"Hnjúkurinn gnæfir..."og það nægir til að gera gagn.

Hvannadalshnjúkur hefur lengi verið nafn, sem er aðallega þekkt fyrir að á kolli hans er hæsti staður á Íslandi, 2110 metra yfir sjávarmáli. 

Fyrir um 20 árum fór að verða aukinn áhugi á Öræfajökli, einkum vegna skipulagðra ferða með fjallgöngufólk upp á hann.  

Hróður hnjúksins hefur aukist jafnt og þétt og ganga upp á hann hefur reynst mikilsverð uppörvun fyrir æ fleiri, eins og til dæmis nú á dögunum þegar fjöldi kvenna klifu hann með glæsibrag til þess að efla bæði andlegan og likamlegt styrk sinn. 

Nú hefur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bæst í hóp hnjúksfara, sér til allsherjar styrkingar eins og lýst er í frétt um það, og er ástæða til að óska honum til hamingju með það og senda honum úr heimasmiðju upphaf lagsins og ljóðsins "Hnjúkurinn gnæfir", sem finna má á Spotify. 

 

HNJÚKUINN GNÆFIR.

 

Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir

hamrahlið þverbrýnt, ísað stál. 

Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir, 

inn í þig smýgur hans seiðandi mál. 

 

Bjartur sem engill andartak er hann, 

alheiður berar sig blámanum í;

á sömu stundu í fötin sín fer hann; 

frostkalda þoku og óveðursský. 

 

Hvers vegna´að klifra´hann?

Hvers vegna´að sigra´hann?

Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?

Hví ertu, góði, að gera þig digran?

Gastu´ekki stillt þig; skorti þig vit?

 

Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?

Af hverju´að hætta sér klærnar hans í?

Svarið er einfalt og alltaf það sama:

Af því hann rís þarna; bara af því. 


mbl.is Dagur B. sigraði sjálfan sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband