Góð lausn.

Lausn deilumáls þeirra Matthíasar Johannessen og Guðjóns Friðrikssonar sýnist mér yfirveguð og skynsamleg. Að mínum dómi gerði Matthías rétt sem blaðamaður í því að hafna því að stroka upphaflegu færslu sína út. Það hefði verið breyting á gögnum málsins og sýnir að hann hefur kjark til að gangast við mistökum sínum og leiðrétta þau í stað þess að fara með þau í felur. 

Birting dagbókanna hefur haft bæði kosti og galla. Einhver sagði að dagbók lygi ekki en þetta mál afsannar það. Hins vegar lýgur dagbók síður um ástand höfundarins dag frá degi og er að því leyti til verðmætt gagn. 

Dagbókarfærslan um Davíð og veikindi forsetafrúarinnar heitinnar orkar tvímælis að mínum dómi. Hún sýnir að vísu hugarástand þeirra sem koma við sögu og getur því orðið hluti af sögu af þjóðfélagasástandi, sem síðar verður skráð af sagnfræðingum.

Spurning er hins vegar hvort opinbera eigi svo snemma sögur af þessum toga, sem skapa viðkvæmni og umrót þegar þær birtast.

Um þessar mundir, þegar ég vegna aldurs þarf að huga að því hvort og þá hverju ég eigi að segja frá, sem á dagana hefur drifið, eru allmörg atriði þess eðlis, að réttast væri að geyma þau óbirt í a.m.k. 50 ár. Sögurnar eru gull en meiru varðar þó að meiða ekki eða ergja fólk að óþörfu.  

Fara þarf sérstaklega varlega í að upplýsa um efni trúnaðarsamtala blaðamanna. Stundum er það illmögulegt en þá getur millileiðin verið fólgin í því að segja ekki hver viðmælandinn var, heldur "dreifa" uppruna sögunnar eða ummælanna.

Ég tel mig þurfa um þessar mundir í rökræðum dagsins að vitna í tvö einkaviðtöl, sem viðmælendur mínir tóku þó ekki fram að væru trúnaðarsamtöl. Í báðum tilfellum segi ég að viðmælendurnir hafi verið ráðherrar á síðasta áratug liðinnar aldar.

Annar sagði setninguna: "Reynslan sýnir að það verður að halda stanslaust áfram stóriðju- og virkjanaframkvæmdum, annars kemur kreppa og atvinnuleysi." Þegar ég spurði hann á móti: "En hvað á að gera þegar allt hefur verið virkjað?", - svaraði hann: "Það verður viðfangsefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi." 

Hinn sagði nýlega við mig í viðtali: "Ég vann á námsárum mínum á sumrin við mælingar á hálendinu og get sem dæmi um það, hve mikil áhrif það hafði á mig, nefnt, að ef breyta ætti Þórisvatni í dag úr ægifögru himinbláu fjallavatni í stærra og gulbrúnt, aurugt miðlunarlón eins og gert var, yrði það ekki verjandi."

Fyrri viðmælandinn lýsti vel hvernig við veltum viðfangsefnum yfir á afkomendur okkar og hinn síðari því, hvernig kynni hans af eðli mála gerbreytti viðhorfum hans.

Ég tel báðar þessar tilvitnanir nauðsynleg innlegg í virkjanaumræðuna nú og ráðherrarnir á árunum 1990 - 2000 voru nógu margir til þess að enginn sérstakur þarf að taka þetta til sín og ekki á að vera hægt að reykja þetta til neins þeirra. 

Hefðu þessir menn beðið mig sérstaklega í trúnaði um að greina ekki frá þessum ummælum sínum og engin leið til að upplýsa um þau nema að böndin bærust að þeim, hefði sú nauðsyn að viðmælendur blaðamanna geti treyst þagmælsku þeirral, orðið til þess að sá trúnaður hefði ekki verið rofinn. 

Blaðamaður sem uppvís verður að því að rjúfa trúnað verður ekki langlífur í starfi og getur rýrt traust fólks til annarra blaðamanna.  

 


mbl.is Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

en sniðugt hjá Matthíasi að brjóta ekki trúnaðinn fyrren það var orðið of seint að gera eitthvað í því, svona framabrautarlega séð. Hann komst á toppinn þrátt fyrir að vera argasti trúnaðarrofi. 

halkatla, 31.8.2008 kl. 23:17

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að oft sé "logið" í dagbókum, ekki síst með þögninni. Sumt getur t.d. verið svo sárt að menn trúi ekki einu sinni dagbókinni fyrir því.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.8.2008 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband