Mark Esper espir ekki Kínverja?

Gott er, ef hugur fylgir máli hjá Mark Esper varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í því að bera klæði á vopnin í deilum BNA og Kinverja, því að forsetinn og utanríkisráðherrann þurfa á sameiginlegum óvini að halda til að fá þjóðina til að fylkja sér á bak við forsetann fyrir komandi kosningar.

Að beina athyglinni að erlendum óvini er gömul og ný saga hjá valdafíknum valdamönnum, sem freistast til að espa útvalinn óvin og gera svipað og sagt var eitt sinn um íslenskan stjórnmálamann: "Hann þiggur ekki frið ef ófriður er í boði."  

Forsetinn þreytist ekki í smáu og stóru að stilla málum þannig upp að stefna Kínastjórnar sé að koma í veg fyrir endurkjör hans, meðal annars með því að þrástagast á því að kalla kórónaveiruna "Kínaveiruna", en mætti þá kannski minnast þess að HIV-veiran var fyrst lýðum kunnug í Bandaríkjunum, og engum datt samt í hug að kalla hana Kanaveiruna. 

 


mbl.is Varnarmálaráðherra BNA hyggst heimsækja Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Ómar. 

Varnarmálaráðherrann Mark Esper er ekki kjörinn Ómar. Hann starfar fyrir Trump forseta og fer þangað sem Trump segir honum er að fara. Hann er ekki að fara til Kína til að bera klæði á vopnin heldur til að sýna þau. Hann er ekki að fara friðþægingarferð eins og gert var svo hrapalega rangt og aulalega í aðdraganda Síðari heimsstyrjaldarinnar, og sem kom henni í gang með því að gefa þáverandi villimannagengi á borð við Kína nútímans rangar hugmyndir, heldur er hann að fara, ef hann þá fer, til að gera Kína grein fyrir því að yfirgangur þeirra í Suður-Kínahafi verður ekki liðinn og að Bandaríkin munu halda áfram að selja vopn til Taívan, því ekkert sé að marka undirskriftir Kína undir bindandi sáttmála, þar sem einu landi með tveimur kerfum var lofað fram til 2047. Mark Esper varnarmálaráðherra er sendiboði Trumps, sem er réttkjörinn forseti voldugasta og öflugasta þjóðríkis mannkynssögunnar.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 21.7.2020 kl. 17:41

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það er ekki sniðug hugmynd að friðþægja Kínverja.  Þeir eru að breiða úr sér núna.

Hefurðu ekki heyrt hvað ástralir eru að segja um þá?  Þeir búa nær þeim.

Um að gera að böggast aðeins í ínverjum, en ekki einhverjum Aröbum sem hafa ekki tök á miklu.

Ásgrímur Hartmannsson, 21.7.2020 kl. 18:21

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef Esper fer í heimsókn til Kína, þá flokkast það undir þá aðferð að leysa deilumál og skýra þau á sameiginlegum fundum eftir diplómatiskum leiðum til að báðir aðilar hafi vald á atburðarásinni í stað þess að beita vopnum beint og missa öll tök. 

Svona hliðstætt því þegar deiluaðilar í vinnudeilum reyna að leysa þær á fundum hjá Sáttasemjara ríkisins. 

Slíkt er siðaðra og raunsærra manna háttur, sem ekki þarf að tala niður sem friðþægingarstarfsemi.   

Ómar Ragnarsson, 21.7.2020 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband