VÆNTINGAR SEM BYGGÐUST Á LOKKANDI FORDÆMI.

Ég við bæta smávegis við blogg mitt um mat á vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar.Væntingar landeigenda á svæði Kárahnjúkavirkjunar byggðust fyrir átta árum á því fordæmi sem sett hafði verið með Blönduvirkjun. Þar var landeigendum bæði greitt fyrir vatnsréttindin og Landsvirkjun henti til þeirra molum í formi veglegra smalakofa (sagt var að í þeim væri sérherbergi fyrir hvern hund), vegabóta og uppgræðslu.

Ég talaði við nógu marga landeigendur á Kárahnjúkasvæðinu á þessum tíma til að heyra í mörgum þeirra eggjahljóðið og sjá dollaraglampann í augunum. Nýjustu upplýsingar um margfalt meiri greiðslur fyrir vatnsréttindin í Noregi en hér á landi sýna hvernig virkjanaaðlilar gera allt sem hægt er til að meta til sem minnst fjár eða einskis þau stórkostlegu verðmæti sem fórnað er með Kárahnjúkavirkjun.

Ég hyggst svara sérstaklega í Morgunblaðinu grein þar sem mér er gerð upp sú skoðun að selja eigi vatnsréttindin á spottprís. Þetta er þveröfugt. Þungamiðjan í gagnrýni minni hefur beinst að því hneyksli hvernig stórfelld náttúruverðmæti hafa verið einskis metin í hömlulausri sókn eftir að virkja á kostnað komandi kynslóða og þjóðarinnar, sem borgar brúsann á endanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Meiningin með virkjuninni er nú að hagnast á henni, bæði beint og óbeint og þess vegna er allt tal um að almenningur borgi brúsann órökrétt, nema vatnsréttindin verði svo dýr að hvergi borgi sig að virkja.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.8.2007 kl. 02:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt hjá þér að meiningin með virkjuninni var að hagnast á henni. En eins og ég hef bent á var tekin gríðarleg áhætta í upphafi í krafti þess sem talsmaður virkjunarinnar lýsti með orðunum "...við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð var..."

Ég spá því að það eigi eftir að koma í ljós að arðsemi af virkjuninni mun verða fyrir neðan þær kröfur sem einkafyrirtæki gera til arðsemi vegna þess hve kostnaður allur hefur aukist. Ef virði náttúruverðmætanna sem fórnað er hefði verið tekið með í reikninginn hefði ekki borgað sig að virkja og þeim 120-130 milljörðum sem eytt var í virkjunina hefði verið varið á betri og arðsamari hátt.

Það mun koma æ betur í ljós að þjóðin mun til framtíðar borga með þessari virkjun.

Ómar Ragnarsson, 31.8.2007 kl. 10:53

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það mun tíminn leiða í ljós en þú gleymir því alltaf að þeir peningar sem fara í virkjunina liggja ekki á lausu í annað. Þessir peningar eru ekki teknir frá öðrum verkefnum, koma ekki úr ríkissjóði  og þess vegna er ekki hægt að tala um að þeim hefði verið betur varið í eitthvað annað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.8.2007 kl. 13:36

4 identicon

Sæll Ómar minn!

Þú talar eins og virkjunin hafi verið samkomulagsatriði milli landeigenda og Landsvirkjunar. Svo er einfaldlega ekki. Farið var í framkvæmdir án þess að þeir væru spurðir. Landeigendur höfðu sem sagt ekkert með þá ákvörðun að gera. Þessi tenging er því alveg út í hött. Og í framhaldinu alhæfir þú um dollaramerki í augum landeigenda og þeir hafðir að ginningarfíflum. Vel má vera að einhverjir meðal landeigenda hafi gert sér einhverjar gyllivonir og meira en líklegt er að í hópi landeigenda séu stuðningsmenn virkjunarinnar. En það þýðir ekki að landeigendur allir séu undir þá sök seldir. Ég vil benda þér á að landsmenn allir eru landeigendur þarna en ríkið á 70 prósent þess lands sem á vatnréttindi á Kárahnjúkasvæðinu. Varla lítur þú svo á að landsmenn allir séu fylgjandi virkjuninni? Eða að þú sért meðal ginningarfífla? Og landeigendur þeir sem eiga jarðir í einkaeign eru um hundrað. Nú á ég brot í jörð þarna eystra sem liggur að Jöklu. Og hef aldrei nokkurn tíma lýst mig fylgjandi Kárahnjúkavirkjun. Nema síður sé. Því þykir mér ómaklegt að sitja undir því að vera sagður ginningarfífl með dollaramerki í augunum.

Kær kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband