Stórsókn í virkjunum réttlætt með ónothæfum spurningum í "skoðanakönnun."

Síbyljustórsóknin í virkjanamálum þar sem heimtað er að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu hefur meðal annars verið réttlætt af Landsvirkjun með því að mikill minnihluti sé í skoðanakönnun um virkjanamál, aðeins um 20 prósent, á móti fleiri virkjunum. 

Þarna eru notaðar ömurlegar hundakúnstir til þess að lauma því inn að 80 prósent þjóðarinnar vilji tvöfalda virkjanir á allra næstu árum.

En það er hvergi spurt beint um það. Þetta er svona álíka og að spyrja hvort þjóðin sé á móti rafmagni og snúa því upp í að þjóðarsátt sé um takmarkalausan vöxt virkjana til raforkuframleiðslu. 

Og oft hnykkt á með því að þeir sem vilji andæfa gegn tryllingslegu vexti orkuframleiðslu séu á móti framförum, á móti atvinnuuppbyggingu og vilji fara aftur inn í torfkofana. 

Það morar í leiðandi og ónýtum spurningum í skoðanakönnun Landsvirkjunar, svo sem um það hvort virkjanirnar njóti ánægju. Með slíkum spurningum er skautað hressilega framhjá því að oftast stendur valið á milli orkunýtingar og annarar tegundar nýtingar, svo sem verndarnýtingar á borð við friðun Gullfoss. 

Landsvirkjun er ekki bara eitthvert einkafyrirtæki heldur í eigu allrar þjóðarinnar og alls ekki boðlegt hvernig staðið er að ofangreindum áróðursmálum. 


mbl.is Vonast til þess að framkvæmdir hefjist í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Kárahnjúkavirkjun átti að gera Íslendinga ríka samkvæmt þeim sem mest töluðu af innfjálgum áhuga fyrir þeim framkvæmdum. Samt er nú staðan sú núna að ríkið er skuldsettara en áður, og ekki gat Kárahnjúkavirkjun komið í veg fyrir það. Enda er það svo að með hverri nýrri virkjun gefast fleiri tækifæri til að fara á eyðslufyllerí og að þjóðin sleppi fram af sér beizlinu í þenslu og utanlandsferðum. 

Virðist mér Kárahnjúkavirkjun fátt hafa gert annað en að spilla landslaginu og koma inn svolítið meiri Mammonsdýrkun hjá fólki, jú, einhver störf urðu til, en ekki í líkingu við gullið og grænu skógana sem talað var um.

Það hefur sýnt sig að auðvelt er að eyða orkunni sem verður til af virkjunum, til dæmis selja úr landi, en gamla hugsjónin um nægjusemi gleymist, og að byggja landið upp rólega og án mengunar.

Alltaf gott að vita til þess að hér á blogginu er fjallað um umhverfismál vel.

Ingólfur Sigurðsson, 8.3.2023 kl. 07:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband