Verður ættarnafnafrelsið skeinuhættasta atriði breytinganna?

Staða kenninafna í íslenskum mannanöfnum er ekki bara einhver tiktúra og sérviska, heldur bæði jafnréttisatriði og mikilvægt verðmæti í ímynd þjóðarinnar. 

Langflestir útlendingar lýsa yfir ánægju og næstum því öfund yfir því, að hér á landi séu konur ekki skyldar til að taka upp ættarnöfn eiginmanna sinna.  

Nú verður slíkt að vísu ekki neglt niður með því að gefa ættarnöfn frjáls, en algert frelsi varðandi þau gefa þeim hættulegt forskot á kenninöfnin, sem gjalda verður varhug við að gera tilraunir með.  

Tveggja nafna hefðin, sem hefur rutt sér til rúms, lumar líka á ákveðinni hættu gagnvart kenninöfnunum, sem sé þeirri að kenninafnið falli dautt niður. 

Vafalaust er aukið frjálsræði í nýjum mannanafnalögum í góðu lagi, og til dæmis of langt gengið að innflytjendur séu skyldaðir til að kasta nöfnum sínum. 

En íslensk tunga á það inni að vandað sé sem best til verka og málrækt höfð í heiðri. 

Og þar með að fara með gát í breytingar, sem geti ógnað því dýrmætasta, sem prýðir gott íslenskt mál.  

 


mbl.is Ekki einhugur um mannanafnafrumvarp innan VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Það er áhugavert að þú skulir nefna jafnrétti en verja síðan núverandi lög! Vandinn við þau er þó einmitt sá að þau eru gróft brot á jafnræðisreglu. Þau eru m.a.s. stjórnarskrárbrot, þar sem ekki má setja lög sem mismuna borgurunum. En það gera lög Bjarna frá Vogi frá 1925 og þau nafnalög sem síðan hafa verið sett einmitt!

Þeir Íslendingar sem komnir eru undan sýslumönnum, prestum eða dönskum kaupmönnum mega heita Thorarensen, Thorlacius, Briem eða Sívertsen en sauðsvörtum almúganum er gert að heita Guðmundsson eða Guðmundsdóttir og hafa ekkert val þar um. Þetta er svo varið með því að verið sé að verja menningararfinn! Það er eins og ef yfirstéttin (10% þjóðarinnar) mætti ganga á blankskóm en hinir þyrftu að paufast um á sauðskinnskóm af því að það er svo þjóðlegt!

Síðan má ekki gleyma því að af þeim 50.000 útlendingum sem hingað hafa flust kjósa sífellt fleiri að sækja um ríkisborgararétt. Þegar hann er fenginn halda þau sínum ættarnöfnum og mega láta þau ganga áfram til sinna niðja. "Nýir Íslendingar" hafa þar með meiri rétt en 90% innfæddra! Þetta er auðvitað ekki sagt innflytjendum til hnjóðs, enda er þetta okkar eigin klúður. 

Því miður hefur enginn Íslendingur kært þessi ólög en þau myndu aldrei standast skoðun á æðra dómstigi. 

Mín tillaga er að allir Íslendingar hljóti skírnarnafn(-nöfn), föður-og/eða móðurnafn og ættarnafn. Þannig er það í Rússlandi og víðar og ekki eru Rússar útdauðir þess vegna!

Sæmundur G. Halldórsson , 13.10.2020 kl. 23:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það jafnrétti, sem ég á við, felst í því að forðast það sem mest að hér á landi verði svipað ástand og er í öðrum löndum, að konur þurfi að taka upp ættarnafn eiginmanns síns. 

Það verður hins vegar seint hægt að ná jafnrétti á öllum sviðum þessa máls, það játa ég. 

Ómar Ragnarsson, 14.10.2020 kl. 00:38

3 identicon

Er eitthvað hefð ef það lognast útaf og deyr strax og þvingunum er aflétt?

Og drekkum okkur öll full og borðum úldinn hákarl á föstudögum, útlendingunum þykir það svo krúttlegt en ofdrykkja og át á skemmdum mat eru mikilvæg verðmæti í ímynd þjóðarinnar. Setjum það í lög.

Langflestir útlendingar sem hingað koma eru frá löndum þar sem konur eru ekki skyldar til að taka upp ættarnöfn eiginmanna sinna. Og í sumum þeirra er notast við eða heimilt að notast við kenninöfn eins og hér. Í flestum löndum duga hefðir og siðir þar sem við viljum lagabókstaf og þvinganir. Sennilega er það eina fágæta í Íslenskri mannanafnahefð orðið "dóttir", annað er víða að finna og langt frá því að vera eitthvað einstakt.

Innflytjendur hafa ekki verið skyldaðir til að kasta nöfnum sínum í 24 ár.

En íslensk tunga á það inni að hún sé ekki vernduð í spað og endi sem safngripur sem enginn vill nota.  ---Evolve or die.---

Vagn (IP-tala skráð) 14.10.2020 kl. 01:02

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Seint mun jafnrétti teljast fullkomið Sæmundur, en sé ekki alveg hvað þú átt við með að núverandi kerfi valdi meiri órétti en það sem boðað er. Vissulega má setja út á ýmis störf mannanafnanefndar, en það þarf ekki að umbylta lögum vegna vafasamrar vinnu embættismanna. Hægt að laga það sem aflaga hefur farið en halda hefðinni.

Annars verður helst lesið úr athugasemd þinni að það sé einhver öfund í gangi, að einungis "yfirstéttin" fá frelsi til ættarnafna en almúginn verði að skrifa sig "son" eða "dóttir". Er þá umræðan ekki farin að snúast fyrst of fremst um snobb?

Gunnar Heiðarsson, 14.10.2020 kl. 07:52

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held ekki að konur séu almennt skyldugar til að taka upp ættarnöfn eiginmanna sinna í nágrannalöndum okkar.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.10.2020 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband