Svipað og 1919-39?

Stundum er eins og dýrkeyptasta reynsla dugi ekki til að menn læri af henni. Í Versalasamningunum eftir fyrri heimsstyrjöldina voru ráðamenn Frakka og Breta sjóðandi illir út af hegðun Þjóðverja í styrjöldinni og settu á þá óuppfyllanlegar kvaðir sem urðu einhver mestu mistök veraldarsögunnar og leiddu af sér aðra heimsstyrjöld sem var í raun aðeins framhald af þeirri fyrri.

Afleiðingin varð jarðvegur í Þýskalandi fyrir gremju sem braust út í fylgi við Hitler og flokk hans, verstu villimennsku síðari tíma.

Eftir seinni heimstyrjöldina var eyðileggingin mest í Þýskalandi og því auðveldara fyrir hina skynsamari meðal Bandamanna að nýta sér reynsluna af fyrri mistökum og láta gríðarlega erfiða uppbyggingu í Þýskalandi nægja sem refsingu.

Meira að segja hjálpuðu Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar Þjóðverjum til að ná styrkleika og geta á þann hátt orðið að meira liði við almenna uppbyggingu eftir styrjöldina en verið hefði ef þeir hefðu verið beittir refsingum sem þeir gátu engan veginn risið undir. 

Nú er eins og breskir ráðamenn hafi ekkert lært af þessu. Þeir láta ógætileg ummæli íslenskra ráðamanna reita sig til reiði og grípa til fáránlegra refsiaðgerða. Eftir fyrri heimsstyrjöldina ollu vandræði Þjóðverja öllum nágrannaþjóðunum vandræðum. Þeir gátu ekki greitt skaðabæturnar og á endanum töpuðu allir. 

Nú gerist það sama þótt í minna mæli sé, enda Íslendingar smáþjóð. Bresku ráðamennirnir verða fyrir því sama og við Íslendingar þegar ballið byrjaði hér heima þegar Glitnir var tekinn: Með því að hella olíu á hinn íslenskættaða banka í Bretlandi veiktu bresku ráðamennirnir aðra banka og eigið fjármálakerfi og kveiktu elda sem ekki sér fyrir endann á hvort eða hvenær verði slökktir. 

Ef Bretar ætla að fara fram gegn Íslendingum af sama óraunsæi og hörku og þeir gerðu gegn Þjóðverjum 1919 verður það mikið glapræði og mun bitna á Bretum jafnt sem öðrum. Breskir "óreiðumenn" áttu ekki minni þátt í því sem gerðist í tengslum við hina íslensku fjármálastarfsemi í Bretlandi en Íslendingarnir og því engin hæfa í því að ætlast sé til að þeir fái betri kjör en aðrir sem áttu hlut af þessum málum.

Ef Bretar ætla að ná ósanngjörnum kröfum fram í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn verður að standa gegn því, ekki aðeins vegna Íslendinga heldur Breta sjálfra. Ég hef oft sagt að mesta gæfi Íslendinga á fyrri öldum hafi verið að úr því að landið varð að vera nýlenda einhverrar annarrar þjóðir skyldu það vera Danir en ekki Bretar sem voru (að miklu leyti til málamynda) við völd hér.

Það verður að vona að þessi vinaþjóð, sem við skulum enn skilgreina sem slíka, grípi ekki til óraunhæfra aðgerða frekar en orðið er.  

 


mbl.is Breskir bankar yfirteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við ráðum við þetta, Ómar, sannaðu til. En þá verður líka að hætta allri bullsóun í ríkisrekstrinum (félagsmálafemínistavitleysu ýmissi og vinavæðingar- og kosningabeitufjárveitingum) og hækka skatta, þ.e.a.s. mikið eða allmikið skortir á, að eignir Landsbankans Icesave dugi fyrir endurgreiðsluábyrgð ríkissjóðs okkar til Icesave-reikningshafa.

Jón Valur Jensson, 13.10.2008 kl. 01:37

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

... þ.e.a.s. EF mikið eða allmikið skortir á .... átti að standa þarna.

Jón Valur Jensson, 13.10.2008 kl. 01:39

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Góð grein Ómar.

Í hvorn endann ætli JVJ vilji hækka skatta, þann efri eða neðri? Sumir eru þannig "af Guði sínum" gerðir að sjá alltaf ofsjónum yfir fjárútlátum ríkisins til málaflokka sem þeir sjálfir hafa ekki aðgang að.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.10.2008 kl. 09:06

4 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ég efast samt um að Jón Valur vilji skera niður 5,3 milljarða sem Ríkiskirkjan fær, þótt honum finnist félagsmálafemínistaeitthvað mega missa sín.

Það er nú lítil hætta á að Íslendingar fari í sömu för og Þjóðverjar 1933 -- en hins vegar er hið fornkveðna, að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Kannski að Bretar hafi verið að berja í veikasta hlekkinn í sinni eigin líflínu.

Vésteinn Valgarðsson, 13.10.2008 kl. 10:09

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bandamenn áttu að hernema Þýskaland eftir Fyrri heimsstyrjöldina, eins og þeir gerðu eftir þá seinni, í staðinn fyrir að lofa Þjóðverjum að byggja upp mun stærri og öflugri her en þeir máttu samkvæmt Versalasamningnum:

http://en.wikipedia.org/wiki/Treaty_of_Versailles

Bretar og Bandaríkjamenn eru EKKI vinir okkar Íslendinga. Bretar og Bandaríkjamenn eru hins vegar vinaþjóðir, eins og sjá má til dæmis á Íraksstríðinu, sem er fjármagnað af Kínverjum en þeir eru stærstu lánveitendur Bandaríkjamanna. Og þeir réðust inn í Írak með stuðningi Íslendinga til að leggja undir sig olíuauðlindir Íraka.

Bandaríkjamenn yfirgáfu hins vegar herstöð þeirra hér skömmu síðar, þrátt fyrir þrábeiðni Íslendinga að vera hér áfram. Bandaríkjamenn voru því hér allan tímann í eigin þágu en ekki okkar Íslendinga. Það er EKKI vinátta!

Og Bretar hernámu Ísland í Seinni heimsstyrjöldinni í eigin þágu en ekki til að gera Íslendingum greiða. Og fjöldi íslenskra sjómanna lét lífið við fiskútflutning til Bretlands í Seinni heimsstyrjöldinni, þegar Bretar þurftu sárlega á erlendum matvælum að halda. Og hverjar voru þakkirnar? Jú, að fara í hverja styrjöldina á fætur annarri á hendur einni minnstu þjóð í Evrópu! Það er EKKI vinátta!

Rússar veittu hins vegar nýlega heiðursmerki íslenskum sjómönnum, sem sigldu með hergögn til Múrmansk í Seinni heimsstyrjöldinni.

Þorsteinn Briem, 13.10.2008 kl. 12:01

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Týpískt fyrir ykkur að fara út um holt og móa. Nenni ekki að leiðrétta allar staðreyndavillurnar, svo sem hjá Steina; hef nóg að gera á vefsvæðum mínum að skrifa um ástandið.

Jón Valur Jensson, 13.10.2008 kl. 13:41

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allt skjalfest, Jón minn Valur.

Þorsteinn Briem, 13.10.2008 kl. 13:53

8 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Mig minnir að JVJ hafi kallað svona svör (nr.6) rökþrot eða eitthvað í þá áttina, en auðvitað á það ekki við hér.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.10.2008 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband