Verður ekki að fara að taka Thanksgiving og þriðjudag og miðvikudag með?

Fyrir rúmum þrjú hundruð árum tóku nokkrir tugir Evrópubúa land í Massachusetts og var þar tekinn upp þakkargjörðardagur af því tilefni, sem Íslendingar hljóta að kalla Thanksgivin Day til að vera menn með mönnum. 

Smám saman breiddist hann út vestra og er frídagur síðasta fimmtudaginn í nóvember, að hluta til uppskeruhátíð líkt og töðugjöldin voru hér á landi, sem aldrei voru þó gerð að frídegi.  

Af því að föstudagurinn á eftir Thanksgiving er klemmdur einn og sér á milli Thanksgiving og helgarinnar þar á eftir sáu kaupahéðnar sér hag í því að blása hann upp sem sérstakan ofurverslunardag undir heitinu Black Friday. 

Þegar netverslun fór að blómstra sáu kaupahéðnar enn leik á borði og tóku upp fyrirbærið Cyber Monday til að kóróna allt tilstandið, sem er auðvitað líka hér út af landtöku hóps af fólki fyrir langalöngu á austurströnd Bandaríkjanna, sem aldrei hafði nein tengsl við íslenska sögu. 

Það leiðir hugann að Thanksgiving Day, sem var upphaflega forsendan fyrir Black Friday og Cyber Monday. 

Nú hlýtur næsta skref í snobbinu hér á landi fyrir sögu enskumælandi þjóða Ameríku að gera gangskör að því að við tökum Thanksgiving Day upp sem löggiltan fridag með öllu því mikla tilstandi sem frídagar geta haft.  

Þá þarf ekki annað en að bæta við þriðjudegi og miðvikudegi til þess að þetta verði vika, sem verður heilagri og merkilegri á alla lund en jól, páskar eða nokkur önnur hátíð hér á landi.

Og svo merkilegur er Black Friday orðinn, að það er sérstök frétt að þessi stórhátiðardagur hefjist á miðnætti!  

Og út af tilefni sem aldrei snerti okkur eða okkar sögu neitt. 


mbl.is Svartur föstudagur hefst á miðnætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að það hafi heldur ekki snert okkur eða okkar sögu neitt þegar við hófum að halda upp á merkisdaga í lífi gyðings sem var drepinn af Rómverjum 1000 árum fyrr. Mánuðirnir koma frá Róm og ekki sé ég víkingana fyrir mér fastandi á föstudögum. Veitingamaður á Naustinu kom þorrablótum í þjóðarsálina á miðri síðustu öld. Bæjarhátíðir, aðrar en Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, þekktust bara í útlöndum í minni æsku. Og ekki var það gróðurfar og veður sem setti sumardaginn fyrsta í Apríl.

12345 er frá Arabíu og abcde frá Ítalíu. Rokk og ról, óperur og sinfóníuhljómsveitir fundu áar okkar ekki upp. Pizza, hamborgari, pasta og prentverk er ekki ættað úr Borgarfirðinum. o.s.frv. o.s.frv.

Vagn (IP-tala skráð) 27.11.2020 kl. 04:04

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sumardagurinn fyrsti er eins alíslenskur og viðeigandi og hugsast getur hjá þjóð þar sem árstíðaskiptin eru eins mikill þáttur í lífi hennar. 

Það er rétt hálft ár á milli fyrsta sumardags og fyrsta vetrardags og meðalhitinn er álíka á báðum dögum, í kringum 4 stig. 

Farfuglarnir eru koma í sumarbyrjun og fara á haustin. menn taka vetrardekkin undan bílunum að jafnaði í lok apríl og setja undir í lok október. 

Ómar Ragnarsson, 27.11.2020 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband