"Ísland - ísinn og landið."

´"Ísland, landið, sem kennt er við ísinn og klakann

og okkur finnst stundum svo myrkvað og stirðnað og kalt, 

að góðskáldin forðast að yrkja um garrann og rakann

og glætuna´í skammdegisdrunganum, slagveðrið svalt. 

 

Þá vill okkur gleymast að ísinn er auðlindin mesta; 

afkvæmi vatnsins, sem skapar allt líf hér á jörð; 

að vatnið og ísinn er verðmætið dýrasta´og besta, 

sem veitt er af gnægð okkur, smæstum í þjóðanna hjörð. 

 

í hjarnjöklum landsins býr orkulind eins og í sjóði

sem úthlutað verður úr síðar í fallvatna straum. 

Er skammdegissólin þá litar með loganna blóði 

þeir lokka þig inn í magnaðan algleymisdraum. 

 

Í samspili gufunnar, vatnsins, sólar og frera 

í síbreytileika, sem skapar og eyðir á ný, 

býr endalaus fjölbreytni; ekkert þú sérð þarna vera, 

sem aftur þú líta munt sköpunarverkinu í.  

 

Já, þetta´eru listaverk íssins, fegurðin falda

í feiknsölum trölla og álfa, sem eiga þar ból; 

hinn silfraði blátæri frostljómi´í freranum kalda

og fagurskapaðir skúlptúrar, glitrandi´í sól. 

 

Skuggar og snjóbirta, ljósbrot í láréttum geislum

í logandi kristöllum tvístrast um skara og hjarn, 

þar sem ótal ljósstafir augunum bjóða í veislu

svo þú undrast og hrífst og ljómar og gleðst eins og barn. 

 

Já, þó að við elskum mest sumarsins sætkenndu blíðu

og sitjum í vetrarins rökkri í bið eftir yl, 

býr ótrúleg hrífandi fegurð í frosti og þíðu, 

sem flétta oft saman sitt tröllaukna sjónarspil. 

 

Fjölbreytni´á smábletti í frostrósunum er meiri 

en fundið menn geta á sumri í heilum dal. 

Og listaverk íssins, þau eru stærri og fleiri 

og alltaf að breytast í vetrarins sýningarsal. 

 

Þú, Ísland, landið, sem kennt er við ís og við klaka

og okkur finnst stundum svo myrkvað og stirðnað og kalt; 

þegar jöklarnir síga og byltast og braka

þú býrð yfir ómældum töfrum, sem fegra það allt. 

 

Líf okkar þjóðar ísnum og vatninu háð er, 

sem er eitt og sama, getið af sólgeisla fjöld. 

Í þessum ljósstöfum íssins og vatnsins skráð er

:,:  ævintýr sköpunarverksins, öld fram af öld :,: 

 

 


mbl.is Hvernig Ísland er að bráðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband