Ógleymanleg dramatíkin 1966 náði upp í 9500 feta hæð yfir hálendi Íslands.

1966 voru aðstæður enska landsliðsins um margt líkar því sem þær eru nú. Árin eftir stríð höfðu verið erfið, einkum eftir að ungverska landsliðið varð það langbesta í heimi og valtaði tvívegis yfir enska landsliðið og niðurlægði það með stórsigrum.  

Svo kom glæsilið Brasilíumanna og glansaði á HM bæði 1958 og 1962 með stórstjörnum eins og Pele og Garrincha.  

Fósturland fóboltans virtist heillum horfið. En á HM í Englandi birti til, að vísu að hluta til á þann lúalega hátt að Brassarnir, þeirra á meðal Pele, voru hreinlega sparkaðir niður á ruddalegan hátt og Pele gerður óleikhæfur.  

Svo vildi til að síðuhafi átti leið norður yfir hálendið á lítilli fjögurra sæta flugvél, Mooney M-20E, á meðan á síðari hluta úrslitaleiksins 1966 stóð.

Á þessum árum voru engar sjónvarpssendingar mögulegar í gegnum gervihnetti og farsímarnir komu ekki fyrr en 20 árum síðar, en samt voru upphugsuð alls konar brögð til að missa ekki af spennunni, jafnvel þótt svo óheppilega vildi til að vera í 9500 fetum yfir Arnarvatnsheiði þegar spennan yrði mest í leiknum.

Alls konar ráð voru upphugsuð,s vo sem að hafa vin á jörðu niðri í Borgarfirðinum, sem fylgdist með leiknum í útvarpi og lýsti honum síðan úr handheldri flugvélatalstöð á bylgjunni 123.45. í beinu sambandi við þá sem stilltu inn á þessa bylgju. 

Raunar voru margar bylgjur i gangi á meðan þessu stóð, og sjálf flugsstjórnarbylgjan gat verið morandi í nýjustu fréttum frá Wembley.  

Þannig fengum við, sem vorum á þessu flugi æsandi lýsingu á hinu epíska vafamarki sem skorað var eða ekki skorað í leiknum og þar á eftir lýsingu á eftirleiknum öllum. 

Að ekki sé nú talað um þegar úrslitamörkin voru skoruð. 

Nú á tímum er tæknin allt önnur, en stemningin ekki síður rafmögnuð, ekki síst samsvörunin við leikinn 1966.  Til dæmis er spurningin hvort vafasamir dómar eigi eftir að setja jafn mikinn svip á þennan leik og undanúrslitaleikinn á dögunum og úrslitaleikinn 1966.  


mbl.is Loks vann Messi titil með Argentínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband