Skotfimi lögreglumanna var atriði í þjálfun þeirra strax fyrir stríð.

Það hefur alla tíð verið stór hluti af þjóðarímynd Íslendinga að við værum vopnlaus þjóð. 

Allt frá fullveldinu 1918 til stríðsbyrjunar 1939 var hlutleysi landsins önnur hlið þessarar hugsunar og sömuleiðis sú trú, að þegar allt væri vegið og metið væri hlutleysið skásti kosturinn fyrir örþjóð eins og okkur; við ættum hvort eð er aldrei möguleika til að verjast erlendu herliði. 

Vitað er að Hermann Jónasson, sem var lögreglustjóri í Reykjavík á tímabili og síðar forsætisráðherra 1934 til 1942, iðkaði skotfimi. 

Var meira að segja sakaður um að hafa skotið friðaða æðikollu við Örfirisey. 

Út af því orti hann: 

Ævi mín er eintóm leit

eftir villtum svani, 

en ég er eins og alþjóð veit

aðeins kollubani.  

Málið lognaðist útaf. 

Liður í þvi að efla getu lögreglunnar þegar ófriðarblikur dró á loft 1939 var að senda Agnar Kofoed-Hansen, þáverandi flnugmálaráðunaut ríkisstjórnarinnar, á sérstakt námskeið fyrir verðandi lögreglustjóra til lögregluyfirvalda erlendis, þar sem þau mál væru sérstaklega vel af hendi leyst. 

Agnar var tregur til, en á móti kom að vegna starfa sinna erlendis sem flugmaður bæði í Noregi, Danmörku og hjá Lufthansa í Þýskalandi, þar sem hann hafði komist í kynni við menn í innsta hring nasista, gat hann aflað sér færni á þessu sviði á besta mögulega stað, hjá Gestapo í Þýskalandi. 

Þetta gerðist beint í kjölfar þess að hann hafði sem flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar ráðlagt eindregið, að ósk Hitlers um bækistöðvar og aðstöðu Lufthansa hér landi fyrir Atlantshafsflug yrði hafnað. Vakti þessi neitun heimsathygli á þeim tíma sem enginn þorði að standa uppi í hárinu á Hitler.

Agnar var röggsamur lögreglustjóri og skotfimi var greinilega í metum hjá honum þegar hann og lagði mikið upp úr þjálfun íslenskra lögreglumanna. 

Í endurminningum sínum segir Agnar frá því að svo vel hafi hann þekkt til í Þýskalandi, að í samkvæmi hjá mönnum í innsta hring nasista, hafi verið ráðgert að það yrði eins konar skemmtiatriði að hann færi í keppni í skotfimi við sjálfan Heydrich, sem var einn af valdamestu mönnum landsins og dáður sem eins konar módel hins hreina Aría, goðum líkur að útliti og líkamsburðum. 

Heydrich komst ekki til samkvæmisins og ekkert varð af einviginu. 

En það er ljóst að meðferð skotvopna á sér að minnsta kosti meira en 80 ára forsögu hjá lögregluyfirvöldum hér á landi. 

Og einnig það, að Agnar Kofoed-Hansen var framsýnni en aðrir varðandi afstöðuna til Hitlers og gerði þjóð sinni ómælt gagn með þeim ráðleggingum, sem hann gat gefið í krafti mikillar og víðtækrar þekkingar á flugi og flughernaði. 

Þær voru einfaldlega þannig, að ef orðið yrði við kröfum Hitlers, væri það sama og ávísun á það að við drægjumst eins fljótt og hugsanlegt var inn í komandi hernaðarátök á hinn versta hátt.  


mbl.is Aukin umræða um vopnaburð innan lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Hann hét nú víst Reihnhard Heidrich víðfræg skytta. Þótti heldur ókvalráður. Bretar létu drepa hann í Tékklandi held ég 1942. 

Halldór Jónsson, 17.2.2021 kl. 03:26

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Agnar Kofed var einstakur maður og ógleymanlegur sem ég kynntist talsvert.

Halldór Jónsson, 17.2.2021 kl. 03:27

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Það var kjaftað um það þá að Agnar væri í raun sonur Hermanns Jónassonar ráðherra, sem átti forláta styttu af SS manni sem gjöf frá öðrum Hermanni(Göring).

Ég man að ég horfði á þá báð standa saman sunnan við veizluborð heima hjá Hákoni Bjarnason skógræktarstjóra, sem stundum opnaði heimili sitt fyrir móttökur á vegum Skógræktar Ríkisins í sparnaðrskyni fyrir Ríkið  og bauð þangað fyrirmönnum og fékk ég að vera goskall stundum við þau tækifæri gegn því að fá veizlukost að smakka. En Agnar og Hermann voru miklir stuðningsmenn Skógræktar í landinu og Hákon alltaf sagður vera í sama stjórnmálaflokki og þáverandi landbúnaðarráðherra, þvílíkur áróðurssmaður og trúboði sem hann var.

Ég man að ég hugsaði þá, smástrákurinn, að sjaldan lygi almannarómur. Svo líkir voru þessir tveir mennn að allri gerð, málrómur, fas og líkamsbyggingu að með eindæmum var. Báðir voru líka höfðingjar sem af báru af mannkostum að allri gerð.

Halldór Jónsson, 17.2.2021 kl. 03:49

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Heydrich var upphaflega falið að hafa yfirumsjón með útrýmingu Gyðinga, en tékkneskir andófsmenn veittu honum fyrirsát þar sem hann ók í opnum bíl og drápu hann með hendsprengju þegar Heydrich gerði þau afdrifaríku mistök að ætla sér að fara í skotbardaga við Tékkana. 

Í hefndarskyni drápu nasistar íbúa heils þorps, Licice, en Heinrich Himmler tók við hlutverki Heydrichs. 

Ómar Ragnarsson, 17.2.2021 kl. 08:10

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Billedresultat for Hermann Jónasson

Fékk Hermann ekki styttuna frá Heinrich Himmler?

FORNLEIFUR, 17.2.2021 kl. 08:57

6 Smámynd: Hörður Þormar

Einhvern tímann heyrði ég að Agnar Kofoed-Hansen hefði farið með sveit lögreglumanna á skotæfingar "austur fjall" þann 10. maí 1940.

Hörður Þormar, 17.2.2021 kl. 10:09

7 Smámynd: Hörður Þormar

Ath. "austur fyrir fjall" átti þetta að vera.

Hörður Þormar, 17.2.2021 kl. 10:11

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mjög áberandi merki SS-sveitanna, svört hauskúpa með krosslögðum leggjum, er framan á einkennishúfu Himmlers á flestum myndum af honum.

Hann hafði svo mikinn áhuga á höggmyndalist, grafík og málaralist, að hann styrkti tvo Íslendinga sem unnu hjá Guðmundi frá Miðdal til náms í mótasmíði og þessum fræðum í Dachau í Þýakalandi 1938. 

Mikil áhersla var lögð á sem fjölbreyttasta og mesta framleiðslu hvers kyns minjagripa og einkennismerkja fyrir þýska herinn og nasistana, en eina eintak slíks á Íslandi er varðveitt svo vitað sé, og blasir við þeim sem þessar línur skrifar.

Bakkinn var gerður geftir stríð árið 1948, stór brúnn kringlóttur öskubakki, átta tommur í þvermál, með merki SS-sveitanna, hauskúpu með krosslögðum leggjum, úti við bríkina sem er á jaðri bakkans. 

Leggirnir liggja þversum fyrir framan kúpuna, en standa ekki út úr kjaftvikum hennar eins og algengast er. 

Undir bakkann eru meitlaðir stafirnir B.Á. 1948 - Funi.  Baldur Ásgeirsson gaf Ragnari Edvardssyni þennan bakka á 26 ára afmælisdegi Ragnars. 

Já, stundum er heimurinn lítill.  

Ómar Ragnarsson, 17.2.2021 kl. 13:24

9 identicon

Þegar Agnar K. var getinn, var Hermann Jónasson tæplega 18 ára menntaskólapiltur. Er líklegt að Emilía Kofoed-Hansen, 36 ára borgaraleg frú, hefði tekið þennan pilt uppí til sín? Hefði það átt að gerast heima hjá henni, eða hvað? Eða hefði hún átt að koma í herbergið til hans?

Ég hef nefnt það áður: Þór Whitehead segir frá því að styttuna fékk Hermann frá Himmler, sem var að reyna að fá hann á Ólympíuleikana 1936, en Hermann neitaði.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 17.2.2021 kl. 15:29

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Voru þeir kannski frændur? Oft er eitthvað líkt með skyldum?

Halldór Jónsson, 17.2.2021 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband