Nokkrar meginástæður áhættu hjólamanna má gúgla eins og fleira.

Fyrr á þessari bloggsíðu hefur verið farið yfir niðurstöður leitar að almennum staðreyndum um áhættu, sem tekin er með því að nota hjól sem farartæki, sem gætu gefið til kynna þá áhættu, sem tekin er með því að nota hjól frekar en bíl. 

Niðurstaðan var sláandi og er meginhluti hennar birtur hér sem almennur fróðleikur fyrst og fremst:  

1. Banaslys og alvarleg slys eru tvöfalt tíðari, miðað við tímalengd, á hjóli en bíl.  

2. En þetta breytist og áhættan er álíka mikil ef eftirfarandi er haft í huga: 

Að vera edrú. Meira en helmingur alvarlegra slysa á hjólum verður vegna þess að knapinn er ekki edrú. Það er margfalt hærri tíðni en á bíl. Til dæmis má nefna, að fari maður af stað á hjóli og aki beint á staur, getur hann höfuðkúpubrotnað við höggið. Ef hann sest fullur undir stýri á bíl og ekur á sama staurinn blæs upp belgur fyrir framan hann og tekur höggið allt. 

3. Hætta á alvarlegu slysi storeykst ef ekki er verið með hlífðarhjálm. Raunverulegt dæmi: Ökumaður bíls ók af afli á síðuhafa þar sem hann var á gangbraut á rafreiðhjól. Síðuhafi hentist upp á framrúðu bílsins og hún brotnaði, en hlífðarhjálmur varði höfuðið.  Sumir telja að vegna þess hve reiðhjól séu létt og lítil sé minni þörf á hjálmi en á þungu vélhjóli. En ef þungum flutningbíl er ekið á reiðhjól, skiptir stærð hjólsins engu máli varðandi höggið, sem áreksturinn getur valdið. 

4. Algengustu beinbrot í hjólaslysum eru ökklabrot. Síðuhafi var ekki í vélhjólastígvélum í árekstrinum fyrrnefnda og ökklabrotnaði.

5. Almenna varúðarreglan: Hjólamaðurinn verður að gera ráð fyrir því að aðrir vegfarendur sjái hann ekki.  

 


mbl.is Andlátið líklega vegna hjálmleysis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Þegar kólnar meir og hálka skapast á malbiki ætti að draga úr ferðum nemenda á leið í skóla? Margir kornungir eru að komast upp á að nota rafhjól þegar hláka myndast kvölds og morgna. Fjöldin allur á nýjum rafskutlum sem eru með nánast slétt dekk.

Sjálfur þekki ég ekki hvað er á boðstólnum. Nagladekk? Þau ættu að minka áhættuna á að renna og detta á svelli sem myndast á malbiki og gangstéttum. Eins og þú nefnir sjá ekki allir ökumenn þessar litlu skutlur fyrr en þær birtast allt í einu á gatnamótum eða stígum.

Upplýstur led borði var á einu hjólinu. Um 30-40 cm. langur og var greinilegt að þetta var enn ein nýjungin. Rauðljós að aftan á lágum rafhjólum sjást oftast vel niður við götu en ljósin að framan eru engan veginn skær í vetrarmyrkvi. Þá eru unglingar misjafnlega varkárir og þroskaðir til að átta sig á öllum hættum sem birtast þegar dimmir og í allskonar veðrum.

Hvar á að setja mörkin? Ef slys verða geta þau orðið hastarleg og langur endurbati að ekki sé talað um ökklabrot.

Sigurður Antonsson, 30.10.2021 kl. 16:48

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef verið með mitt rafreiðhjól neglt á veturna síðan 2015 og það var gert í Erninum.  

Honda PCX 125 cc léttbifhjólið var neglt hjá Sólningu fyrsta veturinn, en hjólið er með óvenjulega dekkjastærð, svo að þetta varð í dýrari kantinum. 

Ómar Ragnarsson, 30.10.2021 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband