl. 21:33

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get núna bætt við eina stóra enska textanum, sem ég hef samið; "Let it be done!"  

Ég hugðist þýða hann yfir á íslensku, en gafst strax upp. 

Ómar Ragnarsson, 18.6.2020 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband