Höfðingi Brúaröræfa allur og þau verða aldrei aftur söm.

"Sitjandi í auðninni, upp við stóran stein, 

starandi á jökulinn ég bera vil mín bein."

 

Eitthvað líkt þessum línum í ljóðinu "Kóróna landsins" er haft eftir Völundi Jóhannessyni varðandi það hvernig hann myndi óska að kveðja þetta jarðlíf, staddur í Grágæsadal, ef hann mætti ráða því.Völundur Jóhannesson

Áratugum saman var hans annað heimili lítil gróðurvin í auðn Brúaröræfa sem hélt velli í skjóli Fagradalsfjalls og nálægð Grágæsavatns en óx og dafnaði undir handarjaðri hans og varð að einstæðum grasagarði með jákvæðum kolefnisjöfnuði í krafti nýjustu tækni sólarorkunnar og gróðurumönnun og gróðursetningu handa hans. 

Viðvera og áratuga langt landbótastarf hans þarna átti enga hliðstæðu sem var viðurkennt með náttúruverndarverðlaunum Sigríðar í Brattholti haustið 2015. 

Síðuhafi leit á hann sem jafnmikinn nágranna sinn og jafnvel enn nánari en ef hann hefði átt heima í næsta húsi í Reykjavík.

Fimmtán kílómetra jeppaslóði er á milli Grágæsadals og Sauðárflugvallar, en ómetanlegt var að vita af veru Vðlundar í Grágæsadal lungann úr hverju sumri þegar leiðin lá um þessar slóðir og dvalið var á vellinum. 

Það var hvorki farið austur, verið þar, né farið til baka nema hafa samband við Völund.

Myndin hér á síðunni er tekin á Brúaröræfum af þeim óteljandi skiptum sem hann veitti aðstoð eða var samferðamaður. 

Án hjálpar og atbeina Völundar við siglingu Arkarinnar til myndatöku á Hálslóni hefði stór hluti þeirrar vinnu aldrei getað átt sér stað og margir eiga honum þökk að gjalda.  

Nú sitja öræfin hljóð eftir; það er sem Kverkfjöll drúpi höfði við fráfall þessa stórmerka manns, og hans nánustu eru sendar samúðarkveðjur.  

 


mbl.is Gróðursettu tré fyrir hvert fellt tré innan leiksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Allt er í heiminum hverfult".

Enginn sér lengur víkina og "reykina" sem mætti augum Ingólfs fyrir ellefuhundruð og fimmtíu árum.

Enginn sér lengur æðarvarpið í hólmum og við tjarnir. Og enginn sér lengur selina úti á skerjunum né íslensku rostungana sem fyrir löngu eru útdauðir.

Væri "Reykjavík" ekki yndisleg ef enginn hefði stigið þar fæti? 

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 1.9.2021 kl. 16:17

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, en á allt annan hátt en nú byggist á ljúfri menningu og manneskjuvænlegu umhverfi.

Nútíma náttúruvernd byggist á andófi gegn afleiðingum þeirrar takmarkalausu græðgi sem felst í skefjalausrir rányrkju á helstu auðlindum jarðar og eyðingu ósnortinnar náttúru.  

Ómar Ragnarsson, 1.9.2021 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband