Minnsta gos í heimi varð sennilega í Kröflueldum.

Í einni af umbrotahrinum Kröfluelda, sem ekki er skráð sem eldgos, hljóp lítið kvikuinnskot til suðurs frá miðju svæðisins, sem var við Leirhnjúk, og var gefin út aðvörun um hættu á því að í stað þess að öll niu eldgosin sem þarna urðu, komu upp fyrir norðan Leirhnjúk og fyrsta gosið utan í hnjúknum sjálfum, gæti gosið á sprungu sem lægi til suðurs um Bjarnarflag. 

Þetta gerðist um hánótt í dimmri hríð að vetrarlagi, svo að fjölmiðlamenn hlupu til og óku upp að Bjarnarflagi þar sem ekkert gos sást. 

Með stærðarinnar vasaljós að vopni var ákveðið að skyggnast örlítið víðar, og byrja á stórri gjá úr Mývatnseldum sem liggur í norður frá Bjarnarflagi. 

Þegar komið var inn í Krummagjá var allt í einu eins og eldingu lysti niður í allan hópinn í einu.  Menn litu hver á annan, og orðalaust, án þess nokkur mælti orð frá vörum, tóku allir á rás til baka, því að við hafði blasað sýn, sem var fáránleikinn í hæsta veldi: 

Hópur manna að leita að eldgosi með vasaljósi!

Daginn eftir sást að umhverfis borholurör í Bjarnaflagi var dökk hraunmylsna dreifð yfir kringlótt svæði kringum borholuna, og einhver á ferð þarna taldi sig hafa séð glóandi,örmjóa hraunbunu standa upp úr rörinu örstutta stund kvöldið áður og sundrast í storknandi mylsnu á leiðinni til jarðar. 

Þetta minnsta gos í heimi stenst þá kröfu um ELDgos að glóandi hraun hafi spýst upp úr jörðinni. 

En minni gerast eldgos varla. 


mbl.is „Eitt minnsta gos sem sögur fara af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þá eru væntanlega skvettur upp úr hitaveituborholum hverir. Og vantar ekki að gefa hvernum við Perluna nafn og bæta honum á skrá hvera? Er snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju jökull þau ár sem hann nær ekki að bráðna? Er það skriða þegar vörubíll sturtar möl og grjóti?

Þetta minnsta gos í heimi stenst ekki þá kröfu um eldgos að glóandi hraun hafi brotið sér leið gegnum jarðskorpuna.

Vísindavefurinn segir um eldgos: "... Þegar kvikan kemst upp á yfirborð verður mikið sjónarspil sem að við köllum eldgos...", það er varla sjónarspil ef menn leita með logandi ljósum og finna ekki.

Vagn (IP-tala skráð) 20.3.2021 kl. 19:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eldgosið var búið þegar leitin að því hófst. Þetta var nefnilega einhvert skammvinnasta eldgos heims. 

Ómar Ragnarsson, 20.3.2021 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband