Dettifoss og Gullfoss líka?

Hugmyndir um að Urriðafoss verði fallegri og betri eftir virkjun ríma vel við hugmyndir virkjanasérfræðinga um að hægt sé að virkja Dettifoss, Gullfoss og aðra fossa á þennan hátt. Á ráðstefnu einni rakti sérfræðingur áætlun um virkjun Dettifoss sem byggðist á því að hægt yrði að auglýsa hann áfram sem kraftmesta foss Evrópu þótt vatn yrði tekið af honum vegna virkjunar!

Áætlunin byggist á rannsókn, sem gerð var á viðhorfum ferðamanna við fossinn eitt sumar. Á kuldakafla  minnkaði rennslið um hann úr 400 rúmmetrum niður í 160 rúmmetra og niðurstaða rannsóknarinnar var að "það kvartaði enginn".

Af þessu var dregin sú ályktun að hægt yrði að hleypa á fossinn ca 160 rúmmetra rennsli þær fáu vikur sem ferðamannastraumurinn væri mestur, - fossinn yrði fallegri með þessu vatnsmagni en ekki eins illúðlegur og þegar hann er sá kraftmesti í Evrópu.

Áfram yrði hann auglýstur sem aflmesti foss Evrópu og allir yrðu ánægðir. Vafalaust er hægt að virkja Gullfoss á svipaðan hátt og fjarlægja Sigríðarstofu eða breyta nafni hennar svo lítið beri á einhvern veturinn þegar fossstæðið er hvort eð er þurrt og engir ferðamenn á ferli.

Þetta yrði svo "gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt" svo að notuð séu orð bóndans að Urriðafossi.

Urriðafoss hefur hingað til verið auglýstur sem vatnsmesti foss landsins en auðvitað á enginn eftir að kvarta þótt hann verði minni og fallegri einhverja sumardaga, hvað þá þótt hann hverfi alveg á veturna þegar ferðamannastraumurinn er enginn.

Virkjanaáætlanir byggjast nefnilega þrátt fyrir allt á þeirri óumflýjanlegu staðreynd að það er ekki bæði hægt að leiða vatn úr farvegi fljóta í fallgöng gegnum stöðvarhús til að framleiða nokkur hundruð megavött og hafa sama vatnið á fossum árinnar næst fyrir neðan á sama tíma.

Persónlega finnst mér Búðafoss og Hestafoss ofar í Þjórsá fallegri en Urriðafoss en virkjunarmenn eru svo heppnir að aðgengi að þeim er miklu verra en að Urriðafossi, að ekki sé minnst á Gljúfurleitarfoss, Dynk og Hvanngiljafoss fyrir neðan Norðlingaöldu sem eru enn á aftökulista Landsvirkjunar hvað sem Össur Skarphéðinsson segir.

Dynkur er að mínum dómi magnaðasti stórfoss landsins vegna þess að ég þekki enga hliðstæðu hans erlendis en hef séð marga jafnoka eða ofjarla Gullfoss.

Nú er þegar búið að taka 40 prósent af vatnsmagni Dynks frá honum og enginn íslenskur foss þolir eins illa að missa vatn, því að þá breytist hann úr einstæðu samsafni 18 fossa í fossstæðinu í 10 fossa fyrirbrigði þar sem sumir fossarnir eru orðnir að sprænum og nafnið Dynkur orðið hlægilegt.

Vegna þess að ekkert hefur verið gert til að bæta aðgengi að fossinum mun aðferð strútsins svínvirka þegar honum verður slátrað.

Því eins og allir vita er það,  sem strúturinn sér ekki, ekki til.

 

 


mbl.is Fossinn sem gleymdist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Er þetta ekki hið besta mál. Það sem þarf að gera er að hafa takka við fossinn. Þannig geta ferðamenn komið að þurrum farveginum, tekið myndir af berginu og ýtt svo á takkann til að hleypa vatni á fossinn í 10-15 mínútur. Gegn gjaldi, að sjálfsögðu. Þannig væri jafnvel hægt að hleypa 500 rúmmetrum í Dettifoss. Hann yrði því enn kraftmeiri en hann er nú. Það þarf bara að sjá til þess að sett verði upp skilti sem banna fólki að vera á rölti um farveginn, því annars fara kanarnir í mál ef einhver sópast með þegar ýtt er a takkann. Annars er þetta bara allt í góðu.

Villi Asgeirsson, 30.7.2008 kl. 19:33

2 identicon

Ég held að 99.9% af íbúum þessa lands sé sammála að virkja ekki Gullfoss, Dettifoss, Goðafoss og fleiri álíka perlur.   Mér var sagt að það væru virkjanir fyrir ofan og neða Niagara fossa, en veit ekki  hvort það sé rétt.   Auðvitað þarf að nást sæmileg sátt um  hvað megi virkja.

Ómar hvaða vatnsfall telur þú í lagi að virkja hér á landi ??  Stundum finnst manni eins og þú viljir bara alls ekkert virkja.

Gisli Gislason (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 08:48

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vatnsföll, sem ég hef ekki amast við að virkjuð yrðu: Andakílsárvirkjun, Mjólkárvirkjun, Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun (ófullgerð) Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun, Smyrlabjargaárvirkjun, Fjarðarárvirkjun (minni en raun varð, Straumfjarðarárvirkjun (minni en raun varð).

Ég amaðist ekki við Blönduvirkjun á sínum tíma en tel að hún hefði átt að vera með miklu minna miðlunarlóni.

Allar þessar ofannefndu virkjanir útvega okkur Íslendingum margfalt meira rafmagn en við þurfum til venjulegra nota og nú er kominn tími til að staldra við.

Framundan er öld minnkandi olíuframboðs og þá verðum við að eiga raforku handa okkur sjálfum fyrir bíla- og skipaflotann.

Ómar Ragnarsson, 31.7.2008 kl. 15:26

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get bætt því við að ég myndi vilja leggja Skeiðsfossvirkjun niður og fá aftur hinn dásamlega græna og fagra innsta hluta Fljótanna.

Ég skoðaði lónstæðið vor eitt fyrir nokkrum árum og tók myndir af því. Vegna þess hve vatnið er hreint hefur virðist leirset enn ekki hafa aflagað botninn í öll þessi ár.

Fólk var að flýja frá sjö bæjum vegna þessarar virkjunar, alls um 50 manns. Þarna ætti að framkvæma "Vor í dal"- hugsunina sem svo vel hefur reynst í Selárdal vestur.

Ómar Ragnarsson, 31.7.2008 kl. 15:29

5 identicon

Þakka þér fyrir þetta.  Þessar virkjanir sem þú telur upp eru allt virkjanir sem búið er að virkja. En af þeim óvirkjuðu vatnföllum, hvaða vatnsföll myndir þú vera sáttur við að virkja?

Er ekki málið að við þurfum að búa til sátt um

 a) Vatnsföll sem verða ekki virkju t.d., Gull-, Dett-, Goðafoss ofl.

b) Vatnsföll sem væri sátt um að virkja. Spurning hvaða.

c) Vatnsföll sem eru á gráu svæði (virkjana sinnar myndu vilja að virkja en friðunarsinnar ekki).

Þegar við erum með einhverja svona flokkun, þá er það svo allt önnur politík í hvað á að nota rafmagnið. 

Það eru skynsamleg rök að selja ekki of stóran hluta af rafmagni til álvera.  Virði svona rafmagnsframleiðslu mun margfaldast á næstu áratugum.  Þannig er alls ekkert víst að eftir 40-50 ár verði Alcoa eða Rio Tinto samkeppnishæf að endurnýja raforkusamninga við okkur.

Veist þú hvort það sé rétt að það séu virkjanir fyrir ofan og neða Niagara. Mér finnst það ótrúlegt en hitti mann um daginn sem fullyrti að þar væru rennslisvirkjanir.

Gisli Gislason (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 15:49

6 identicon

Það er athyglisvert að lesa svar þitt Ómar, þar sem þú lýsir því yfir að þú hafir ekki amast við virkjun vatnsfalla sem þú síðan telur upp hver eru. Má túlka svar þitt þannig að þér finnist að umhverfislegt tjón af völdum þessara virkjana sé ásættanlegt í hlutfalli við hvað við fáum í staðinn, fyrir utan Blönduvirkjun þar sem miðlunarlónið hefði að þínu mati mátt vera minna?

Þær spurningar sem vakna hjá mér eftir að hafa lesið þessa umræðu eru ýmsar og mig langar að nálgast efnið frá ýmsum sjónarhornum.

Mér finnst hugmynd Gísla ágæt, að flokka vatnsföll landsins, hvaða vatnsföll má virkja, hvað má ekki virkja o.s.frv. en hverjir eiga rétt á að leggja sitt til málanna?

Hvað segir landeigandin og hversu þungt vega skoðanir þess oft á tíðum fámenna hóps, sem hefur átt því láni að fagna að hafa ferðast um svæðið sem virkja á? Er þetta kanski eitthvað sem öll þjóðin á að ákveða í sameiningu, eða væri það rangt sökum þess að fáir myndu í raun vita hvað þeir væru að ákveða? Nægir kanski að fulltrúar þjóðarinnar sem sitja á þingi og ríkisstjórnin taki á málinu?

Út frá hvaða forsendum á að taka ákvarðanir í þessum málum, hvað vegur þyngst? Þó að þú Ómar hafir ekki amast við virkjunarframkvæmdum í þeim vatnsföllum sem þú taldir upp, þá efast ég ekki um að þeir hafi verið til sem hafa amast við þeim. Kanski hafa svæði sem í þeirra augum voru náttúruperlur verið sökkt í miðlunarlón eða skaðast af öðrum ástæðum samfara framkvæmdum? Hvað er í lagi að gera og hvað ekki, hverju má sökkva og hvaða fossum má minnka vatnssteymið í án þess að það sé ástæða til að amast við því?

Til eru fleiri dæmi en bara virkjunarframkvæmdir, hvað með venjulegar byggingarframkvæmdir? Kanski spurning sem má velta fyrir sér með það í huga hvernig byggð á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar um landið hefur breitt úr sér undanfarna áratugi.

Ég er alls ekki að reyna að gera lítið úr þinni merku umfjöllun um t.d. Kárahnjúkavirkjun, alls ekki. Ég er kanski meira að reyna að lyfta fram þeirri skoðun minni að það séu fleiri hliðar á málinu, að það séu fleiri sem hafa ákveðnar skoðanir á þeim framkvæmdum sem staðið er í í dag, eða hafa haft ákveðnar skoðanir á því sem nú þegar er virkjað en sem ekki hafa haft bolmagn eða það aðgengi að fjölmiðlum sem t.d. þú hefur til að koma skoðunum sínum á framfæri til almennings.

Þetta er engan veginn einfalt mál...það munu alltaf verða til þeir sem eru ósammála um hvort og þá hvernig á að standa að virkjanaframkvæmdum, en stóra spurningin er hverjir hafa rétt fyrir sér, þeir sem tala mest, best eða hæst?

Eggert Ólafur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband