Valtað yfir helgistað sem var í friði frá landnámi.

Myndin sem fylgir tengdri frétt sýnir hálfa söguna gagnvart vesturhlið Austurvallar. 

Norðurhluti vesturmarka vallarins var opinn reitur allt frá landnámi, þar sem mjög er líklegt að hafi farið fram sérstök trúarathöfn þegar öndvegissúlurnar, nokkurs konar heimilisguðir hins trúaða landnámsmanns, sættust við landvættina með yfirbragði fórnar. 

Síðar varð reiturinn að kirkjugarði í kristnum sið, en öndvegissúlurnar nutu slíkrar virðingar, að þær voru samkvæmt rituðum heimildum "enn í eldhúsi" í meira en tvö hundruð ár eftir að kristni var lögtekin og heiðni lögð af. 

Sjálfur sagði Ingólfur að Hjörleifur fóstbróðir hans hefði goldið það með lífi sínu, að vera trúlaus og vanrækja að friðmælast við landvættina. 

Í stað þess að Alþingishúsið fengi að halda sínu lágmarks andrými norðan Kirkjustrætis var hótelkastala troðið ofan í helgireitinn og látinn byrgja fyrir allt útsýni og eðlileg lágmarks tengsl Austurvallar við svæðið vestan hans. 

Þegar litið er yfir húsabyggðina í Kvosinni svonefndu blasir við hreint yfirgengilegt minnismerki um hið hrikalega hótelæði, sem hefur umturnað þessu svæði allt frá Miðbakkanum og Hörpureitnum til Tjarnarbakkans við Vonastræti, þvert ofan í eindregin mótmæli og bón heiðursborgara Reykjavíkur. 

Gnótt ofurhótela á þessu svæði er svo yfirþyrmandi að ekki var hin minnsta þörf á hervirkinu gegnt Alþingishúsinu, heldur þvert á móti full ástæða til að stöðva þetta æði þar. 


mbl.is „Nýtt“ Landssímahús kemur í ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband