Erfið einkunnagjöf.

Einkunnagjöf á borð við þá sem Transparency International stundar er í besta falli óljós vísbending því að spilling getur leynst lygilega. Ég hygg til dæmis að þegar tímar líða fram muni sú lúmska kúgunarspilling, sem hér þreifst á síðustu árum valdatíma Davíðs og Halldórs verða talin athyglisverð.

Ægivald Davíðs var orðið slíkt, að hann gat við annan mann slengt Íslandi inn í stríðsátök sem byggðist á fölskum forsendum og var þar að auki mikil áherslubreyting í utanríkisstefnu landsins.

Á tímabili var það svo að foringinn þurfti ekki lengur að láta til sín taka í einstökum málum. Menn hans gerðu það sem þeir héldu að honum myndi hugnast vel og þeir sem fengu að kenna á valdinu voru líka farnir að reyna að haga sér eins og þeir héldu að gæfi þeim skástu útkomuna gagnvart raunverulegum eða ímynduðum vilja valdhafanna.  

Raunar efaðist ég um að Ísland gæti trónað í heiðurssæti þjóðanna með góðri samvisku fyrir tveimur árum og sýnist núverandi mat vera nær sanni og að Ísland hafi hækkað í raun á fyrstu árum nýrrar aldar.   


mbl.is Spillingareinkunn Íslands lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held nú að við eigum að vera mun neðar á þessum blessaða lista. Fyndið að það er hægt að ljúga alls konar vitleysu í þessa úttektarmenn. Vart til meiri spilling en hér.

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 13:41

2 identicon

Ég held að allir íslendingar viti að við eigum að vera miklu neðar á þessum lista... miklu miklu neðar.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 13:42

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Það er talsverð spilling hér á landi. Ekki er búið að kanna á nokkurn hátt í hvaða mæli eru greiddar mútupeningar. Við erum alls ekki nógu vakandi fyrir þessu.

Úrsúla Jünemann, 23.9.2008 kl. 13:57

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

já það eru alltaf allir að fara borga sýslumanni eða lögreglunni fyrir að fella niður ákærur. eða að múta dómurum til þess að fá hagstæða dóma.

uuuuh nei.

en hvernig skilgreiniði spillingu? og hvernig er sú skilgreining í samanburði við skilgreiningu Transparency International?

er það kannski bara að þeir sem eru fúlir kalla þá sem þeim er illa við spillta? 

Fannar frá Rifi, 23.9.2008 kl. 14:48

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Davíð Oddsson, ásamt hruni Sovétríkjanna árið 1991, gerði Ísland að kapítalísku ríki, en fyrir þann tíma var landið kommúnískt á nútíma mælikvarða. Og Ísland varð hluti af Evrópska efnahagssvæðinu í ársbyrjun 1994. Davíð var forsætisráðherra 1991-2004, utanríkisráðherra 2004-2005 og formaður Sjálfstæðisflokksins 1991-2005. En að sjálfsögðu hafði Davíð einnig mikil áhrif hér sem borgarstjóri.

Allt var hér nánast niðurnjörvað í fimm ára áætlanir Sovétmanna. Íslensk sjávarþorp byggðust mörg hver að miklu leyti á samningum um sölu á hundrað þúsund tunnum af saltsíld til Sovétríkjanna árlega og þangað var einnig seldur frystur þorskur og karfi í miklum mæli. Og svipaðir samningar voru gerðir við Austur-Þjóðverja og fleiri þjóðir.

Íslenskir bændur voru einnig háðir Sovétmönnum. Verksmiðjurnar á Akureyri og Álafossverksmiðjan byggðust á árlegri sölu á hundrað þúsund treflum, lopapeysum og fleiru til Sovétríkjanna. Og þaðan fengu Íslendingar í staðinn bíla, stál, olíu og fleira.

Verð á fiski í fiskbúðum hér var ákveðið af nefnd og ekki fór mikið fyrir frjálsri samkeppni hér, flestu skipt á milli Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna. Tvö skipafélög skiptu á milli sín sjóflutningum, tvö fyrirtæki sölu á frystum fiski og svo framvegis.

Á þeim tíma hygluðu íslenskir stjórnmálamenn hver öðrum eins og þeir höfðu getu til. Framsóknarmenn létu aðra framsóknarmenn hafa feit embætti og svo framvegis. Var engin spilling í Hafskipsmálinu eða Geirfinnsmálinu, svo einhver dæmi séu tekin? Ég man ekki betur en Davíð Oddsson hafi sagt að Geirfinnsmálið hafi verið hneyksli.

Almenningur þurfti að skríða hér fyrir bankastjórum til að kría út víxil til tveggja mánaða og þeir sem fengu lán stórgræddu, því verðbólgan fór upp í 80% en vextirnir voru mun lægri. Þeir einu sem voru svo vitlausir að spara voru börn og gamalmenni en miðaldra fólk byggði einbýlishús fyrir peninga þeirra fyrrnefndu.

Og ef við förum lengra aftur í tímann þegar allt var skammtað hér eftir Síðari heimsstyrjöldina. Sumir fengu að kaupa jeppa en aðrir ekki og allt byggingarefni var skammtað. Hér og þar vantaði glugga og vantar enn.

Og hvað með fjölmiðlana? Stjórnmálamenn fengu hér skrifaðar spurningar til yfirlestrar áður en þeir svöruðu þeim og svöruðu einungis þeim spurningum sem þeir vildu svara. Ólafur Ragnar Grímsson, nú forseti íslands, gerði allt vitlaust í Sjónvarpinu þegar hann spurði stjórnmálamenn og bankastjóra hér hvassra spurninga á upphafsárum þess. Og þá var aðeins ein útvarpsstöð.

Ætli spillingin hér hafi ekki verið töluvert meiri fyrir tíma Davíðs en hún er nú, þegar mun auðveldara var að fela spillinguna en núna.

Þorsteinn Briem, 23.9.2008 kl. 15:21

6 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Öll umræða hér um spillingarlista Transparency International ber vott um vanþekkingu á þessum lista. Ég ákvað að kynna mér þetta fyrirbæri og skrifaði síðan um það pistil - Spilling á Íslandi.

kk,

Sigurður Ingi Jónsson, 23.9.2008 kl. 15:36

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurður Ingi. Ég var ekki að skrifa hér um spillingu á þessum lista Transparency International, heldur spillingu hérlendis fyrr og nú.

Það er nú erfitt fyrir okkur að dæma um það hvort spillingin hér er meiri eða minni en í einhverju öðru landi, sem við höfum aldrei búið í sjálf, en við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvort spillingin sé meiri eða minni hér en hún var fyrir til dæmis tveimur eða þremur áratugum.

Þorsteinn Briem, 23.9.2008 kl. 15:54

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Góður pistill, Sigurður Ingi. Þú segir meðal annars:

Það eru engin takmörk á fjárstuðningi við frambjóðendur eða stjórnmálaflokka utan þess að erlendir aðilar mega ekki styrkja þá.

Einfalt að redda því. Ég get sett upp fyrirtæki og selt erlendum aðila "þjónustu". Svo styrki ég uppáhaldsflokk viðskiptavinarins.

Villi Asgeirsson, 23.9.2008 kl. 16:06

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

Steini, spillingin er öðruvísi og kannski minna kommúnísk, en er hún minni? Hvað varð um kvótann og einkavæddu ríkisfyrirtækin? Hver græðir á stóriðju?

Villi Asgeirsson, 23.9.2008 kl. 16:09

10 Smámynd: Fannar frá Rifi

"Það eru engin takmörk á fjárstuðningi við frambjóðendur eða stjórnmálaflokka utan þess að erlendir aðilar mega ekki styrkja þá."

lög um 300.000króna hámarkstuðning? ef eitthvað mætti kalla spillingu var það einmitt þessi lög þegar stjórnmálaflokkar hjálpuðu sér í ríkiskassan og útiloka öll frekari framboð. 

annað er bara upphrópanir hjá þeim sem er illa við núverandi stjórnendur landsins.

Fannar frá Rifi, 23.9.2008 kl. 16:17

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er hárrétt að hið úrelta haftaskipulag var gerspillt fyrir daga Davíðs (eða eigum við að segja Jóns Sigurðssonar, sem byrjaði á breytingum til batnaðar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og hélt þeim áfram í tíð Davíðs).

Þetta þjóðfélagsástand var við líði allt of lengi hér á landi og það er í góðu lagi að halda til haga nafni Davíðs, Jónanna tveggja og annarra sem stóðu að afnámi þess.

Kerfið kostaði þjóðfélagið vafalaust ótrúlegar fjárhæðir auk þeirra vondu áhrifa sem það hafði á þjóðina.

Ég sat nýlega á tali við mann, sem á unglingsárum á síðari hluta sjötta áratugarins hafði þann starfa að fara á milli stofnana með lista yfir úthlutaða bíla til flokksgæðinga, og fengu menn bíla í hlutfalli við pólitískt mikilvægi.

Steingrímur Hermannsson segir hreinskilnislega frá því í æviminningum sínum hvernig faðir hans gekkst fyrir því að bóndi í Borgarfirði fengi úthlutað jeppa sem landbúnaðartæki til þess að jeppinn gæti síðan ratað beint í hendur sonarins.

Steingrímur á þökk skilda fyrir þessa frásögn, því að hún sýnir hvernig þetta hugarfar hafði gegnsýrt allt þjóðfélagið svo að svona lagað þótti sjálfsagður hlutur.

Ég lít ekki á þessa frásögn sem áfellisdóm yfir þeim feðgum né neinum öðrum sérstökum persónum heldur yfir því kerfi, sem kallaði á það að hver bjargaði sér sem best hann gæti.

Ómar Ragnarsson, 23.9.2008 kl. 16:32

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Villi. Mörgum finnst vera spilling í fiskveiðistjórnunarkerfinu hér en öðrum ekki. Og margir vildu einkavæða íslensku bankana en aðrir ekki, eins og gengur.

Fisveiðistjórnunarkerfið verður lagað og sjálfum finnst mér að nauðsynlegt hafi verið að einkavæða bankana. Þeir eiga ekki að vera í eigu ríkisins, að mínu mati. En það hefði alveg mátt standa öðruvísi að einkavæðingunni hér og það á nú við um fleiri lönd.

Hins vegar eru meiri möguleikar fyrir almenning að gera eitthvað í málunum núna en fyrir tveimur áratugum. Framkvæmdavald og dómsvald voru aðskilin hér árið 1992 og Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hérlendis árið 1994.

Þorsteinn Briem, 23.9.2008 kl. 16:47

13 Smámynd: Pétur Kristinsson

Enn er verk óunnið og þá í landbúnaðargeiranum. Það er ekki eðlileg paranoja sem er gagnvart innflutningi á vörum sem eru ekki fáanlegar hér og gagnvart vörum sem mögulega gætu orðið til þess að lækka hér vöruverð með samkeppni við þær vörur sem hér eru fyrir á uppsprengdu verði.

Og það má líka gefa bændum meira vald til þess að markaðsetja sig á þann hátt sem Andri Snær talar um í Draumalandinu, snilldarhugmynd, en það þarf hugarfarsbreytingu til þess að það geti gerst.

Pétur Kristinsson, 23.9.2008 kl. 16:48

14 Smámynd: Villi Asgeirsson

Steini, ég er ekki að fordæma einkavæðingu, heldur hvernig var staðið að henni. Eins og þú greinilega skildir. Einkavæðing er fín. Einkavinavæðing er það ekki.

Villi Asgeirsson, 23.9.2008 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband