Skoda-leiðin fyrir Íslendinga ?

Ég hef að undanförnu verið að reyna að túlka þá upplifun sem ég varð fyrir í Bandaríkjunum daginn eftir viðtalið fræga við Davíð Oddsson, þar sem setningarnar um að við borguðum ekki voru spilaðar aftur og aftur á sjónvarpsstöðvum í heilan dag. Því miður var það það eina sem fólk mundi eftir þar vestra um okkur og okkar mál.

Daginn eftir þegar fólk spurði mig hvaða merki ég væri með á húfunni minni og ég sagði að það væri hið gamla merki Flugmálastjórnar Íslands með vængjum, íslenska fánanum og landvættunum fékk ég framan í mig: "Já, þú ert einn af þrjótunum sem borgar ekki."

Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að sú stund rynni upp að ég þyrfti að skammast mín á erlendri grund fyrir að vera íslendingur.

Í sambandi mínu við Íslendinga erlendis greina þeir mér frá því að í augum þarlendra séu við fjármálafyllibyttur og óreiðufólk sem ofan á allt séum í afneitun eftir að hafa ekki aðeins rústað öllu á eigin heimili heldur líka í nærliggjandi húsum. Og enginn Íslendingur ætli að axla ábyrgð, sömu mennirnir og klúðruðu öllu heimtuðu að fá peninga til að halda fylleríinu áfram.

Ofan á allt ætlum við að mismuna innistæðueigedum eftir þjóðerni. Þessi mynd, sem dregin er upp af okkur erlendis er nöturleg og framkoma Breta er að sönnu níðingsleg hvað snertir notkun hryðjuverkalaganna.

En jafnvel þótt Bretar hefðu ekki beitt þeim erum við með rústað mannorð erlendis. Í Frakklandi sagði mér Íslendingur, sem þar býr, að þar hefði verið áberandi fréttaflutningur síðastliðið vor um það hvert stefndi hjá Íslendingum en ekki væri að sjá að fjallað hefði verið um slíkt heima.

Hvað þýðir þetta? Jú, svo er að heyra á mörgum að hugsanlega ættum við að leita á náðir Rússa, Kínverja eða Indverja og gefa skít í vestrænar þjóðir og heiður okkar, sóma og viðskiptavild í hinum vestræna heimi.

Með svona tali virkum við á nágrannaþjóðirnar eins og alþjóðlegur róni sem treystir á það að einhver gefi honum fyrir næstu bokku.

Okkur kann að finnast ýmislegt ósanngjarnt varðandi þessa ímynd okkar erlendis en þetta er blákaldur veruleikinn.

Ég vil benda fólki á að lesa merkilega grein Þorvaldar Gylfasonar um stærð Icesafe-málsins í Fréttablaðinu um daginn þar sem hann greinir stærð Icesafe skuldanna miðað við hliðstæðar byrða annarra þjóða á okkar tímum, en ekki við hliðstæðu fyrir 90 árum við allt aðrar aðstæður.

Á árunum 1960-95 voru Skoda-verksmiðjurnar "international joke" eins og það er orðað í einni af bílabókum mínum. Kommúnistar höfðu gereyðilegt gamlan orðstír þessa fyrrum þjóðarstolts Tékka.

Þá gerðist það sama og þegar alkinn fer í meðferð. Erlendum aðilum var falið að hjálpa verksmiðjunum til endurreisnar á áratug. Nýir menn tóku við og í nokkur ár var reynt að bæta framleiðsluna (538 breytingar á Skoda Feliciia) meðan reistar voru alveg nýjar verksmiðjur með nýjum kröfum.

Tíu árum siðar var Skodinn kominnn fram úr móðurverksmiðjunnni Volkswagen að gæðum og heiður og sómi Tékklands endurreistur.

Ég bið fólk um að skoða Skoda-leiðina. Hún krefst algers endurmats og brottkasti þess sem olli skaðanum, utanaðkomandi hjálpar og samstillts átaks. Það var erfitt fyrir Tékka en það var eina raunhæfa lausnin og slík lausn þarf ekki að taka nema nokkur ár..


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ómar, afhverju hafið þið í umhverfishreyfingunni ekki komið fram með hugmyndir af rafmagnsbílaframleiðslu hér á landi. Ég kom aðeins inn á þetta á bloggi mínu og er þér velkomið að kíkja á það.

Það er einhverjir 100.000 rafmagnsbílar í heiminum í dag og fer ört vaxandi. Ég er þess fullviss að þó ekki tækist að selja nema 10.000 bíla hér á landi þá yrði þessi íslenski bílaframleiðandi strax orðinn leiðandi í þessum iðnaði því núverandi framleiðendur þessara bíla einna helst í Frakklandi og Noregi eru kannski að framleiða 2000 bíla á ári. Það eru margir litlir framleiðendur í þessum bransa og því væri íslenska fyrirtækið ekki að takast á við einhvern risa eins og volkswagen. 

Tek fram að ég er ekki búinn að kynna mér þetta algjörlega en mér finnst að Össur, iðnaðarráðherra beri að kanna þennan möguleika mjög ítarlega. 

Jón Gunnar Bjarkan, 13.11.2008 kl. 10:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er góð hugmynd. Í Kalifornú tóku tíu menn sig saman og hafa framleitt þennan fína rafmagnsbíl sem hefur hlotið heimsathygli. Málið er að vísu ekki svo einfalt að bíllinn sé kominn á framleiðslustig en sýnir samt að ýmislegt er hægt.

Norðmenn framleiða rafmagnsbíl en hann er ekki eins magnaður og þessi í Kaliforníu og þeir eru ekki komnir neitt áleiðis að gagni ennþá.

Ómar Ragnarsson, 13.11.2008 kl. 10:35

3 Smámynd: Ragnar Borgþórs

Sæll Ómar, ég er leiður yfir því að þú skammist þín fyrir að vera íslendingur á erlendri grund.  Ég vona að orðhákur eins og þú hafir þá bent þessum gagnrýnendum á að á íslandi eru fleiri fleiri fjölskyldur að verða gjaldþrota og atvinnuleysi rjúki upp hér vegna hruns bankanna, fólk sem hafði ekkert með þetta að gera.  Hafir síðan gamminn geysa og bennt fólki á að það voru fáeinnir útvaldir sem fengu að sölsa undir sig fjöreggi þjóðarinnar átölu laust.

Nú er spurning hvað flokkur þinn hefur fram að færa til lausnar þjóðinni og henni til  heilla.  Orð þín um Skoda upprisuna eru hverju orði sannara.

Ragnar Borgþórs, 13.11.2008 kl. 10:50

4 Smámynd: Ragnar Borgþórs

Bjarne, forsetinn á að verapólitískur.  Það óttuðust margir að hann gæti ekki setið á sér og það hefur komið á daginn að það að sá ótti var á rökum reistur.

Gaman hefði verið ef Sigmar í Kastljósi hefði spurt hann útí "fjölmiðlalögin" þar sem stór hluti fjölmiðla er kominn á fárra hendur.  Klappstýra auðmanna þarf að draga sig til hlés.

Ragnar Borgþórs, 13.11.2008 kl. 11:09

5 Smámynd: Ragnar Borgþórs

Sorry þetta átti að vera: forsetinn á að vera  ó pólitískur, dæmi um hvað einn stafur getur breytt merkingu.

Ragnar Borgþórs, 13.11.2008 kl. 11:15

6 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Er ekki frekar að kenna útrásar liðinu um og ráðamönnum í bönkunum um að mannorð íslendinga er farið fyrir bí, og grasrótin stóð með þeim í þessu,Ég held að Davíð Oddson hafi marg oft varað við hversu mikil áhætta væri að skuldsetja Þjóðina um efni fram,hann reyndi að setja lög um fjölmiðla við vitum hvernig það fór og grasrótin stóð með fjárglæframönnunum. Ég held að allt hefði farið á sömulund ef átt hefði að setja lög um út rásina foseti vor hefði neitað að skrifa undir.

Ragnar Gunnlaugsson, 13.11.2008 kl. 11:50

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég uppgötvaði sárlega skrælingjahátt íslendinga, níu ára gamall, þegar ég uppfullur af þjóðrembu var að lesa ævisögu glímukappans Jóhannesar á Borg. Hann fór ungur út í heim til að bera orðstír íslendinga og varð næstur á eftir Houdini af frægð. Þegar hann kom heim með fúlgur fjár til að eyða í þágu Íslands mætti honum öfund, úrtölur, lygi og rógur.

Stuttu seinna fékk ég ágæta skýringu við lestur Alþýðubókarinnar.

Nú ætlum við að aflokinni aftanítöku ESB að flytja inn til ESB. Svona fólk er ekki í húsum hæft.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 13.11.2008 kl. 12:00

8 identicon

Blessaður aftur Ómar.

Svona ári eftir kosningar var fjölmiðlafólk að gera grín að því að fylgi Íslandshreyfingarinnar hefði ekki mælst hjá Gallup.  Ég veit að þetta er ekki rétt því ég svaraði í þessarri könnun og ég gaf upp stuðning við þig.  Núna skammast ég mín fyrir það og ég skammast mín fyrir að hafa kosið þig í síðustu kosningum.  Maður kýs ekki fólk sem skammast sín fyrir að vera Íslendingur.  Pabbi minn og tengdapabbi eru grandvarir heiðarlegir menn sem hafa alltaf staðið við sína samninga.  Ég veit ekki til þess að það hafi breyst.  Jafnvel þó að þú hafir lesið það í útlöndum. 

Þú, sem náðir þvi að vera blaðamaður þorskastríðunu, ættir  manna best að vita að ekki er allt rétt sem þú lest í útlöndum.  Það er mikill munur á Íslensku fyrirtæki í eigu þjóðarinnar og Íslensku fyrirtæki í eigu einkaaðila.  Þekkir þú ekki muninn á skuldbindingum einkaaðila og skuldbindingum þjóðarinnar þá átt þú ekkert erindi í stjórnmál.  Það er mjög sorglegt því að menn eins og þú eiga að gegna forystuhlutverki í endurreisninni.  Og ekki afsaka þig með EES samningnum.  Röflarar útí bæ geta notað það þegar þeir vilja níða niður pabba minn og tengdapabba en þú ert forystumaður stjórnmálaflokks.  Segðu mér að þú hafir aldrei hitt gjaldþrota einstakling.  Sagðir þú honum að skammast sín??  Að geta ekki borgað skuldir sínar þegar maður fer á hausinn er ekki glæpur en það er glæpur að segjast ætla að borga skuldir annarra sem maður getur ekki borgað.  

Og mundu það að lokum Ómar að fleiri hafa farið á hausinn en við í þessum gjörningsbyl og það er ekki séð fyrir endan á því fárviðri.  Ég veit ekki til þess að ríkisstjórnir annarra landa taki það að sér að greiða skuldir einstaklinga.  Veistu afhverju??  Þær geta það ekki.  Það má vel vera að umtal um Íslendinga sé slæmt nú um stundir en það afsakar ekki þín orð og mundu það að Evrópa þarf líka að gera upp sinn græðgiskapítalisma.  Þá munu stærri skuldir falla en þær Íslensku.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 13:21

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kæri nafni. Þessi athugasemd mín kallar sennilega á annan bloggpistil til að útskýra það sem ónákvæmt orðalag leiðir til misskilnings.

Í stað þess að segja: "...í fyrsta sinn sem ég þyrfti að skammast mín á erlendri grund fyrir að vera Íslendingur", hefði ég frekar átt að lýsa þessari tilfinningu með því að segja: " í fyrsta sinn sem ætlast var til þess á erlendri grund að ég skammaðist mín fyrir að vera Íslendingur."

Ég er einn þeirra fjölmörgu sem setti nafn mitt strax undir yfirlýsinguna á Indefence um að ég væri ekki hryðjuverkamaður. Ég er einn hinna fjölmörgu sem býr við sært þjóðarstolt vegna þess hvernig heitið Íslendingur hefur á nánast einni nóttu breyst erlendis úr hrósyrði í skammaryrði.

Ég hélt áfram og mun halda áfram að bera húfuna góðu með hinu vængjaða skjaldarmerki Íslands og benda á það sé ég spurður út í þjóðerni mitt eða merkingu þessa merkis.

Á plötunni "Birta - styðjum hvert annað" sem nýlega kom út á tonlist.is til stuðnings fyrir mæðrastyrksnefnd er lag nr. 2 sem heitir "Landið mitt - byggðin mín."

Þar eru þessar ljóðlínur um tilfinningu mína og þúsundir samlanda minna til landsins okkar:

"Ástarorð mín hljóma um heiði og fjörð /

heitorð mín í gljúfrum fossinn syngur: /

Stöðugt skal ég standa um þig vörð, /

stoltur af að vera Íslendingur."

Á þeim tímum þegar niðurlægjandi Íslendingabrandarar hafa tekið við af Pólverjabröndurum víða um lönd á ég ekki betri ósk en þá að okkur auðnist að yfirvinna þetta hlutskipti. Það er erfið áskorun sem okkar bíður á næstu árum að snúa þessu við svo við getum borið höfuðið hátt hvar sem er í heiminum.

Ómar Ragnarsson, 13.11.2008 kl. 21:59

10 identicon

Sæll Ómar

Varðandi athugasemd þína nr 2 hér að ofan. Hefur þú ekki örugglega séð þessa mynd? http://www.youtube.com/watch?v=nsJAlrYjGz8  Hún er til á Laugarásvideó. Það voru komnir flottir, kraftmiklir, hraðskreiðir og FJÖLDAFRAMLEIDDIR rafmagnsbílar á göturnar í Kaliforníu 1996. Það eru 12 ár síðan. En hvað varð af þessum bílum? Þetta er "must see film" fyrir áhugafólk um rafmagnsbíla.

Kveðja

Þorsteinn (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 23:06

11 identicon

Blessaður .. ja nafni.

Pabbi bað mig að skila til þín að hann kaus þig líka og þá veit ég það og þú líka.

Ég er ennþá hugsi yfir þér.  Ég skil þig en samt??  Í tuttugu ár hef ég ekki skipt mér af pólitísku þrasi því það getur bæði verið mannskemmandi og manndrepandi.  En ég fann fyrir sársauka og síðan djúpri reiði þessa örlaga daga í október.  Í byrjun sveið það mig að Samfylkingunni kaus að nota kafbátahernað sinn til að beina reiði fólks að Davíð Oddsyni í stað þess að horfast í augu við eigin sök.  Sá, sem fyrst ræðir og gerir upp sína sök og ábyrgð gagnvart þjóðinni með afsökunarbeiðni, getur farið að ræða annarra sök ábyrgð og þá af auðmýkt.

Síðan fann ég fyrir sársauka hvernig fólk virtist vilja láta bjóða sér hvað sem er.  Og þá er ég ekki að tala um gjörðir okkar ráðamanna.  Þeir eru eins og þeir eru blessaðir.  Það var árásargirni og lítilsvirðing umheimsins sem kom mér í opna skjöldu, þar á meðal svokallaðra vinaþjóða okkar.  Ég veit ekki til þess að ég hafi gert þessu fólki neitt og ég hélt að öllum væri ljóst að að mín litla þjóð þyrfti hjálp.  Við værum skipreika sjómenn í ölduróti og neyð okkar væri mikil.  Vinir bjarga fyrst og umvanda svo.  Þannig er það bara.  Ég veit ekki númer hvað það er í boðorðunum en það er mjög framarlega.

Það sem gerði mig svo bálreiðan var undirlægjuháttur stórs hóps þjóðar minnar, sem tók undir allt þetta háð og níð og ef eitthvað var, reyndi að toppa skensið.  Það má margt segja um gjörðir okkar Íslendinga  og ábyrgð, en við eigum ekki þessa framkomu skilið.  Engin þjóð á hana skilið, sama hvernig hún er að öðru leyti.  Pólverjar millistríðsárana voru hrokagikkir, sem komu illa fram við minnihlutahópa í ríki sínu.  En það réttlætti ekki gjörðir Hitlers og Stalíns gegn þeim.  Viðbrögð verða að hæfa tilefni og ekkert réttlætir framkomu breta í okkar garð.  Það er ekkert EN í því dæmi.  Mér finnst gott að þú verður aftur stoltur Íslendingur sem berð skjaldamerki þíns lands með reisn.  Ef við berum höfuð hátt og högum okkur eins og manneskjur (sem ég tel mig og mína hafa gert) þá fáum við aftur mannorð okkar aftur.  En þjóð sem lætur kúga sig mun aldrei öðlast virðingu. 

En hvort og hvenær landvættirnir fyrirgefa okkur níðingsverkin við Kárahnjúka í bráð, veit ég ekki.  Mig grunar reyndar að þeir hafi bætt sínum þráð í spinnivef örlaganna og hafi vonast til að það mætti bjarga þjóðinni frá enn verri örlögum, sem er að tapa sjálfinu.  Veit ekki, en ég tel að við  þurfum að sættast við þá.  Spurning hvort þjóðfundur þurfi að biðjast opinberlegrar afsökunar á þeim gjörðum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 01:15

12 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

"Í byrjun sveið það mig að Samfylkingunni kaus að nota kafbátahernað sinn til að beina reiði fólks að Davíð Oddsyni í stað þess að horfast í augu við eigin sök. "

Þetta er reyndar púsluspil sem ég hef aldrei fengið til að passa saman.

Davíð hefur klúðrað málum þjóðarinnar á svo afdrifaríkan hátt að það er ævintýri líkast.

BARA SEM SEÐLABANKASTJÓRI: Búinn að halda úti glórulausri hávaxtastefnu hérna í landinu í tilraun til að minnka einkaneyslu, en varð til þess að keyra vaxtabyrði heimilanna upp í topp og hvetja til innstreymis á erlendu fjármagni frá lágvaxtasvæðum í þessa gríðarlega góðu vexti og þar með hvetja til meiri lántöku og neyslu.

Sakaður um hafa hótað að fella okkar stærsta fyrirtæki Kaupþing fyrir að vilja gera upp í evrum(vegna þess að það var pólitískt vont fyrir Dabba Kóng), hann hefur ekki svarað tilboði fjölmiðla til að verjast þessum ásökunum.

Stjórnaði klúðrinu á Glitni eins og sannkallaður herforingi, þar sem hann vildi að ríkið myndi taka yfir 3000 milljarða skuldir, guð sé lof að honum varð ekki að ósk sinni. Í staðinn fyrir að láta Glitni fara strax í að selja erlendu eignir sínar áður en þetta lán sem þeir gætu ekki greitt myndi falla á þá, þá gekk Dabbi strax í að ganga að fyrirtækinu dauðu. Öllum tillögum frá viðskiptabönkunum um hvernig átti að halda á þessum málum voru virtar að vettugi, fall íslenska bankakerfisins er eiginlega óumflýjanlegt eftir þessa aðgerð.

Tilkynnir um rússlánið í fjölmiðlum án þess að það sé ekki einu sinni búið að staðfesta lánið, enda er það ekki enn komið mánuði seinna og hlýtur titilinn einn mesti klúðrari heimsins í alþjóðlegu bankakreppunni fyrir þetta eitt.

Á útvarpi sögu er hann sagður hafa sent hrokafullt og móðgandi bréf til seðlabanka Þýskalands, heimtandi 500 milljarða, á að hafa hneykslað þýska svo mjög að þeir sendu bréfið áfram til systurstofnanna sinna í Evrópu. Ekki hefur hann reynt að verjast þessum ásökunum.

Er sagður hafa hrakið aðila IMF úr landi vegna frekjugangs, hefur ekki reynt að verjast þessum ásökunum.

Talaði um lýðskrumara alla þá sem hölluðust að því að taka upp evruna. Hér á hann væntanlega við yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar, flesta hagfræðinga landsins, Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands, Verkalýðshreyfinguna, Samtök atvinnulífsins, lífeyrissjóðina, Utanríkisráðherra og fleiri.

Kemur fram í frægu sjónvarpsviðtali þar sem hann endurtekur að við munum ekki borga erlendar skuldir óreiðumanna, sem er síðan þýtt yfir á ensku og spilað út í heimi sem vott um hroka íslendinga. Uppskar meira segja átölur frá sínum helsta samstarfsmanni til margra ára og fyrrverandi framkvæmdarstjóra Sjálfstæðisflokksins. Þetta er óhætt að telja einstakar yfirlýsingar frá seðlabankastjóra hvar sem er á vesturlöndum. Seinna í viðtalinu var hann orðinn alsaklaus eftir lengstu forsætisráðherrasetu í sögu þjóðarinnar af þessum málum öllum og lofaði aldrei þessa útrás sem hann reyndar smíðaði sjálfur regluverkið utan um og hvatti ítrekað til.

Vakti upp reiði varaformanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann var kominn í forsætisráðherrastellingar aftur með hugmyndum um þjóðstjórnir.

Er hægt að klúðra einhverju fleira hérna?

Jón Gunnar Bjarkan, 14.11.2008 kl. 02:17

13 identicon

Blessaður Jón.

Ég var nú bara að gera upp sárindi mín við nafna minn.  Mér finnst hann nefnilega vera einn af albestum sonum Íslands.  

En fyrst þú víkur að mér orðum þá vil ég að austfirskum sið ekki eiga neitt inni hjá þér (frekar en bretum, Hollendingum eða ESB).  Svona í sinni einföldustu mynd þá ætti sá sem ber mjög mikla ábyrgð að líta fyrst í sinn eigin barm áður en hann er hæfur til að leggja spjótlög í aðra.   Þetta er svona heilbrigð skynsemi sem er ein af grunnforsendum lýðræðisins.  Hitt heitir lýðskrum.

Ég hef mína skoðanir á ábyrgð Davíðs sem forsætisráðherra til 14 ára en því miður þá er hann hvorki við stjórn núna eða í framboði þannig að ég get ekki gert upp við hann á þeim vettvangi en ég get gert upp við flokk hans.  Ég veit allt um ábyrgð seðlabankans á núverandi ástandi en mér finnst það útí hött að kenna toppfígúru, eina manninn þar innandyra sem ekkert veit um peningamálahagfræði, um þá vitleysu sem þar var framkvæmd.  Hafi Davíð skrifað með eigin hendi undir ræður sínar þá er það hans eina framlag til þeirra.  En hann ber sína ábyrgð eins og öll stjórn Seðlabankans.  En ég tel að núverandi ríkisstjórn hafi ekki umboð þjóðarinnar til að skipa þar málum uppá nýtt.  

Og að lokum ef allt það er rétt sem þú segir um skaðsemi Davíðs og Seðlabankans, þá minnir mig að þetta séu embættismenn útí bæ sem starfa á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og eftir þeim markmiðum sem hún setur með lögum.  Geðjist ríkisstjórn ekki að núverandi lögum um Seðlabankann þá breytir hún þeim.  Ríkisstjórn á hverjum tíma getur ekki frýjað sig ábyrgð á stefnu þessarra embættismanna.  Bókun Samfylkingarinnar er eitt mesta djók og lýðskrum síðara ára.  Svo einfalt er það.  Það þarf ekki að flækja þetta með málskrúði.

Ómar Geirsson (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband