HLIÐSTÆÐAN VIÐ 1947.

1947 tók við völdum ríkisstjórn sem hafði að baki sér 80% þingfylgi. Hún tók við þegar þjóðin hafði lifað langt um efni fram á valdatíma Nýsköpunarstjórnarinnar. Sú stjórn var að vísu stórhuga og hratt í framkvæmd mikilli og þarfri endurnýjun í sjávarútvegi og réttlátum endurbótum almannatrygginga. En hún sólundaði stríðsgróðanum og stakk höfðinu í sandinn varðandi óhjákvæmilegan samdrátt og erfiðleika í stríðshrjáðum ríkjum Evrópu, sem entist á tæplega áratug og hlaut að hafa áhrif hér á landi.

Fyrir bragðið fóru í hönd hafta- og skömmtunarár með tilheyrandi spillingarkerfi og stöðnun sem tók lungann af 20. öldinni að komast út úr.

Undanfarin ár hefur þjóðin lifað um efni fram í skjóli allt of hás gengis krónunnar og stóriðjuframkvæmda, sem ekki verður hægt að halda áfram endalaust og valda mun stórfelldri eyðileggingu á mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru þess.

Seyðið af því munu börn okkar og afkomendur súpa þegar ekki verður neitt meira eftir til að virkja.

Stefaníu-stjórnin 1947-49 hefur hlotið þunga dóma en Nýsköpunarstjórnin notið glansmyndarinnar sem heillandi persónuleiki og stjórnkænska Ólafs Thors hefur lyft undir. Fyrr eða síðar þarf sú stjórn  að sæta endurmati hvað varðar mikið fyrirhyggjuleysi gagnvart fyrirsjáanlegum enda eyðslufyllerísins fyrstu árin eftir stríð.

Stjórnirnar sem tóku við lögðust lágt þegar þær sugu út úr Bandaríkjamönnum meiri Marshallaðstoð miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð fékk. Höfðum við þó einir þjóða grætt á stríðinu en aðrar þjóðir goldið hræðilegar fórnir.

En þessar ríkisstjórnir voru í raun að fást við timburmenn Nýsköpunarstjórnarinnar og var að því leyti til vorkunn.

Nú er komin til valda ríkisstjórn sem nýtur álíka yfirburða í þingfylgi og stjórnirnar frá 1947-56. Ef allt væri með felldu væri hún nú á kafi upp fyrir haus að fást við timburmenn neyslufyllerís undanfarinnar ára. En ekki er að sjá að svo sé.

Einu ráðin virðast vera framlenging fyllerísins með aðgerðarleysi og óbreyttri stóriðjustefnu sem líkja má við það að pissa í skó sinn.  

 


mbl.is Mesta verðbólga í 6 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/entry/487674/

Athyglisverður pistill hjá Gísla, sem tengist eiginlega þínum óbeint.

Ellismellur (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 11:02

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Spákaupmennska er komin til að vera, nema þú viljir kommana aftur?

Ríkinu er eiginlega ekkert treystandi fyrir þessu öllu, virðist vera.  Það eina sem þeim dettur í hug að gera er að hækka vexti.  Sem kemur niður á öllum sem skulda, sem eru... allir.  Ef þú kaupir fasteign, þá kemur það niður á þér, ef þú leigir, þá kemur það niður á þér...

Allt sem ríkið gerir til að hefta Ríku Kallana(TM) kemur illilega niður á fátæku köllunum.

Jæja.  Við eigum þó þessi álver, og þau skaffa pening. 

Ásgrímur Hartmannsson, 28.3.2008 kl. 11:36

3 Smámynd: Sævar Helgason

"Höfðum við þó einir þjóða grætt á stríðinu en aðrar þjóðir goldið hræðilegar fórnir."

Er þetta nú alveg sanngjarnt Ómar ?

Íslensk alþýðuheimili færðu gríðarlegar fórnir , afarmörg. 

Sjómenn okkar á hafinu , ýmist við fiskveiðar,siglingu með afla á Bretland og farmenn sem tengdu okkur umheiminum , létu mjög margir líf sitt . Miðað við höfðatölu þjóðarinnar á þessum tíma þá vorum við með ekki minni mannfórnir vegna stríðsátaka en Ameríkumenn. 

Bara að halda þessu til haga. 

Sævar Helgason, 28.3.2008 kl. 11:42

4 identicon

Mér finnst þetta nú hæpin söguskýring um Nýsköpunarstjórnina hjá Ómari. Hins vegar skil ég ekki allt sem Ómar skrifar, td. þetta:

„En hún sólundaði stríðsgróðanum og stakk höfðinu í sandinn varðandi óhjákvæmilegan samdrátt og erfiðleika í stríðshrjáðum ríkjum Evrópu, sem entist á tæplega áratug og hlaut að hafa áhrif hér á landi.“

Hvað er hann að reyna að segja?

sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 11:57

5 Smámynd: Hagbarður

Þetta er góður pistill. Nýsköpunarstjórnin "klikkaði" á gengisskráningunni en höftin sem fylgdu þeirri sem á eftir kom, bættu ekki ástandið.

Það er ekki alveg runnið af okkur enn, timburmennirnir ekki enn farnir að gera vart við sig. En þeir koma og við þurfum, líkt og eftir mikla drykkju, að taka út ógleðina. Framundan er erfiður dagur í þynnku.

Hagbarður, 28.3.2008 kl. 12:28

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt að Íslendingar misstu hlutfallslega jafn marga í hafið vegna stríðsins og Bandaríkjamenn misstu á vígvöllunum. En mannfall okkar var margfalt minna hlutfallslega en flestra stríðsþjóðanna í Evrópu, sem sumar hverjar voru með borgir sínar í rústum.

Allir vita að stríðsgróðinn olli mestu straumhörfum sem orðið hafa hér á landi í efnahagsmálum og lyfti kjörum þjóðarinnar upp úr kreppunni.

Eftir stríðið voru fyrirsjáanleg mögur ár þegar Evrópuþjóðir þurftu að borga fyrir tjón og útlát stríðsins og til þessa hefðu Íslendingar átt að taka tillit og búa sig undir þá kreppu og samdrátt sem þetta færði okkur óþarflega harðvítugt haftakerfi og skömmtun en þörf er á.

Ómar Ragnarsson, 28.3.2008 kl. 14:19

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sagan endurtekur sig, oft á tíðum án þess að unnt sé að forðast fyrri mistök.

Nú sitjum við uppi með einkennilegt ástand: nokkrir flutningabílsstjórar taka sig til og loka helstu umferðargötum. Með þessu eru þeir að taka lögin í sínar hendur. Sennilega eru um að ræða brot á 2 greinum hegningarlaganna, sjá nánar heimasíðu mína.

Eru menn tilbúnir að axla þá ábyrgð sem kann að stafa vegna þessa? Slys geta orðið, árekstrar, jafnvel brunabílar, lögreglubílar og sjúkrabílar komast hvorki lönd né strönd. Hvað ef ekki tekst að koma alvarlega veikum sjúkling til hjálpar, atvik þar sem lögregla þarf greiðlega að komast að, eldsvoði o.s.frv.

Þessi mótmæli er EKKI rétta aðferðin. Gjöld á eldsneyti eru því miður tekjustofn sem er kominn til ára sinna og þarf að endurskoða, fella jafnvel niður en taka upp annað sanngjarnara gjald, t.d. þarf að taka upp umhverfisskatt á alla mengandi starfsemi: útblástur frá stóriðjunni, dekkjanöglum, eldsneyti á bílum, skipum, flugvélum o.s.frv. En umfram allt þarf að gæta hófs og nýta þennan skatt til koltvísýringsbindingar.

Mosi er á því að mótmæla en betra er að hafa lögin með sér en móti. Menn eiga að skrifa greinar og blogga, þeir eiga að safna undirskriftum, mótmæla utan við Stjórnarráðið o.s.frv. Öðru vísi vakna ekki Þyrnirósirnar í Stjórnarráðinu. Nú er ein þeirra suður í Chile að leggja hönd á plóginn að smíði nýs varðskips. Sennilega er Björn sá embættismaður ríkisstjórnarinnar sem helst tekur á málunum og lætur hendur standa fram úr ermum.

Kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 28.3.2008 kl. 14:49

8 Smámynd: Ólafur Als

Smá leiðrétting, sem vert er að hafa í huga: stríðsgróðinn var ekki mikið minni í löndum á borð við Svíþjóð og Danmörku (e.t.v. Noregi einnig) - eitt af því sem gerði hann svo veigamikinn heima var hve við áttum lítið fyrir.

Ólafur Als, 28.3.2008 kl. 15:49

9 Smámynd: Sævar Helgason

Strax eftir stríðið 1945 hófst gríðarlegur innflutningur á bílum m.a á þeirra tíma mælikvarða - breskir, franskir og amerískir bílar. Á þessum árum átti ég heima í næsta nágrenni við þá stæstu, Egil Vilhjálmsson og Svein Egilsson og var því þarna í innstahring.

Egill flutti m.a inn ósamsetta bíla og setti saman á sínu verkstæði- flottir bílar.  Þessari veislu lauk á um 3 árum og fljólega snérist dæmið alveg við.

Nánast enginn innflutningur og ein allsherjar skömmtun á öllum sviðum tók við. Árum saman fengust ávextir aðeins skömmu fyrir jól og þá nokkur stykki epli í poka á heimili.  1951 var ástandið sérlega slæmt- smjör og smjörlíki ófáanlegt í langan tíma þrátt fyrir skömmtun. 

Þá brugðu sum heimili á það ráð að bú til svokallaðan "bræðing" í hann var notað lýsi, tólg og þetta soðið saman í vatni - grátt á litinn en smyrjanlegt á brauð.  Þetta þótti mér lítt geðslegt.

Vonandi lýkur núverandi veislu ekki svona harkalega. 

En takk fyrir gott yfirlit um þessa tíma , Ómar 

Sævar Helgason, 28.3.2008 kl. 17:25

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sævar, bræðingurinn og ástæðan fyrir honum minnir mig á heimildamynd frá 1997 sem ég sá nýlega. Þar var gömul kona í Rússlandi að kvarta yfir að bændur gætu ekki selt afurðir sínar því það væri enginn markaður og að búðirnar væru tómar því það væri ekkert hráefni. Þetta sýndi hvernig rússneska kerfið var hrunið. Ég þekki ekki nógu vel til áranna rétt eftir stríð, en getur það verið að vandamál íslendinga hafi, a.m.k. að hluta til, verið vegna slæmrar stjórnar? Hefðu minni höft verið betri? Ég segi þetta vegna þess að á þessum árum vann mikið stærri hluti þjóðarinnar við landbúnað en nú og hefðu mjólkurvörur því varla átt að vera svo vandfengnar.

Villi Asgeirsson, 28.3.2008 kl. 17:35

11 Smámynd: Sævar Helgason

Villi

Landbúnaður á þessum árum var sáralítið vélvæddur og mikil fólksfækkun hafði orðið í sveitum í kjölfar hernámsins og framleiðsla því ekki mikil Samgöngur frumstæðar - helst sjóleiðir sem voru nýttar.

Á þessum árum var ein lítil mjölkurstöð i Reykjavík - á Snorrabrautinni þar sem síðar var Osta og smjörsalan. Mjölkurstöðin við Laugaveg var í byggingu. Innflutningur matvæla nánast enginn.

Þetta var ein alsherjar KREPPA og alsnægtaþjóðfélagi nútímans væntanlega óskiljanleg. 

Sævar Helgason, 28.3.2008 kl. 17:53

12 identicon

Það er alveg stórfurðulegt að hlusta á suma af þessum þingmönnum okkar og alveg spurning hvort ætti ekki að setja reglur um að þeir sem ætla að bjóða sig til þings þurfi að fara í próf um lágmarks greind og skynsemi. Það er t.d. alveg magnað að hlusta Pétur Blöndal stöðugt hamra á að stjórnvöld hér skili mestum tekjuafgangi sem þekkist á Norðurlöndum, á sama tíma er ástandið á sjálfsagðri þjónustu þannig að læknar og þeir sem vinna á sjúkrastofnunum segja að þar sé fjársvelti, við höfum ekki efni á að laga vegi sem kosta dauðsföll á hverju ári, og svo mætti lengi telja. Þetta er eins og fyrirvinna á heimili hefði ekki afni á að senda börnin sín til læknis en grobbaði sig á sama tíma af að hafa lagt inn á bankabók ! Hverslags rugl er þetta , ég man líka eftir títtnefndum Pétri ( sem ég reyndar held að sé "lasin" ) að í viðtali um spítala þar sem honum var bent á að fjármunir til rannsókna skiluðu sér alltaf til sjúklinga, " já, en það er ekki fyrr en löngu seinna " var svarið, það vantaði bara að hann segði, þegar ég er farinn af þingi ! . Hvernig stendur á því að við veljum tóma grautarhausa til að stjórna fyrir okkur ? Og Pétur er ekkert einsdæmi, en datt hann í hug því hann var í kastljósi fyrir stuttu.

Knud (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 21:30

13 identicon

Já þetta er sérstakt en samt óskaplega eðlilegt held ég Knud

Íslendingar eru eins og börn sem eru með fulla kassa af nýju dóti og spá lítið í það hvort mamma og pabbi séu heima eða ekki, gætu þess vegna verið á blinda fylleríi hver veit. Ekkert að spá í það ég helling af dóti.

Við erum ný skriðin úr torfkofunum og reynum að láta eins og vel þroskuð þjóð, nei það er langur vegur í það, held ég. Vetíðarhugsunin ristir svo djúpt og þar býst maður við aflabrest þá og þegar og bara tekur því. Þetta reddast næst.

kv. bart skofe

Bart Skofe (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 21:48

14 identicon

Já þetta er góð hugmynd, og ef farið væri fram á lágmarks getu til rökrænnar hugsunar, þá gæti stjórnunin ekki versnað. Og að sitja uppi með  klikkhausa til stjórnunar á alveg eins við vinstri og hægri menn, en þó er einn munur á, gömlu  kommarnir láta lítið fyrir sér fara, en hinir hinu megin, svokölluðu frjálshyggjumenn, halda enn áfram að gjamma og eru nú nokkrir komnir á þing. Þar sjáum við mikla vinnu lagða í að selja áfengi eða bjór í matvöruveslunum, var einhver að biðja um það af kjósendum ? Eða þá eins og Birgir Ármannson o.fl. hafa stagast á í skrifum, að það sé svo hagkvæmt fyrir ríkið að lækka skatta á hátekjum og fjármagnskatti, svo tekiið sé dæmi, þessar tillögur passa nefnilega við draumsýn frjálshyggjunnar, en það er líka sannað með rökum að betri heislugæsla, betri vegir, minni biðlistar , eru líka hagkvæmar fyrir ríkið, en þetta passar bara ekki við draumsýn frjálshyggjunnar, og því ekki lagt til af þessum ennþá trúandi frjálhyggjubullurum.

Hlutverk ríkristjórnar er að gera lífið eins bærilegt fyrir þegnana eins og kostur er, ekki að koma að úreltum hugmyndum gamalla komma eða hægrimanna. 

Knud (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband