Bláeygir í meira lagi.

Í Kompásþætti í kvöld stakk í augun hve nákvæmlega sama vestfirskum sveitarstjórnarmönnum virtist um allt nema það eitt að þeim væri lofað 500 manna vinnustað sem leysti öll vandamál Vestfjarða. Bendi á bloggfærslu Ólínar Þorvarðardóttur varðandi Katamak-NAFTA skúffufyrirtækið á Írlandi. Engu máli virðist skipta hvaða umhverfis- og ímyndarhagsmunir eru í húfi og þaðan af síður vafasamur bakgrunnur þeirra sem þarna ætla að maka krókinn.

Í heimavinnu, úrvinnslu og framsetningu Kompásfólksins var vel að verki staðið eftir því sem hægt var að komast eitthvað nálægt því, hverjir stæðu á bak við hin stórkarlalegu áform á Vestfjörðum.

Hið eina sem ég saknaði af efnisatriðum úr stuttmynd minni, "Löðri", var það að ég undraðist í Noregsferð minni að af 100 olíuhreinsistöðum í Evrópu væru aðeins tvær í Noregi, báðar nálægt tveimur stærstu borgunum, Osló og Bergen. Ekki ein einasta á allri strandlengjunni norður úr þar sem við sams konar byggðavanda er að etja og á Vestfjörðum. Og eru Norðmenn þó ein mesta olíuframleiðsluþjóð Evrópu.

Það getur verið gott að vera auðtrúa og bláeygur, en hættan við slíkt er alltaf sú að óprúttnir aðilar nýti sér grandaleysi fólks. Ég fæ ekki betur séð en að hver einasti Íslendingur sem nálægt þessu máli kemur, sé jafn bláeygur, þar með talinn Ólafur Egilsson, gamall og góður vinur minn, sem ég þekki að engu nema hinu besta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Er ekki bara að fara af stað sama ferlið og fyrir austan, ég sé ekki betur.  Það er eins og fólk loki öllu skilningarvitum sínum og horfi í gegn um mjótt rör og fyrir enda þessa mjóa rörs er lausnin "verksmiðja/virkjun" eða hvað  það nú heitir.  Skjótur gróði í sjónmáli og allt annað má fara lönd og leið. Þetta er barasta skelfilegt. Það er nú samt von mín, að það mörg augu opnist, að ekkert af þessu brjálæði  verði þarna fyrir vesta.

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 15.4.2008 kl. 23:14

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ef þessi Kompásþáttur hefur ekki fengið fólk um allt land til að skipta um skoðun er ég illa svikin. Ég setti inn færslu um þetta mál í dag og hef fengið mikil viðbrögð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 23:17

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir að vísa á síðuna mína Ómar - fyrir þá sem þekkja ekki veffangið þá er hlekkurinn hér.

Annars pirraði það mig svolítið að þeir Kompásmenn skyldu henda út viðtölum sínum við einu konurnar sem rætt var við úr hópi heimamanna - mig og Soffíu Vagnsdóttur. Það mætti ætla að málið væri vestfirskum almenningi óviðkomandi - og þá einkum og sér í lagi kvenþjóðinni. 

Blogga kannski um það mál á morgun. Góða nótt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.4.2008 kl. 23:19

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Hreinleiki, friðsæld og fegurð Vestfjarða fyrir atkvæði

Júlíus Valsson, 15.4.2008 kl. 23:22

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvenær og hvar verður myndin þín, Löður, sýnd? Ég hlakka mikið til að sjá hana.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 23:26

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fór í viðbótar kvikmyndatökuferð fyrir viku og á eftir að fullgera myndina. Ég veit ekki hvort nokkur vill kaupa hana til sýningar en ef svo fer að enginn vilji það íhuga ég að setja hana á YouTube. En auðvitað eru takmörk fyrir því hve mikið hægt er að vinna svona í málum við kvikmyndagerð sem endar með tapi.

Ómar Ragnarsson, 15.4.2008 kl. 23:49

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég sé að í athugasemdarkerfinu hérna núna er bara huggulegur mjálmkór sem syngur einraddað. Er ekki best að radda þetta eitthvað?

"Í Kompásþætti í kvöld stakk í augun hve nákvæmlega sama vestfirskum sveitarstjórnarmönnum virtist um allt nema það eitt að þeim væri lofað 500 manna vinnustað sem leysti öll vandamál Vestfjarða".

Er þetta nú boðlegur málflutningur? Sveitarstjórnarmönnum nákvæmlega sama! Allt nema það eitt! Leysi öll vandamál Vestfjarða!

Þetta er ekki umræða, þetta er bull og með bulli komist þið ekkert áleiðis.

Nú veit ég svo sem ekkert frekar en aðrir hverjir vilja fjárfesta í þessum tækifærum fyrir vestan, en afhverju kemur mér það ekki á óvart að andstæðingar þessara hugmynda reyni að klína einhverjum glæpastimpli á verkefnið?

Þegar hver áróðurshrinan af annarri gekk yfir landslýð í andstöðu náttúruverndarsinna gegn Kárahnjúkavirkjun með gýfuryrðum, ýkjum, bulli og oft og tíðum hreinum lygum, þá varð mér stundum hugsað: "Það er allt reynt, ekkert er heilagt, allra síst sannleikurinn og heiðarleikinn".

Ég óska Vestfirðingum heilla í baráttunni við þau öfl sem nú eru greinilega að komast á fullt skrið. Ég öfunda þá samt ekki að þurfa að fást við þau.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2008 kl. 01:09

8 identicon

Olíuhreinsistöð er eitthvað sem við eigum að forðast í lengstu lög. Til viðbótar höfum við fengið nóg af umsvifum rússnesku "mafíunnar" hér á landi. Hvað gerist á Austurlandi? Austfirðingar halda áfram að flytja burt, það eru félagslegar ástæður fyrir því, ekki spurning um álver eða ekki álver. Innan nokkurra missera verður meirihluti starfsfólks við álverið á Reyðarfirði erlendir farandverkamenn, sem litlu skila inn í okkar þjóðfélag. Manni er líka spurn; Af hverju liggur svona óskaplega á að virkja allt sem hægt er að virkja? Eigum við ekki að skilja einhverja orku eftir handa afkomendum okkar? Eigum við að ráðstafa öllu slíku til framtíðar fyrir erlend stórfyrirtæki til að græða á?

Ellismellur (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 05:17

9 Smámynd: Karl Jónsson

Umfjöllun Kompáss í gær var mjög leiðandi í aðra áttina. Þegar talað var um mögulega staðsetningu olíuhreinsunarstöðvarinnar var talað um "hinn þrönga Dýrafjörð", svona til þess að undirstrika þema þáttarins sem var að varpa tortryggni yfir þetta verkefni. Ég get tekið undir það að óvissan um hverjir standa þarna að baki er ekki góð, en eigum við ekki aðeins að bíða.

Það vakti líka athygli mína að myndefnið var sérstaklega valið með það í huga að sýna svona stöðvar eins hrörlegar og gamlar og hægt var. Það vill enginn fá svona mannvirki í nábýli sitt. Á sama tíma var sett upp einhver ljósmynd af hreinsistöð í Þýskalandi, tekin í myrkri sem sýndi ekkert nema ljós. Sú hreinsistöð ku vera snyrtileg samkvæmt niðurstöðum þeirra sveitarstjórnarmanna sem þangað fóru.

Ómari Ragnarssyni var tíðrætt um Lögmál Murphys, að ef eitthvað gæti farið úrskeiðis þá myndi það gerast. Hann var þar að ræða hættuna á skipsskaða úti fyrir ströndum Vestfjarða. En ætti þetta lögmál ekki líka við um flugvöllinn í Reykjavík sem dæmi? Er þá ekki bara tímaspursmál hvenær flugvél hrapar á íbúðabyggð þar?

Karl Jónsson, 16.4.2008 kl. 08:12

10 Smámynd: Þórir Kjartansson

Karl, það hrapaði flugvél á íbúðarhús í Skerjafirðinum á stríðsárunum og það eru ekki mörg ár síðan að flugvél, sem var að koma inn til lendingar rétt slefaðist yfir Miklubrautina og náði ekki inn á brautarendann, svo  þessi hætta er raunveruleg.  Hættan af olíuslysi fyrir vestan er að mínu mati enn meiri.  Olíuskip koma og fara. Jafnt og þétt.  Þau munu ekki gefa sér tíma til að bíða af sér vond veður  og munu reyna að troðast í gegnum hafís, verði hann fyrir hendi.   Það mun verða teflt á tæpasta vaðið  til að starfsemi stöðvarinnar raskist ekki.  Tek undir með Ólínu, ég saknaði þess virkilega að sjá ekki viðtöl við almenna borgara um málið.   Og Gunnar Th, vandséð finnst mér hver fer hér með mestum  - ,, gýfuryrðum, ýkjum, bulli og oft og tíðum hreinum lygum"       -       Það getur nefninlega liðið langur tími þangað til það kemur í ljós hver hefur rétt fyrir sér í þessum málum og hver ekki.    

Þórir Kjartansson, 16.4.2008 kl. 08:58

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það þarf ekki að bíða neitt með að telja upp bullið í andstæðingum framkvæmdanna fyrir austan. Margt af því liggur nú þegar á borðinu, en vissulega á eitthvað af því eftir að koma á daginn síðar.

Í athugasemd  #1 hér að ofan segir, "Skjótur gróði í sjónmáli og allt annað má fara lönd og leið".  Þetta er grunnhyggið sjónarmið í meira lagi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2008 kl. 09:50

12 Smámynd: Þórir Kjartansson

Að vissu leyti sammála því að takmarka sem mest afskipti fræðinganna ,,að sunnan" .  En það skýtur óneitanlega skökku við að  stjórnvöld skuli vera búin að koma því svo fyrir að ákvörðun um stóriðju sé bara orðið mál heimamanna á hverjum stað. Og ekki dettur mér í hug að liggja þeim  Vestfirðingum á hálsi, sem  í örvæntingu sinni sjá í hillingum 500 störf á einu bretti.  En það eru fleiri svæði á Íslandi í varnarbaráttu en Vestfirðir og þessvegna gætum við átt eftir að sjá allskonar óþverraiðnaði raðað á strandlengjuna þar sem hentugt væri án þess að stjórnvöld gætu nokkuð í því gert.  Í mínum huga er bæði uppbygging stóriðju og fiskveiðistjórnunin mál allra landsmanna.   Hversu gáfulegar ákvarðanirnar  ,,að sunnan" eru, er svo allt annar handleggur.  Þar hræða vissulega sporin eftir reynsluna af kvótakerfinu.

Þórir Kjartansson, 16.4.2008 kl. 10:48

13 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ómar bloggar: ".....100 olíuhreinsistöðum í Evrópu væru aðeins tvær í Noregi, báðar nálægt tveimur stærstu borgunum, Osló og Bergen.  Ekki ein einasta á allri strandlengjunni norður úr þar sem við sams konar byggðavanda er að etja og á Vestfjörðum."

Væri umræðan öðruvísi ef verið væri að tala um olíuhreinsistöð í nágrenni Reykjavíkur eða við Akureyri???

Benedikt V. Warén, 16.4.2008 kl. 11:21

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svar mitt við spurningu þinni, Benedikt, er skýrt: Nei. Nóg er nú aðgert með þeirri stefnu að reyra allt suðvesturhornið niður í flækju af verksmiðjum, virkjunum, stíflum, borholum, gufuleiðslum og háspennulínum.

Ég reikna með því að Norðmenn hafi talið rétt að reisa tvær stöðvar til þess að geta fullunnið olíuna fyrir sig sjálfa, annars vegar nálægt olíuborsvæðunum og hins vegar nálægt stærsta innanlandsmarkaðnum. Í því felst líklega öryggi að þeirra dómi fyrir því að hafa eitthvað með úrvinnsluna að gera og hagkvæmni að fullvinna hráefnið sem næst þeim stað þar sem það er

En miðað við það hvað þeir framleiða mikið vekur athygli að þeir skuli ekki vilja nýta sér það á vestfirskan hátt til að leysa byggðavanda sinn.

Síðan má nefna eitt atriði sem ekki er nefnt í umræðunni. Upp úr 2010 fer olíuforði heimsins smám saman að minnka. Þá mun olíuhreinsistöðvum væntanlega fara að fækka og slagsmál verða um það hverjar þeirra lifa.

Olían er takmörkuð auðlind, ekki sjálfbær. Hefur enginn leitt hugann að því að fara kynni á svipaðan hátt fyrir olíuhreinsistöðvum hér á landi og hvalveiðistöðvunum á sínum tíma?

Ómar Ragnarsson, 16.4.2008 kl. 12:01

15 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það varð enginn heimsendir þó hvalveiðistöðvarnar leggðust af á sínum tíma.  Sem betur fer er aðlögun mannsins og framkvæmdagleði nær ótakmörkuð.  Manninum leggst alltaf eitthvað nýtt til og ekki þarf að örvænta þó olíuna þverri eða stöku hitisvæði í jörðu kólni, - það kemur alltaf eitthvað í staðinn. 

Hitasvæði er ekki endilega gefin stærð, hvað þá staðbundin, þó flest séu þau árhundruðum saman á sama stað. 

Vísustu menn hjá Bandarísku einkaleifastofnuninni vildu leggja hana niður í byrjun tuttugustu aldar, vegna þess að þeir töldu að búið væri að finna allt upp sem hægt væri að finna upp.  Staðreyndin sýnir annað. 

Ég er ekki sáttur við áróðurinn um að nota matvæli til olíuframleiðslu, - það er eitt mesta "blöff" náttúruverndarsinna og mikil skrumskæling á staðreyndum, eins og er að koma fram.  Eyðing skóga til rækturnar og hækkun á matvælaverði er að verða faraldur, sem harðast kemur niður á íbúum fátækari landa og gætu endað sem eins konar manngerðar hamfarir og það í nafni "hreinnar orku".  Þvílík skrumskæling.

Benedikt V. Warén, 16.4.2008 kl. 12:31

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nýjustu fregnir af hækkandi matvælaverði sýna að fráleitt er að láta framleiðslu lífræns eldsneytis bitna á matvælaframleiðslunni. Sammála þér Benedikt um það.

Kristinn Pétursson kemur að kjarna málsins. Hann spyr: Hvað er að því þótt það séu fimm olíuhreinsistöðvar á litlu svæði í Hollandi? Í loftinu liggur næsta spurning: Hvað yrði að því þótt það yrðu fimm olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum? Fimm á Austfjörðum? Sex risaálver á Íslandi? Landið allt samansúrrað af virkjunum og verksmiðjum, eins og gerist í Evrópu? Hvað er að því?

Mitt svar er þetta: Það sem er að því, Kristinn, er að þá erum við búin að gera Ísland eins og öll hin löndin og ræna landið þeirri sérstöðu, sem er miklu mikilvægari en allt annað, að vera öðruvísi en hin löndin, að mestu ósnortið og hreint.

80 prósent erlendra ferðamanna koma af þessum sökum til Íslands, ekki til að skoða verksmiðjur og hverja virkjunina á fætur annarri.

Sex risaálver og tíu olíuhreinsistöðvar myndu gefa 4-5% vinnuaflsins hér á landi. Og hvers konar vinnuafl? Í auglýsingu Fjarðaráls í gær var sérstaklega tekið fram að engrar menntunar eða þjálfunar væri krafist fyrir störfin sem fólk vantar ennþá í þar.

Fólk vantar í? Einkennilegt hvað það þarf enn mikið af heilsíðuauglýsingum til að fá fólk til vinnu í himnaríki Austurlands.

Ómar Ragnarsson, 16.4.2008 kl. 14:34

17 identicon

Ef að vestfyrðingar vilja fá til sín olíuhreynsistöð, þá þeir um það, mér sem Reykvíking kemur það einfaldlega ekki við, (þó svo að ég fari reglulega vestur), ástæða er sú að mér kemur þetta ekki við er að ég sæki ekki atvinnu og bý ekki þarna, þetta er spurning um að fólk hafi atvinnu og í sig og á, þegar nátturuverdarsinnar eru á móti uppbyggingu með þessum hætti, þá komið með aðra lausn ekki nöldur, annars er mín skoðun sú að væri fínt að fá þessa stöð vestur

Arnbjörn (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 14:38

18 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þetta var mjög athyglisverður þáttur og löngu tímabær. Ég furða mig á því að Sjónvarpið (RÚV) sé ekki með neitt af þessu kaliberi á vegum fréttastofunnar. Þar á bæ virðist ítarleg og gagnrýnin umfjöllun vera afar sjaldgæf.

Ég rak augun í það að heimilisfang Íslensks hátækniiðnaðar er á Garðastræti 34 á meðan að rússneska sendiráðið er á Garðastræti 33. Hér gæti vissulega verið um algjöra tilviljun að ræða en þetta hefur örugglega sparað bæjarstjóra Vesturbyggðar sporin þegar hann heimsótti á sínum tíma sendiherrana tvo, þann rússneska og þann íslensk-rússneska.

Það virðist ljóst að bæjarstjórnir fyrir vestan taki Rússunum opnum örmum ef þeir birtast með fullar hendur fjár. Hins vegar gefur líka augaleið að fjárfesting fyrir 300.000 milljónir nær kröftugu kverkataki á samfélaginu sem ólíklegt er að fólk þoli til lengdar. Því spái ég að fólksfjölgun yrði einungis í hópi innfluttra og finnst þó sumum hlutfall þeirra nokkuð hátt fyrir vestan nú þegar. Má ef til vill búast við því að rússneskur bæjarstjóri taki við af Ragnari í Vesturbyggð fyrr en varir?

Sigurður Hrellir, 16.4.2008 kl. 15:04

19 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þetta er ekkert einkamál vestfirðinga. Ef svipað slys verður hér og í Alaska mun það hafa áhrif miklu víðar en á Vestfjörðum. Ég skil ekki af hverju fólk sér ekki hvað það er að gera ímynd Íslands. Kannski sé ég það betur hér í hinu mengaða Hollandi en fólkið heima. Kannski heyri ég það betur því útlendingarnir eru allt í kring og tónninn í þeim er að breytast. 

Ef vandamálið er atvinna, af hverju er kvótakerfið ekki stokkað upp? Það er auðvitað fáránlegt að örfáir sjávargreifar eigi fiskinn okkar og flytji vinnsluna hvert sem þeir vilja. Eru það ekki mannréttindi vestfirðinga að fá fiskinn sinn til baka? Vestfirðinga og annara landsmanna sem búa við sjávarsíðuna?

Það að lítið er vitað um mennina sem standa á bak við þetta ævintýri er svo stórskrítið. Það er algert skilyrði að allt ferlið, fari það af stað fyrir alvöru, sé 100% gegnsætt.

Villi Asgeirsson, 16.4.2008 kl. 15:15

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú eru olíhreinsunarstöðvarnar orðnar 10! Mér finnst sjálfsagt að berjast gegn því. Hvar skrái ég mig í mótmælahóp gegn 10 olíuhreinsistöðvum? Hvar eiga þær að vera? Hvaðan fá þær orku?

Enn og aftur, er þetta boðlegur málflutningur? Afhverju gerið þið allt til þess að fólk hætti að taka mark á ykkur? Hver á þá að taka við náttúruverndarkeflinu?

"Einkennilegt hvað það þarf enn mikið af heilsíðuauglýsingum til að fá fólk til vinnu í himnaríki Austurlands".

Þar eð þú gengur með stjórnmálamanninn í maganum Ómar, þá væri ekki úr vegi fyrir þig að temja þér vandaðri vinnubrögð og kynna þér málin áður en þú opinberar þig svona. V-grænir hafa notað þessa taktík árum saman og enginn treystir þeim til ríkisstjórnarsetu. Ekki frekar en forverum þeirra Alþýðubandalaginu.

En ég get svosem sagt ykkur frá því í framhjáhlaupi  að Alcoa hélt fyrri helming árshátíðar sinnar á Fáskrúðsfirði um síðustu helgi, en skipta þarf árshátíðinni á tvær helgar vegna mannfjölda. Ég keyrði nokkra heim frá þeirri gleði. Einn farþega minna, sem var vel við skál, hafði allt á hornum sér gagnvart álfyrirtækinu og sagði mér í álvöru og trúnaði að vinnustaðurinn væri ömurlegur og stjórnendur hans væri skítapakk. Þegar ég kvaddi farþegann á leiðarenda, sagði hann mér, eins og hann væri að gefa mér tips á veðreiðum; "Þú skalt aldrei sækja um vinnu hjá þessu fyrirtæki".  Það hlýtur að meiga búast við því að sjá þessa manneskju í viðtali við Kompás fljótlega.

Þetta með að leynd hvíli yfir þessum fjárfestum fyrir vestan, þá get ég fullvissað andstæðinga þessara fyrirætlana um að fyrr en seinna muni þetta allt saman koma í ljós. Bíðum með bollalenggingar um glæpamenn þangað til.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2008 kl. 17:25

21 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tíu olíuhreinsistöðvarnar eru ekki úr mínum hugarheimi. Kristinn Pétursson sagði að ekkert væri við það athuga að fimm olíuhreinsistöðvar væru á litlum bletti í Evrópu. Þaðan koma orð mín um fimm á Vestfjörðum og fimm á Austfjörðum.

LJóst er að útblástur frá einni stöð fyrir vestan rúmast ekki innan heimilda Íslands en enginn sveitarstjórnarmaður fyrir vestan virðist hafa áhyggjur af því og að í hugum þeirra sem eru ákveðnir í því að stöðin rísi trúa orðum talsmanna Íslensks hátækniiðnaðar að það verði auðleyst vandamál.

Í sjónvarpsfréttum í kvöld sagði Pétur Blöndal að skortur væri á hreinsistöðvum í heiminum og eins gott að þær rísi á Íslandi eins og í öðrum löndum.

Ég skal meira að segja raða þrettán hreinstöðvunum á þá staði þar sem annars yrði byggðaflótti og áhugamenn um þær ekki síður áfjáðir þar en fyrir vestan:

Vesturbyggð.

Ísafjarðarbær.

Hólmavík.

Borðeyri.

Blönduós.

Sauðárkrókur.

Siglufjörður.

Raufarhöfn.

Vopnafjörður.

Borgarfjörður eystri.

Djúpivogur.

Höfn í Hornafirði.

Vík í Mýrdal.

Ómar Ragnarsson, 16.4.2008 kl. 19:26

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétting á innsláttarvillum í miðklausunni hér fyrir ofan. Á að vera svona: "....og þeir sem eru ákveðnir í að stöðin rísi trúa orðum Íslensks hátækniiðnaðar um að það (að fá losunarheimildir) verði ekkert vandamál.,,"

Ómar Ragnarsson, 16.4.2008 kl. 19:30

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er kannski bara hræðsla hjá þér Ómar, við það að þessi olíuhreinsistöð lukkist ljómandi vel í byggðar og efnahagslegulegu tilliti. Þið sem mótmælið nú, er greinilega sama fólkið og mótmælir öllum virkjunaráformum í landinu. Það yrði náttúrulega áfall fyrir ykkur að fá enn einn löðrunginn frá þjóðinni ef þetta verður samþykkt. Ég veit að þið kvíðið stóra dóminum þegar öll kurl koma til grafar varðandi Kárahnjúka.

Hrein ímynd er ykkur hugleikin. Hrein ímyndun eru einkunnarorð ykkar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.4.2008 kl. 02:40

24 identicon

Það er mikið brenglað við þankagang þessarra embættismanna sem komu fram í Kompás þættinum,  og er kominn tími til að kalla hann sínu rétta nafni - heimsku. Takk fyrir frábært innlegg þitt í þáttinn sem var góð viðleitni til að setja málið í rétt samhengi.

Tómas Ponzi (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 11:25

25 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jóhann Örn Arnarson. Ég veit ekki til þess að neinum sem á annað borð er á sveimi við að gera athuganir á blogginu sé meinað að birtast hjá mér. Þetta er ekki af mínum völdum.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2008 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband