Þjóðaratkvæði um málið.

Hjá íslenkum stjórnmálamönnum ríkir einkennileg hræðsla við þjóðaratkvæðagreiðslur um helstu mál. Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun í tengslum við alþingiskosningar var felld 2003 á þeim forsendum að málið væri "of stórt" og myndi skyggja á smærri mál í kosningunum!

Þeir sem guma mest af lýðræðisást sinni hafa reynst andvígastir besta birtingarformi þess, beinni atkvæðagreiðslu. Hvað er svona voðalegt við það að greiða þjóðaratkvæði um það hvort við eigum að sækja um aðild að ESB? Jú, kannski það í huga andstæðinga viðræðna að þrátt fyrir minnkandi stuðning við aðildarumsókn eru samt 60% kjósenda fylgjandi viðræðum.

Eftir ítarlegar rökræður er ekkert víst um afdrif málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef svarið yrði jákvætt, yrði hvort eð er að greiða þjóðaratkvæði um útkomuna. Um slíka útkomu veit enginn með vissu nú þótt margir vitni í orð embættismanna í Brussel um að Ísland fái enga "sérmeðferð".

Þessir embættismenn eru varkárir, því að þeir hafa ekki pólitískt umboð til að ganga lengra í ummælum sínum.

Þeir hafa áreiðanlega sagt það sama áður en Malta og fleiri ríki gengu til samninga og fengu þrátt fyrir svona ummæli embættismannanna "sérmeðferð" í málum sem gáfu þeim algera sérstöðu meðal ESB-ríkjanna.

Sem dæmi um eina slíka sérstöðu Íslands má nefna hugmyndir um útblástursskatt á flugumferð. Í því máli hefur Ísland algera sérstöðu vegna þess að það er eina landið í Evrópu sem á ekki aðra raunhæfa möguleika á skjótum samgöngum en flugið.

Sjávarútvegurinn hefur líka sérstöðu, ekki hvað síst vegna þess að meginstofn veiða okkar er úr fiskistofnun þar sem við höfum einir verið við veiðar í 30 ár og því ekki erlend hefð fyrir veiðum líkt og á fiskimiðunum við strendur Evrópu.

Um landbúnaðinn gætu gilt reglur ESB um "sérmeðferð" jaðarbyggða og stuðning við þær. En enginn veit það fyrr en eftir viðræður hvort þar fengist framgengt samningsmarkmiðum okkar á viðunandi hátt fyrir okkur.

Eins og nú háttar til komast Íslendingar ekki að samningaborði um sérstöðumál eins og flugið og höfum við þó tekið upp Evrópurétt í einu og öllu í íslenskum flugmálum án þess að hafa getað haft nokkur áhrif á það innan ESB.

Vel þarf að sjá fyrir því að auðlindir Íslands verði í höndum þjóðarinnar en hættan á því að við misssum þær er mjög mikil, hvort sem við erum innan eða utan ESB. Ef öll orka landsins verður látin ganga til stóriðju mun það eyðileggja mestu verðmætin, einstæða náttúru, og einnig er hætta á að erlend stórfyrirtæki, jafnvel aðeins eitt þeirra á borð við Rio Tinto eignist allar auðlindirnar beint eða óbent.


mbl.is Minnkandi áhugi á ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég mæli með myndinni Hard rock and water en þar er Ísland borið saman við Nýfundnaland sem missti sjálfstæði eftir kreppu en þar 30%,atvinnuleysi í landi sem er mjög ríkt af auðlindum.

Víti til varnaðar

Hérna er fróðlegt video viðtal við Höfundinn að myndinni

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 24.11.2008 kl. 14:33

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu mun þjóðin greiða atkvæði um aðildarsamning Íslands að Evrópusambandinu þegar sá samningur liggur fyrir en það hefur akkúrat enga þýðingu að spyrja þjóðina um samning sem hefur ekki verið gerður.

Þorsteinn Briem, 24.11.2008 kl. 14:43

3 identicon

Það er ekkert skrýtið að yfirvöld hérlendis séu hrædd við þjóðaratkvæðagreiðslur, það er vegna þess að þeir hafa lært að stjórna þvert á við vilja þjóðarinnar og telja, sem er rétt, að með þjóðaratkvæðagreiðslum væri valdi þeirra veruleg takmörk sett.

Það er einmitt þess vegna sem þær eru svo mikilvægar.

Fyrir utan það, þá bölva ég reglulega 5%-reglunni andlýðræðislegu, fyrir að hafa hindrað þig í að komast inn á þing. Af einhverjum ástæðum þykir vinnufriður alltaf voða góð ástæða til lýðræðishamlana á Íslandi.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband