Fólkið, sem fæddist frá 1940 og hissa ráðamenn í 80 ár.

Koma breska hersins til Íslands 10. maí 1940 var líklega stærsta frétt aldarinnar hér á landi. Mesti efnahagslegi uppgangur sögunnar hófst og þar með fjölgaði fæðingum stórlega og meira en áður voru dæmi um. 

Þetta blasti við öllum, en engu að síður hafa íslenskir stjórnmálamenn sýnt af sér fullkomna blindu alla tíð síðan og verið svo hissa yfir þessu og þar með andvaralausir og aðgerðalausir, að undravert er. 

Síðuhafi er fæddur fjórum mánuðum eftir komu hersins, en hins vegar voru drög að jafnöldrum hans lögð meðan enn var hér dýpsta efnahagskreppa, sem dæmi voru um síðan 1917. 

Raunveruleg stríðsárabörn byrjuðu því að fæðast 1941. Engu að síður hefur hinn fámenni 1940 árgangur alla tíð síðan þurft að þola svipað viðhorf ráðamanna og þeir hafa haft til hinna miklu stærri árganga frá 1941.   

Og þessir ráðamenn urðu yfir sig hissa með reglulegu millibili alveg fram á okkar daga, eins og sést á yfirliti hér fyrir neðan, og það sem meira er, þeir urðu hissari og hissari í hvert sínn, ef svo má að orði komast: 

1. Á árunum upp úr 1945;

Mikill skortur á leikskólum og sár skotur á auknu húsnæði kom ráðamönnum alveg í opna skjöldu. Ráðaleysið sást best næstu árin á því hvernig þúsundir fólks varð að hírast í húsaskriflunum, bröggunum, sem herinn skildi eftir. 

2. 1948 og þar á eftir: Steinhissa ráðamenn yfir yfirfullum barnaskólum, Um 1950 voru til dæmis 1850 nemendur í Laugarnesskólanum, í þrísetnum skólastofum. En íslenskir ráðamenn skildu ekki neitt í neinu, þótt þessi vandamál hefðu verið fyrirsjáanleg í áratug. 

3. 1955: Framhaldsskólavandræði. Ráðamenn enn meira hissa og óviðbúnir, þótt blóraböggullinn væri sama fólkið og hafði valdið liðum 1.-3. 

4. 1960: Háskólakrísa. Ráðamenn hissari en nokkru sinni fyrr og héldu nú áfram að vera hissari og hissari næstu áratugina yfir, þótt það væri ævinlega sama fólkið, sem var að gera þeim lífið leitt með því að halda áfram að lifa og skapa eftirspurn eftir húsnæði og hvers kyns fjárfestingum. Ráðaleysið og skilningleysið skein úr verðbólgustjórnmálum áranna 1971-1990 þegar eigendur sparifjár, góðgerðarsjóða og lífeyris urðu fyrir mesta ráni Íslandssögunnar í formi tilflutnings tuga og hundraða milljarða króna á núverandi verðlagi. 

5. 1990-2000: Velferðar- og heilbrigðiskerfið í vanda og enn er það sama fólkið og stóð að baki liðum númer 1.-4. sem telst hafa valdið þessum vanda með því einu að hafa fæðst 50 til 60 árum fyrr, og vera nú að eldast og þurfa vaxandi læknishjálp. Þessi einfalda staðreynd er ráðamönnum hins vegar gersamlega óskiljanleg og sem fyrr eru fjármála- og heilbrigðisráðherrar hissastir allra og skilja ekki, að krónutöluhækkun gildir ekki ein, þegar verðbólga ríkir og mikil öldrun þjóðarinnar er í fullum gangi. 

6. Efnahagshrunið færir af sér vaxandi fjársvelti til heilbrigðismála og enn verða ráðamenn hissari og hissari yfir því að til dæmis sparnaður í viðhaldi húsa snúist upp í andhverfu sína með því að hús mygli og leki og tæki úreldist og bili. 

Hið undarlega er, að allan ofangreindan tíma, alls 80 ár, voru fyrirsjáanlegar afleiðingar af fæðingu kynslóðanna eftir 1940, og stjórnmálamenn voru ævinlega svo hissa og óviðbúnir þegar þessar einföldu afleiðingar komu fram, og alveg gersneyddir hugmyndum um að bregðast við í tíma.  

En á hinn bóginn hefur komið í ljós, að síðustu áratugi hafa þeir sýnt einhverja mestu hugmyndaauðgi á byggðu bóli í því að ná með einstæðri útsjónarsemi sem allra mestum fjármunum af gamla fólkinu, sem virðist eiga að refsa fyrir það að hafa verið að þvælast fyrir stjórnmálamönnum þessa lands með því að hafa fæðst.    


mbl.is „Heilbrigðiskerfið okkar er í rusli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær greining hjá þér Ómar. Í hvað fara þá allir peningarnir ?

magnús marísson (IP-tala skráð) 18.2.2022 kl. 13:35

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er löng hefð fyrir því, að fjárveitingar, sem eiga að vera eyrnamerktar ákveðnum verkefnum, séu teknar í önnur verkefni ríkisins. 

Eitt nýlegasta dæmið var það, að stór hluti Ofanflóðasjóðs var einfaldlega tekinn traustataki og notaður í allt annað. 

Ómar Ragnarsson, 18.2.2022 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband