Þegar erlendir ferðamenn vildu skaðabætur fyrir að missa af roki og regni.

Lífseig er sú skoðun Íslendinga að rok og rigning og kuldi og myrkur séu eitur í beinum allra erlendra ferðamanna. Margar sögur má segja um hið gagnstæða, og svipað á við um veðrið á vesturströnd Írlands, en einn stærsti markhópur erlendra ferðamanna þar eru upplifunarþyrstir suðurlandabúar, sem eru fyrir löngu búnir að fá upp í kok á sumrin vegna of heits og mollulegs veður. 

Upplifun þessara ferðamanna felst í því að standa á ströndinni andspænis landlægu suðvestan roki og rigningu og láta þetta slagveður, komið alla leið yfir Atlantshafið, gera sig hundblauta. 

Síðuhafi heyrði hér um árið sögu af stórri hópferð slíks fólks hér á landi, og var ætlunin að fara í rútu suður á Reykjanes. 

En þegar fyrirhugaður ferðadagur kom, var talið of hvasst og slæmt vatnsveður fyrir ferðina og ákveðið að hætta við hana og bjóða upp á dvöl yfir daginn í Reykjavík. 

Hluti ferðahópsins tók sig hins vegar saman og heimtaði að fá sína ferð og engar refjar, og taldi sig eiga kröfu á ferðinni, sem búið væri að borga fyrir. 

Var að lokum látið eftir þessum freka hópi og ferðin farin. 

Um kvöldið, þegar fréttist af hinni miklu ánægju þessa hóps fyrir að fá að verða hundvotur á bjargbrún á Reykjanestá og himilifandi yfir þessari algerlega nýju lífsreynslu, urðu aðrir, sem ekki fengu slíka ferð, óánægðir og kröfðust skaðabóta! 

Í þessum efnum verður að hafa það gamla boðorð viðskipta í huga, að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér. Með því er átt við að seljandi vöru eða þjónustu sinni því megin hlutverki sínu að fara eftir því viðskiptavinurinn sækist eftir. 

Áratugum saman voru Lapplendingar með fleiri ferðamenn á veturna en Íslendingar allt árið. 

Í Lapplandi voru sex meginatriði til sölu:  Kuldi, myrkur, þögn, ósnortin náttúra, jólasveinninn og mikil fjarlægð frá öðrum löndum. 

Allt saman atriði, sem flestir Íslendingar töldu vera fráhrindandi og óæskileg. 

 


mbl.is „Það vill enginn vera í roki og rigningu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spánverjar væru ekki að fá 85 milljón ferðamenn á ári ef flamenco, paella og nautaat væru aðdráttarafl þeirra. Galdurinn hér er að höfða frekar til þeirra þúsunda sem vilja gott veður á fallegum stað frekar en þeirra tuga sem vilja komast nálægt því að verða úti. Það verða alltaf einhverjir sem vilja standa úti í roki og rigningu, einhverjir sem vilja borða súrt slátur og hákarl og jafnvel einstaka sem telja sig geta gengið Vatnajökul á inniskóm. En það verður seint söluvara sem trekkir fjöldann að.

Vagn (IP-tala skráð) 17.7.2022 kl. 02:24

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Já, man eftir því að vera í 30C hita í Köben, mikill raki og koma svo til Íslands í rok og rigningu. Það var eins og að koma í Himnaríki. 

Egilsstaðir, 17.07.2022   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 17.7.2022 kl. 08:46

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Íbúar sunnanverðrar Evrópu eru mörg hundruð sinnum fleiri en íbúar Íslands, svo að hlutfallslega þarf markhópurinn, sem pistillinn fjallar um, ekki að vera nema brot af þeim tugmilljóna mannfjölda til þess að höfðatalan verði há miðað við íbúafjölda Íslands. 

Ómar Ragnarsson, 17.7.2022 kl. 14:28

4 identicon

Að einbeita sér að miklu minni markhóp en nú er gert fjölgar varla ferðamönnum.

Vagn (IP-tala skráð) 17.7.2022 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband