Skaðlegur ósveigjanleiki.

Fundahöldin í haust eiga engin fordæmi hvað snertir þrautseigju fundarmanna enda tilefnið einstakt. En ráðamenn þjóðarinnar spila sennilega heima hjá sér plötuna með Halla og Ladda og synga: "Látum sem ekkert C".

Aðeins tvisvar á lýðveldistímanum hafa ráðherrar orðið að segja af sér og þá af miklu minna tilefni en nú.
Raunar held ég að nær engir muni eftir tilefninu í síðara skiptið.

Kann að vera að ráðamenn nú kalli líti á óbilgirni sína sem staðfestu en í ljósi tilefnisins til vantrausts á þeim getur þetta ekki flokkast undir neitt annað en skaðlegan ósveigjanleika. Kröfurnar á fundunum hafa verið margar en svo er að sjá sem ekki eigi að verða við einni einustu.

Þúsundum fólks er sagt upp störfum en þeir sem ábyrgð bera sitja sem fastast. Hver sú persóna sem nú hefur misst vinnuna getur tekið það áfall á þann hátt að það sé verið að "persónugera" gagnvart henni. En þegar rætt er um að ráðamenn víki má víst alls ekki "persónugera."

Ef mótmælafundirnir og andófið minnkar eru send röng skilaboð til ráðamanna og þeim leyft að styrkjast í þeirri trú að þeir komist upp með hvað sem er og geti sloppið með því að þumbast nógu lengi við.

Þetta er hættuleg afstaða og þegar kemur fram á útmánuði á ástandið vafalaust eftir að verða enn verra en það er nú. Þúsundir fólks, sem hefur misst allt sitt, finnst að það hafi engu að tapa og er því tilbúnara í aðgerðir en ella.

Minna má á orð Ingjalds í Hergilsey, þegar hann ákvað að berjast og fórna lífi sínu fyrir Gísla Súrsson gegn ofurefli höfðingjanna. Á þeim tíma var staða manna metin eftir fatnaði. Ingjaldur var fátækur eyjabóndi, stóð á Vaðsteinabergi í slitnum og lélegum fötum og sagði: "Ek hefi vond klæði og hryggir mig eigi þótt eg slíti þeim eigi gerr." Hann hafði engu að tapa og orð hans lifa.

Reynslan sýnir að slíkir eru oft tilbúnir í rótttækar aðgerðir en aðrir. Ef upp úr síður bera þeir sem þverskallast við kalli tímans mikla ábyrgð og var varla á hana bætandi.


mbl.is Kaupmenn þrauka fram yfir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Eins og einhver sagði, freedom is just another word for nothing left to lose.

Villi Asgeirsson, 29.11.2008 kl. 21:13

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Las grein þína að ofan um ábyrgð Geirs og tel hana góða greiningu á hans ábyrgð, bæði sem fjármálaráðherra og forsætisráðherra.  Þess vegna skil ég illa að þú skulir taka þann pólinn að ráðherrar eigi að segja af sér.  Ertu ekki búinn að færa sterk rök fyrir því að stjórnin öll eigi að víkja?  Skiptir það máli hvort ráðherra sé svo sekur að hann sé 1000% sekur, 500% sekur eða aðeins 100% sekur á meðan hann er sekur.  Hvernig getur ríkisstjórn setið sem missti þjóð sína í gjaldþrot, án þess að séð verði að hún hafi nokkuð gert til að hindra það?

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.11.2008 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband