"Ísland hefur komist á kortið".

"Ísland hefur komist á kortið" sagði utanríkisráðherra um kjörið í Öryggisráðið sem fór eins og ég hafði spáð, að þar réði lögmálið að stjórnmál snúast um traust. Ég skildi aldrei óraunhæfa bjartsýni ráðherranna nú síðustu dagana um þetta kjör.

Því miður komst Ísland ekki á kortið fyrir mikla verðleika eins og til hafði staðið heldur vegna  hins  sama og  þegar frambjóðendur verða fyrir því að leitað er að veikleikum þeirra fyrir kosningar. Það þurfti raunar ekki að leita að þeim, - við sáum sjálf fyrir því að útvega fréttir af þeim. 

Kannski komst Ísland á jákvæðan hátt á kortið alveg fram undir síðustu vikur, en kjörið til Öryggisráðsins varð hins vegar til þess að leiða aukna athygli að veikleikum okkar og gera meira en eyðileggja þá jákvæðu ímynd okkar  sem reynt hafði verið að byggja upp með ærnum tilkostnaði. Var þó vart á illt umtal bætandi þessa ömurlegu daga þegar við höfum að endemum "komist á kortið" um víða veröld.  


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjaldan heyrt manneskju seinheppnari í ummælum: "Island komið á kortið." Já, svo sannarlega en tilefnið hefðu allir Íslendingar viljað vera lausir við!!!

gajus (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 21:25

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég segi bara, ekki er allt svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott.

Það er fínt að vera ekki í öryggisráðinu. 

Ásgrímur Hartmannsson, 18.10.2008 kl. 00:01

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Íslenskir öfga-náttúruverndarsinnar hafa verið duglegir við að "reyna" að koma okkur á kortið erlendis í nokkur ár.

En talandi um náttúruvernd.... það er lengi von á einum  sjá HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.10.2008 kl. 00:24

4 identicon

Jú, gajus. Utanríkisráðherrann okkar á líka setninguna: "Nú opna ég bara mitt Pandórubox."

Elín (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 05:17

5 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Áttum við nokkurntíman raunhæfan möguleika á kjöri?  .......ég held ekki.  Held þetta hafi bara verið enn ein stórmennskan í útrásinni.

Gylfi Björgvinsson, 18.10.2008 kl. 11:02

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslandshreyfingin hefur sem sagt ákveðið að hætta að bjóða sig fram í kosningum hér, þar sem flokkurinn sé svo lítill að framboðið sé fáránlegt og alltof kostnaðarsamt per haus í flokknum.

Í fyrsta lagi var þetta framboð til Öryggisráðsins ákveðið haustið 2003, af ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar. Um helmingur allra þjóða í veröldinni kaus þetta sameiginlega framboð Norðurlandanna en af sjálfsögðu stukku margir af vagninum þegar Íslendingar fengu á sig hryðjuverkalöggjöf í Bretlandi nú í haust.

Ísland hlaut 87 atkvæði í þessum kosningum en um 140 ríki höfðu áður lýst því yfir að þau myndu styðja framboðið. Og samkvæmt því féllu 53 ríki frá stuðningi sínum við það.

Kostnaðurinn við framboðið var samtals um 380 milljónir króna á þessum fimm árum, eitt einbýlishús á ári. Hafi þjóð ekki efni á því hefur hún ekki efni á að láta kalla sig þjóð á meðal þjóða.

Þorsteinn Briem, 18.10.2008 kl. 12:54

7 Smámynd: Pétur Hans R Sigurðsson

Ég held að það hafi verið samantekin ráð Ýmsa landa (ESB?) að tryggja að við næðum ekki kosningu

Pétur Hans R Sigurðsson, 18.10.2008 kl. 14:38

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Pétur. Við höfum alla vega fengið atkvæði Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Þessi lönd eru öll í Evrópusambandinu, fyrir utan Noreg, sem er þó, eins og Ísland, á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þorsteinn Briem, 18.10.2008 kl. 15:32

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í Alþingiskosningum eru tæplega 1,6% atkvæða á bak við hvern þingmanna. Allir flokkar fengu útlhutað þingsætum í samræmi við þetta nema Íslandshreyfingin, sem var varnað þess að fá tvo þingmenn út á 3,3% atkvæða vegna fáránlega hás þröskuldar, hins langhæsta í Evrópu nema í Tyrklandi og Þýskalandi þar sem menn óttast nýnasista og herskáa öfgamúslima. 

Þröskuldurinn í Rússlandi er táknrænn fyrir ofurveldi Pútíns og hinnar nýríku klíku hans.

Alla kosningabaráttuna var beitt hörðum hræðsluáróðri á grundvelli þessa háa þröskuldar.

Að undanförnu hefur Frjálslyndi flokkurinn mælst innan við 5%. Finnst mönnum sanngjarnt að flokknum sé neitað um þingmenn í samræmi við fylgi ef hann fellur kannski rétt niður fyrir þessa prósentu?

Ómar Ragnarsson, 18.10.2008 kl. 21:10

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landið á að sjálfsögðu að vera eitt kjördæmi. Og engin ástæða til að vera með 63 þingmenn. Mun eðlilegra að þeir væru til dæmis 50 talsins í því örríki sem Ísland er. Og þar sem þjóðin er að fitna er ekki lengur pláss fyrir 63 þingmenn í þingsalnum.

Ég bý í Reykjavíkurkjördæmi suður og ef ég flyt nokkrar húslengdir í norður bý ég í Reykjavíkurkjördæmi norður en ef ég flyt á hinn bóginn nokkrar húslengdir í vesturátt bý ég simmsalabimm í Suðvesturkjördæmi með allt aðra hagsmuni, hlýtur að vera.

Þorsteinn Briem, 18.10.2008 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband