Undirliggjandi vantraust?

Þegar okkur gremst hvernig hjálp við okkur dregst er okkur hollt að íhuga hvort eitthvað meira búi að baki, - eitthvað annað en skepnuskapur Breta. Ég verð var hins sama þegar ég tala við vini mína erlendis og ég varð fyrir í Bandaríkjunum þegar viðtalinu fræga með upphrópuninni "Við borgum ekki! " var margspiluð í sjónvarpsfréttum.

Þótt erlendir stjórnmálamenn orði það ekki opinberlega virðist ríkjandi viðhorf annarra útlendinga að vafasamt sé að hjálpa þessum vitleysingum sem hlaupast undan ábyrgð á eigin klúðri og ætla sér til dæmis að mismuna innlánseigendum eftir þjóðerni. Enn skrýtnara finnst mörgum að enginn Íslendingur skuli ætla að axla ábyrgð á hinu augljósa klúðri sem byggðist á óraunsæi og oflátungshætti, - það sé enn ein sönnun þess að ekki sé hægt að skipta við þetta fólk þarna norður í höfum.

Vinur minn í Frakklandi sagði mér til dæmis að þar í landi hefði verið áberandi umfjöllun um íslensku peningablöðruna síðastliðið vor með spá um óumflýjanlegan endi fjármálafyllerísins án þess að það virtist hafa ratað heim til landans. Þess vegna nytu Íslendingar ekki trausts í Frakklandi þegar afleiðingar hroka og kæruleysis kæmu í ljós.

Til eru þeir hér heima sem segja að við eigum að gefa skít í þessar þjóðir sem koma svona fram við okkur og slá skjaldborg um eyjuna okkar. Í mesta lagi að leita til kanans á ný eins og við gerðum í kalda stríðinu. Eða jafnvel bjóða Rússum flotahöfn hér.

Svona lagað finnst mér lykta af miklu óraunsæi þess sem streitist gegn því að horfaast í augu við stöðu sína og taka sig á. Við gátum haldið Bandaríkjamönnum góðum með herstöðinni í kalda stríðinu en nú er ólíklegt að Obama muni draga herlið sitt út úr Írak til að senda það til Íslands.

Hvenær ætlar mönnum að skiljast að kalda stríðinu lauk 1989? Hugmyndin um að bjóða Rússa velkomna er síðan auðvitað óðs manns æði eða í besta falli brandari. Við verðum að meta stöðu okkar og málstað af raunsæi og leita sanngjarnrar lausnar á deilum við aðrar þjóðir.

Sú sanngirni verður að sjálfsögðu að ríkja á báða bóga.

Mér hugnast ekki að hverfa aftur til áranna 1948-60 með skorti sinum, biðröðum og hafta- og spillingarkerfi sem kostaði okkur griðarlega fjármuni. Slíkt mun einfaldlega kosta enn meiri fólksflótta frá landinu en ella yrði.


mbl.is Finnar vilja meiri upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

En Ómar, það er engin önnur leið fær til að endurlífga kolkrabbann...

Sigurður Ingi Jónsson, 11.11.2008 kl. 16:29

2 Smámynd: Dunni

Bæði norsk og dönsk blöð voru farin að fjalla um bankasápukúluna á Íslandi fyrir tveimur árum.  Hér skildu menn ekki hvernig íslensk fyrirtæki gátu fjárfest fyrir tvöföld íslesnku fjárlögin einu sinni og jafnvel tvisvar á ári. Þetta kom alla vega ekki heim og saman við norska ráðdeildarsemi.

Dunni, 11.11.2008 kl. 18:57

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mig langar tl að bæta því við að Skoda-verksmiðjurnar tékknesku nutu mikillar virðingar og trausts fyrir stríð. Einn helsti ávinningurinn þegar Hitler rændi Tékkóslóvakíu 15. mars 1940 var sá að hann fékk á silfurfati hina viðurkenndu Skoda skriðdreka sem hann notaði síðan við innrásina í Frakkland vorið 1940.

Meðan verksmiðjurnar framleiddu gömlu gerðirnar eftir stríð héldu þær sæmilega velli um sinn þrátt fyrir að vera þjóðnýttar.

En þegar kommúnisminn fór að sýkja allt þjóðfélagið hrakaði gæðum og framleiðslu þessara fyrrum virtu verksmiðja og stolts tékknesks iðnaðar.

Eftir 1960 voru Skoda-bílar "international joke" eins og ein bílahandbókin mín kallar það.

Þegar Volkswagen verksmiðjurnar eignuðust Skoda í lok kalda stríðsins var reynt að lappa upp á Skoda Felicia með 534 breytingum til bóta, en verksmiðjurnar urðu þó ekki gjaldgengar fyrr en alger umbylting átti sér stað með nýjum bílum.

Síðustu árin hefur Skoda komist upp fyrir Volkswagen í gæðum og einnig í verði. En það þurfti algera umbyltingu til með aðstoð utan frá, rétt eins og hjá áfengissjúklingunum.

Nú erum við Íslendingar "international joke". Endurreisn Skoda gæti verið okkur lærdómur.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 20:59

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Nauðgun Tékkóslóvakíu" var 15. mars 1939, ekki 1940. Afsakið innsláttarvilluna.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 21:01

5 Smámynd: Liberal

Spekingar landsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að hér sé bara Sjálfstæðisflokknum (og Davíð) auk ca 10 útrásarvíkinga um að kenna. Allir aðrir eru saklausir. Fórnarlömb. Fólkið sem keypti jeppana, tjaldvagninn, nýja eldhúsið, og sumarhúsið (og svo auðvitað skíðaferðirnar) eru bara sárasaklaus fórnarlömb óprúttinna bankamanna sem plötuðu lán inn á fólk. Og svo þegar menn vilja láta fólk borga lánin til baka þá verður allt vitlaust.

Og bara Íslendingar myndu láta sér detta í hug að leysa málið með því að taka af þeim sem ekki skulda (þeirra sem eiga sparnað) til að borga reikninga þeirra sem skulda. Þ.e.a.s. fella niður verðtrygginguna í einni svipan.

Það eru engar góðar lausnir í stöðunni. Engin patentlausn sem hin ráðlausa ríkisstjórn virðist vera að leita að. Það eru bara vondir kostir í boði. Það er bara spurning hvort við eigum að láta þá sem tóku áhættuna bera skaðann, eða hvort við ætlum að fría þá ábyrgð. Það eru ekki bara einhverjir milljarðamæringar sem bera ábyrgð, það eru tugir þúsunda landsmanna sem lifað hafa um efni fram. Búa í húsi sem þeir ekki hafa efni á, eiga 2 bíla og ráða ekki við afborganir, hafa farið í sumarfrí til framandi staða á Visa rað. Þetta fólk ræður ekki við að borga af allri sinni neyslu, en telur sig eiga rétt á aðstoð hins opinbera. Alveg glórulaust um eigin vangetu í fjármálum og í harðri afneitun.

Það þarf að kenna Íslendingum auðmýkt, það er rétt hjá þér. En það þarf að kenna okkur að fara með peninga líka. Við kunnum það ekki. Og nú þegar við erum blönk og fáum ekki lán, þá þýðir ekkert að kenna öðrum um, við verðum að axla ábyrgð á eigin lífi.

Það er ekki þar með sagt að stjórnvöld séu stikkfrí eða eigi ekki að gera neitt. Þau eiga að sýna okkur stefnuna (inn í ESB eða ekki, króna eða ekki) og umfram allt að vernda þá sem eru í raunverulegri hættu (sem eru miklu færri en fólk grunar, flestir eru blankir, ekki fátækir) OG þá sem hafa verið skynsamir og kunna með peninga að fara. Þeir sem eru blankir en vilja ekki horfast í augu við það eiga að læra sína lexíu.

Fólk sem ræður ekki við afborganir, en er í stóru húsi, með 2 bíla, hefur tapað á hlutabréfum, fór í sólarlandaferð í sumar, og er með tjaldvagn í innkeyrslunni er ekki fátækt. Það getur verið blankt. Það þarf að temja sér breyttan lífstíl og lifa á þeim tekjum sem það hefur. Það er erfitt og ekki sérlega skemmtilegt, en skynsamlegt til lengri tíma. Þjóðin á ekki að sameinast um svona fólk og bjarga því. Það er mín skoðun.

Og svo ættum við sem þjóð að hætta að vorkenna okkur sjálfum svona óskaplega mikið. Við vælum og vælum og uppnefnum mann og annan. Höfum gert það í 6 vikur tæpar. Hvernig væri að hysja upp um sig buxurnar og hugsa jákvætt? Vera uppbyggileg og jákvæð?

Liberal, 11.11.2008 kl. 21:33

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ómar kíktu á það sem ég segi um Icesave á blogginu mínu.

Annars held ég að það þurfi að stokka ærlega upp hér til þess að við endurheimtum traust erlendra aðila.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 11.11.2008 kl. 22:23

7 Smámynd: Gerður Pálma

Heyr, heyr... snúum við lambhúshettunni, gatið á að vera að framan..

Það er ofgnótt af öllu í landinu af öllu, setjum á okkur kaupbann og gerum ´skort´að spennandi  áskorun að endurvekja traust og virðingu, sjálfsvirðingu ekki hvað síst.  Ísland bíður upp á óteljandi tækifæri, nú er að miðla þeim til geranda sem ekki sjá hvað er til ráða. Landið er ein stór gullnáma, nú er að virkja þá námu og fleyta okkur yfir í farsæld. Það krefst harðar vinnu en ekki töfrabragða.  Við erum ábyrg fyrir ástandinu, hvorutveggja með eigin neyslu sem og að leyfa okkur að kjósa óábyrgt fólk til stjórnarstarfa árum saman.  Ísland er einungis lítið fyrirtæki á heimsvísu, oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, það er með ólíkindum hversu mikinn usla okkur hefur tekist að valda um heim allan. Ástandið í dag skapaðist ekki á nokkrum dögum, það er afleiðing stjórnarstefnu fjölda ára, metnaðarlaus stefna byggða á valdagræðgi og eigingirni, við erum þar sem stefnan var sett á.  Áfram með okkur.. upp úr holunum, Ómar hefur vakið fólk til umhugsunar og ástar á landinu, þökk sé þér Ómar. Hann hefur flytur fjöll, við eigum að geta flutt nokkrar þúfur, hættum þessu voli tökum höndum saman focusum á sameiginleg markmið, sem við setjum hátt, skipum liði og skjótum í mark.  Endurheimtum stoltið.

Gerður Pálma, 11.11.2008 kl. 22:26

8 identicon

Útlán bankanna skiptust í grófum dráttum þannig í árslok 2007:

- 59% til erlendra aðila (fyrirtæki íslendinga erlendis, kennd við "útrásina")

- 32% til íslenskra aðila (ísl. fyrirtæki, sveitafélög o.fl.)(stór hluti vegna "útrásarinnar"?)

- 9% til heimilanna (íbúðarlán og (of)neyslulán)

Lánin til heimilanna skiptast ca 60/40 milli íbúðarlána/neyslulána. Neyslulánin voru því um 3,6% af heildarútlánum bankanna. Sumir (Liberal?) trúa að þessi 3,6% séu orsök hremminganna.

Útlán til "erlendra aðila" jukust um 143%(!!) á árinu 2007 án þess að yfirvöld og eftirlitsstofnanir banka- og fjármála rumskuðu.

sigurvin (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 22:31

9 identicon

http://www.tonlist.is/Music/Album/204397/ymsir/birta_-_stydjum_hvert_annad/

Þetta kemur vel út á tonlist.is - settu þennan link hér að ofan á bloggið þitt :) 

Lára (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 22:39

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hver ætti að líta í eigin barm en megin niðurstaða mín er þessi:

Rússar voru ekki vont fólk heldur var það hið ranga kerfi kommúnismans sem skóp alræðið og óréttlætið af því að það tók ekki mannlegt eðli með í reikninginn.

Bandaríkjamenn eru ekki vont fólk heldur er það hið ranga kerfi alræðismarkaðshyggjunnar sem skóp hrun hennar vegna þess að það tók ekki mannlegt eðli með í reikninginn.

Þeir sem keyptu sumarhús, hjólhýsi, ofurjeppa og bruðlferðir voru ekki vont fólk heldur brást það við á fyrirsjáanlegan hátt þegar ráðamenn og fjárglæframenn með Seðlabankann í broddi fylkingar bauð því upp á með alltof háu gengi krónunnar að kaupa varning erlendis frá með 30-40% afslætti.

Þess vegna tel ég ábyrgðina fyrst og fremst liggja hjá þeim sem höfðu forystu í að byggja þetta ranga fyrirkomulag upp. Á hinn bóginn ættu þær tugþúsundir sem létu glepjast að viðurkenna glöp sín og byggja upp nýja hugsun og nýtt gildismat.

Slíkt er nauðsynlegt til að bæta úr því ranglæti sem aðrar tugþúsundir Íslendinga voru beittar með því að steypa þeim í örbirgð og atvinnuleysi.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2008 kl. 23:59

11 Smámynd: Beturvitringur

ÉG MINNKA NIÐUR Í 1/300.000, reyni að horfa frá sjónarhorni LÁNVEITENDA, nú eða dný við/ÍSLENDINGAR BEÐNIR AÐ LÁNA samfélagi með ALLT NIÐUR UM SIG sé ég EKKERT ATHUGAVERT við að vilja fá skýra framkvæmdaáætlun.

Einn lánardrottinn (ekki margar þjóðir) hjálpar einum skuldara (ekki heilli þjóð):

Vildi ég lána fjárhagslega illa stöddum náunga, sem með kostnaðarsömum lífsstíl og háum standard væri að fara á hausinn, þýddi ekki nokkurn skapaðan hluta að lána honum skilyrðislaust. Það færi bara í hítina og hann yrði blankur strax aftur.  Hann þarf að breyta um lifnaðarhætti OG/EÐA FÁ EINHVERN FYRIR SIG SEM BETRI ER Í FJÁRMÁLASTÚSSI ( og taka af honum kortin)

Þjóðin okkar er í annarra þjóða augum óreiðufólk sem kann ekkert á peninga og því vilja þær kannski ekki lána okkur nema að fá að vita hvernig eigi að verja fénu.

Mér finnst það fullkomlega sanngjarnt!

Mér líkaði skrif "Liberal" og get samþykkt þau í flestu ef ekki öllu

Beturvitringur, 12.11.2008 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband