CHILI CON CARNE !

Ofangreind þrjú orð voru áreiðanlega nærri því að koma fram á varir hljómleikagesta í Landholtskirkju í gærkvöldi þegar Kammerkór kirkjunnar þurfti að svara uppklappi í lok vel heppnaðrar tónleika. Ég leyfði mér að segja við Jón Stefánsson kórstjóra eftir tónleikana að flutningur þessa lags hefði í mínum eyrum markað þau tímamót hér á landi að í fyrsta sinn hefði íslenskur kór í efsta gæðaflokki flutt suðræna danstónlist á frábæran hátt.

Latin-tónlist býður upp á fleira en góð tækifæri fyrir hljómsveitir og einsöngvara og það sýndi sig svo sannarlega í flutningi Kammerkórsins á ofangreindu lagi þar sem einstakar raddir kórfélaga koma að hluta til í stað hljóðfæra til að skapa hárnákvæman og þýðan hryn svo að hljómleikagestir fari ósjálfrátt að dilla sér í sætum kirkjunnar. 

Þessir tónleikar voru með jassívafi og kvartett skipaður þeim Sigurði Flosasyni, Einari Scheving, Davíð Þór Jónssyni og Valdimari Kolbeini Sigurjónssyni ýmist lék sérstaklega eða með kórnum og gaf þessum tónleikum einstaklega líflegan og skemmtilegan blæ.

Á efnisskránni voru mjög fjölbreytt lög úr ólíkum áttum, bæði ljúf, ómstríð, þung og létt svo að reyndi vel á fjölhæfni kórsins í blæbrigðaríkum og ákaflega þéttum söng.

Það var boðið upp á sannkallað eyrnakonfekt í Langholtskirkju í gærkvöldi og gaman til þess að vita að bæði gaman og alvara, þungi og léttleiki fái að njóta sín í húsi Drottins og sonar hans, þess er boðaði fagnaðarerindi lífsgleðinnar.  

Ég sagði við sonarsyni mína, sem sátu næst mér og hafa báðir gaman af tónlist, að þeir gætu farið margar pílagrímsferðir síðar meir til hinna ýmsu landa til að upplifa tónlistina sem fjarlægar þjóðir hafa skapað, þar á meðal þá tónlist sem ræður ríkjum á karnivali í Ríó. 

Hvað Kammerkórinn og aðra kóra snertir gæti til dæmis verið spennandi að leita fanga í sérstæðri tónlist þjóðanna syðst í Afríku, sem er afar heillandi og lék til að mynda mjög stórt hlutverk í eftirminnilegri kvikmynd um baráttumanninn Biko.

Á ferð okkar hjóna um Mósambík kynntumst við þessari tónlist vel í grasrótinni meðal fólksins í Hindane þar sem það kom saman á útihátíð til að fagna Íslendingum og þakka fyrir aðstoð við að reisa læknaingamiðstöð. Þarna söng fólkið og lék á frumstæð hljóðfæri.

Minnisstætt var þegar unglingur einn sem snæddi nesti sitt með fjölskyldu sinni tók fram heimasmíðaðan gítar og lék á hann af snilld. Gítarinn var gerður úr bensínbrúsa, sem sagað hafði verið gat á, og negld á hann spýta og sett á hana vírastrengir. 

Með ólíkindum var hvað þessi unglingur gat spilað á þennan núll krónu gítar sinn og einnig hvernig fólkið söng í kórum með heimagerðum raddsetningum sem hafa lifað kynslóð fram af kynslóð.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi reynsla hjá þér að hafa orðið vitni að svona sköpunarhæfileikum er frábær speglun um grundvöll eða forsendu sköpunargáfna. Á meðan að sálfræðingar - með sálfræðilega hönnuð gáfnapróf (vesturlandahugfræði) færðu vísindalegar sannanir á að afríkubúar væru ógáfaðir, stunduðu afríkubúar sína hæfni á mörgum sviðum eins og venjulega. Það var loksins ljóst fyrir þessum vísindafólki sem stundaði þennan áróður að sjálfa hugmyndafræðin sem lá sem forsenda fyrir hönnun slíkra gáfnaprófa var á röngum og þröngum hugfræðilegum hugsunum reist. Þannig að gáfnaprófin hafa þanist út hvað varðar hugmyndafræði um mismunandi gáfnaþætti bundnum samfélagslegum/þjóðareinkennandi heildaratriðum. Sem betur fer hafa aðrir þættir fengið meira svigrúm og má þar á meðal nefna "emotional intelligence."

ee (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 10:44

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við, í kirkjukór Reyðarfjarðar höfum nokkrum sinnum sungið tónlist innfæddra í Afríku, t.d. S-Afríku og það er ákaflega skemmtilegt. Mjög sérstakur tónn í þessu. Kórar á Íslandi mættu syngja þess konar tónlist meira.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2008 kl. 12:00

3 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ekki svo ólíkt íslensku réttarsöngsrödduninni sem er stórmerkilegt menningarfyrirbæri sem þróast hefur með Íslendingum, ekki svo ólíkt og raddanir Afríkubúa.  Gaman væri að komast að því hversu gamalt það fyrirbæri er, þ.e. réttarsöngsröddunin.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 21.1.2008 kl. 18:00

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvað áttu við "íslenska réttarsöngsröddunin" Sigurður Viktor? Ertu að tala um fimmundarsöng? Það sem ég hef sungið "afrískt" er ekki fimmundarsöngur þó hann sé oft tvíraddaður, stundum þríraddaður og ef ég man rétt líka fjórraddaður.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2008 kl. 18:50

5 identicon

Já réttarsöngsröddunin er merkilegt fyrirbæri. En annars, er þetta ekki síðan hans Ómars Gunnar ?

Bjartur (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 03:36

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, Bjartur, þetta er bloggsíðan mín þar sem ég fagna öllum þeim sem vilja leggja orð í belg svo að það geti ríkt líf og fjör.

Ómar Ragnarsson, 22.1.2008 kl. 14:17

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta Ómar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bjartur er að fetta fingur í að ég tjái mig í athugasemdarkerfi þínu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.1.2008 kl. 19:27

8 identicon

Auðvitað fagnarðu öllum sem leggje örð í belg og það er allt gott og blessað, en þar sem ég og sérstaklega börnin mín hafa verið miklir aðdáendur þínir Ómar í gegnum árin , þá leiðist mér öfgamenn og sérstaklega þeir sem fara með rangt mál, það er nú ástæðan fyrir að ég hefg verið að hnýta aðeins í þennan Gunnar Th. en mér hefur fundist hann vera með frekar dónalegar athugasemdir oft á tíðum . Eins hef ég grun um að títtnefndur Gunnar sé hinn sami og skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir nokkrum árum undir fyrirsögninnni, " Gríman fallin" sú grein var um að nú væri Ómar búinn sð segja upp á sjónvarpinu og farinn að vinna að sínum hugðarefnum, þ.e. náttúruvernd, öll sú grein var virkilega ósmekkleg og gefið í skyn að Ómar hafi aldrei verið hlutlaus í sinni fréttamennsku. Ef þetta er sá sami Gunnar og er núna að óska eftir að verða bloggvinur, ja tja svei og skammastu þín. Eins og máltækið segir , þeir sem eiga svona vini , þurfa ekki óvini ! ( jafnvel ekki bloggóvini )  Kíktu á þessa grein Ómar og lokaðu á þennan klikkaða Gunnar, svo við börnin getum áfram hlustað á lögin þín og glatt okkur við skemmtilegar vísur þínar.

Bjartur (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband