1954 börðust "Sannir Vesturbæingar" og "Tigrisklóin" í Reykjavík.

Fátt er nýtt undir sólinni segir máltækið og það virðist eiga við fyrirbærið LARP sem greint frá í viðtengdri frétt á mbl.is.   

Á vordögum 1954 var óróasamt meðal unglinga á femingaraldri í Reykjavík og voru stofnuð bardagasamtök sitt hvorum megin í Reykjavík, Sannir Vestubæingar í Vesturbænum og Tígrisklóin í Austurbænum. 

Þetta voru sjálfsprottin samtök, sem stofnuðu bardagasveitir vopnuðum trésverðum og öðrum bareflum og héldu æfingar síðdegis.  

Strákar í Holtunum hittust á æfingum við Vatnshólinn svonefnda, tyrfðan vatnsgeymi bæjarins skammt frá Sjómannaskólanum, sem á sér merka sögu sem ein og sér ætti að tryggja varðveislu hans.   

Það kom að því að síðuhafi drægist inn í Tígrisklóna, en náði aldrei að fara nema á eina æfingu, sem fór fram uppi á vatnsgeyminum. 

Þar var hann svo óheppinn að lenda á móti einum öflugasta og best búna stráknum, sem sótti svo hratt áfram, að flóttinn afturábak endaði með því að falla aftur á bak út af geyminum alveg upp við steypt suðvesturhorn hans. 

Það var nokkurra metra hátt fall ofan í gaddavírsgirðingu sem særði til blóðs en tók mesta þungann af fallinu. 

Verra var þó, að hægra viðbein brotnaði og lauk þar með örstuttri hernaðarþátttöku hins beinbrotna.  

Við óhappið leystist æfingin upp og ekki fer frekari sögum af átökum Sannra Vesturbæinga og Tígrisklóarinnar hvað Holtabísarana snerti.  

Bæjaryfirvöld í Reykjavík og bæjarbúar höfðu áhyggjur af þeim róstum og óróa sem ríkti hjá unglingum í borginni þessa blíðu vordaga, og næsta vor var reynt að setja undir þennan leka með því að efna til íþróttanámskeiða á Melavellinum, þar sem hægt var að fá leiðsögn í alls kyns íþróttum.

Þar áttu ýmsir íþróttamenn sem stóðu sig vel síðar, sín fyrstu spor á keppnisvellinum, og var ekki ónýtt hjá strákunum að fá smá tilsögn hjá átrúnaðargoðum þeirra tíma, Clausensbræðrum og fleirum. 


mbl.is Vígbúist í Vesturbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

Sæll Ómar

Saga mín af svona bardögum úr hlíðunum gerist sirka 15 árum síðar þegar efri og neðri hlíðar börðust með teygjubyssum. Þóttist ég frekar flottur með mína heimagerðu en strax í upphafi bardagans fékk ég girðingarlykkju, sem voru notaðar þar af flestum, í litlaputta og hann dofnaði strax upp og mín eina hugsun var þá ef ég hfði fengið þetta skot í augað. hætti öllu svona strax þá. Var slíklega 10 ára þá.

kv, Sigurður

Sigurður Kristinn Guðjohnsen, 31.5.2021 kl. 20:16

2 Smámynd: Sigurður Kristinn Guðjohnsen

afsakaðu byrjenda stafsetningarvillur :) 

Sigurður Kristinn Guðjohnsen, 31.5.2021 kl. 20:57

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Það voru samfelldir sumarbardagar á milli Hlíða og Hvassaleitis þar sem nú er Kringla. Ég var svo heppinn eða óheppinn að vera alltaf sendur í sveit en vinur minn sagði mér bardagasögurnar við heimkomu. Það voru kastalar, tunnugjarðir sem fóru illa með hné, teygjubyssur og bogar. Einhverjir hljóta að hafa særst.

Benedikt Halldórsson, 31.5.2021 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband