Hvað er pólitík?

Spilling og sérhagsmunagæsla hafa komið vondu orði á pólitík og orðið til þess að fæla fólk frá þátttöku í henni. Ekkert er hættulegra lýðræðinu og þess vegna er stóraukinn pólitískur áhugi þessar vikurnar af hinu góða.

En vegna þess hve orðið hefur fengið neikvæða merkingu hyllast margir til að segjast ekki vera pólitískir þótt þeiri séu í raun þrælpólitískir. Fundirnir á Austurvelli eru pólitískir eins og ályktanir og ræður á þeim bera glöggt vitni um.

Það er ekki hægt að stunda knattspyrnu án þess að spyrna boltanum og leika honum inn í mark andstæðinganna eftir ákveðnum reglum. Ákveðinn fjöldi leikmanna má vera inni á vellinum og einn þeirra er markmaður. Það er hins vegar hægt að stunda íþróttir á ódrengilegan hátt, beita bolabrögðum og koma óorði á þær.

Stjórnmál snúast um að skipa málum þjóðfélagsins á sem bestan hátt. Menn skipa sér í hópa, félög, flokka og fylkingar í samræmi við meginskoðanir þótt þær kunni að vera skiptar um áherslur og einstök málefni. Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa eins og marga dreymir um, annað hvort eru menn í pólitík eða ekki, eru inni á knattspyrnuvellinum að spila eða ekki.

Ævinlega verða menn þó að fara eftir sannfæringu sinni og leitast við að vera heiðarlegir og hreinskiptnir. Þingmenn vinna eið að þessu og þannig hefur Kristinn H. Gunnarsson líklega metið afstöðu sína, þótt aðrir séu honum ósammála.

Gallinn við ástandið núna er að auðheyrt er að fólk hefur vantrú á þingflokkunum, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er í sárum og klofinn um ESB og Samfylkingin klofin og talar bæði eins og hún sé í stjórn og stjórnarandstöðu. Í stjórnarandstöðunni eru loga smærri flokkarnir Framsókn og Frjálslyndir í illdeilum og VG er úti á vinstri kantinum á sama tíma sem 80% kjósenda er í raun nálægt miðjunni.

Líklega myndi þjóðstjórn litlu breyta nema innan hennar yrðu í bland við stjórnmálamennina fagfólk utan flokka, sem hefur haft rétt fyrir sér allan tímann og hefur burði til að taka þátt í endurreisninni.

Þegar knattspyrnulið tapar illa æ ofan í æ og missir alla tiltrú er skipt um fyrirliða og þjálfara og gerðar breytingar á liðinu. Með því er ekki sagt að menn hafi gerst brotlegir við lög, einungis að menn sem kunna betri leikaðferð eru teknir inn á. Ég á erfitt með að sjá hvernig menn ætla sér að komast hjá þessu á tímum þar sem hver einasti kjósandi er minntur daglega á þessi mál þegar hann tekur upp veski sitt.

Bandaríkjamenn áttu ekki í vandræðum með að vera í hörku kosningabaráttu á sama tíma og setja þurfti neyðarlög. Frambjóðendurnir lögðu þar hönd á plóg og sýndu pólitískan þroska sem oft virðist skorta hér á landi.


mbl.is Afstaða Kristins tekin fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

.. og meira segja Grænlendingum tókst að kjósa núna um hávetur þrátt fyrir að Geir (fyrirgefið forsætisráðherra - má ekki persónugera vandamálið) segi við okkur að það sé glapræði.  Ætli hann sé hræddur um að þeir fáu kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem eftir eru verði úti á leið á kjörstað?

.. fullyrðing hans (óbein hótun til kjósenda) um að við fáum ekki lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum ef við kjósum núna myndi duga til afsagnar á öðrum Norðurlöndum.  Svo ósmekkleg ósannindi frá forsætisráðherra topppa allt það sem hann hefur látið úr sér áður.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 11:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hann afneitaði því nú reyndar eftirá að þetta hefði verið eitt af skilyrðum IMF.

Ómar Ragnarsson, 26.11.2008 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband