Holl ádeila.

Hvað hét hann nú aftur, erlendi sérfræðingurinn sem kom hingað fyrir tæpum tveimur árum og spáði því að "íslenska efnahagsundrið" myndi aðeins endast í eitt ár í viðbót? Skiptir ekki máli. Hann notaði þá aðferð að telja byggingarkranana til að komast að þessari niðurstöðu, - kvaðst hafa gert þetta á þeim stöðum erlendis þar sem spilaborgin hefði hrunið.

Ég notaði þá aðferð á svipuðum tíma að giska á hlutfalll bandarísku ofurjeppanna í borgarumferðinni til að komast að svipaðri niðurstöðu og skrifaði meira að segja lýsingu á komandi hrunadansi í bókina "Kárahnjúkar - með og á móti." Óraði þó ekki fyrir svo undraskjótu umfangi eyðileggingarinnar.

Það hefði líka mátt á þessum árum telja hlutfall greina í Séð og heyrt sem voru með eftirfarandi fyrirsögnum: "Sjáið dýru kjólana þeirra! - Reistu sér 500 fermetra sumarhús! - Gaf henni Hummer í brúðargjöf! - Fékk Elton John til að skemmta í afmælinu! - Uppbúinn þjónn á hverja veiðistöng! - Sjáið þið lúxusbílana í afmælinu!

Svona var þetta blað eftir blað. Hvílík dýrð, hvílík dásemd! "Sjáið þið ekki veisluna, drengur" hrópaði fjármálaráðherrann úr ræðustóli á Alþingi.

Fyrir ári sögðum við um Danina sem skrifaðu beitta ádeilu um okkur að þeir væru öfundsjúkur hatursmenn Íslendinga með óhróður og lygar.

Þau orð voru notuð hér um Svía einn fyrir aldarfjórðungi sem lýsti næturlífinu eina helgi í Reykjavík. Ég hygg að sönnu nær sé að þótt fast sé kveðið að orði hjá útlendingunum  sé hollt fyrir okkur að fá slíka ádrepur.  

 


mbl.is Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er hlutfallið af fíflum per capita talsvert hærra en með öðrum þjóðum. Flest eru þau í pólitík og viðskiptum

Alkinn (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 10:51

2 Smámynd: Aradia

Dramb er falli næst. Var það ekki einhvernveginn þannig?

Aradia, 3.12.2008 kl. 11:27

3 Smámynd: Einar Indriðason

Stundum er ágætt að fá utanaðkomandi aðila til að horfa á mál... Það er nefnilega þetta með flýsina og bjálkann.  Aðrir, og þá helst utanaðkomandi, sjá hlutina í öðru ljósi heldur en við.

Einar Indriðason, 3.12.2008 kl. 11:54

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Nákvæmlega Ómar.

Ef við hér heima reynum aðeins að kyngja fordómunum og þessari ofsa vörn, að þá sjáum við að maðurinn hefur nokkuð til síns máls.

Við erum búin að sitja hérna heima og horfa á frá því sjónarhorni, sáum bara útrás voða glöð. Á hinum endanum sat fólkið og upplifði innrás.

Er skrítið þó því hafi sárnað?

Baldvin Jónsson, 3.12.2008 kl. 11:57

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Það truflaði mig þó aðeins líka í fréttamati frá Danmörku í fyrra, það er frá Danske Bank, að Danske Bank var með stöðu á móti íslensku bönkunum og krónunni og var því að græða á falli okkar.

Það truflaði mig mikið þegar ég las fréttir frá þeim að vita að þeir græddu á því að tala okkur niður.

Skrítinn orðinn þessi fjármálaheimur, stórskrítinn.

Baldvin Jónsson, 3.12.2008 kl. 11:58

6 identicon

Það græddu mjög margir á falli Íslands og íslenskir fjármálaspekúlantar (bankarnir þar á meðal) tóku fullann þátt í því.

Mér finnst það hins vegar einkennilegt þegar íbúðabyggingar eru notaðir sem merki um yfirvofandi hrun, Íslendingum fjölgar meira en öðrum Evrópubúum og það er því ekki merki um einhverja brjálsemi að hér sé byggt meira en gengur og gerist annars staðar.

Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 13:42

7 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sigvaldi, ég starfaði við fasteignasölu. Strax árið 2006 lágu fyrir um það upplýsingar að í skipulagi væri gert ráð fyrir þá þegar mun fleiri eignum en markaðurinn gæti borið, og það þrátt fyrir að reikna með áframhaldandi innstreymi á erlendu vinnuafli.

Árið 2007 lá skýrt fyrir að menn væru komnir í vandræði en menn héldu samt áfram að byggja meira. Það vildi enginn vera fyrstur, vildu allir græða sem lengst, en enduðu með því væntanlega í stórtapi.

Það að á tímabili sé byggt meira en gengur og gerist er ekki brjálsemin. Brjálsemin er að halda áfram ótruðir þrátt fyrir að fyrir liggi skýrar upplýsingar um að ekki verði markaður fyrir allar þær eignir.

Baldvin Jónsson, 3.12.2008 kl. 13:52

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigvaldi. Hér hafa um 17 þúsund útlendingar starfað undanfarið og ef þeir fara allir úr landi núna standa hér um fjögur þúsund íbúðir auðar, miðað við að fjórir útlendingar hafi búið í hverri íbúð.

Íslendingum fjölgar engan veginn mikið. Hver kona, sem býr hérlendis, á að meðaltali 2,2 börn og í langflestum tilfellum þarf hún aðstoð karlmanns við að búa til hvert barn. Þar að auki eru mörg hundruð og jafnvel þúsundir þessara kvenna ekki íslenskir ríkisborgarar og margar þeirra flytja fyrr eða síðar úr landi.

Við framleiðslu þessara 2,2ja barna þarf því til að koma atbeini tveggja einstaklinga, sem falla fyrr eða síðar frá. Eru afskrifaðir hér en birtast í öðru portfólíói hjá öðrum fasteignasölum.

Afraksturinn er því 0,1 barn á mann að meðaltali og af þessu 0,1 barni eru nú um 15% við nám og störf erlendis, ef við lítum einungis til íslenskra ríkisborgara.

Þorsteinn Briem, 3.12.2008 kl. 14:53

9 identicon

Þessi grein er nú reyndar ansi hvassyrt.  Ég las hana á dönsku, enda búsett í DK. 

Það vantar að þýða rétt niðurlag greinarinnar, en þar fer höfundur fram á að Anders Fogh láti Íslendinga ekki hafa meira fé ... FYRR EN búið er að hreinsa út þá óreiðumenn sem sök eiga á hruninu.  Höfundur er sem sagt sammála mótmælendum. 

Elfa (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 15:29

10 identicon

Danske bank með stöðu gegn íslensku krónunni, segir Baldvin.

Í ársskýrslu seðlabankans fyrir 2007 segir að mjög mikil aukning hafi orðið á skráningum fyrirtækja erlendis í eigu íslendinga. Lán bankanna til "erlendra aðila" jukust um 143%. Hver var að taka stöðu? Gjaldeyrinn streymdi úr landi í formi lána íslensku bankanna til erlendra fyrirtækja í eigu íslendinga. 59% af heildarútlánum bankanna voru í árslok 2007 til erlendra aðila.

Ekkert lát varð á streyminu á þessu ári heldur aukning, enda fóru bankarnir að hrópa hástöfum á meiri gjardeyrisforða. Man einhver eftir 4,5 milljarða útboði Kaupþings sem átti að fara til íbúðarlána til að örva markaðinn. Ekki skilaði króna sér á þann markað, allt fór í gegnum seðlabankann úr fyrir skerið í formi gjadeyris.......þangað til seðlabankinn tæmdist...

sigurvin (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 17:04

11 identicon

Eina Vopn Fólks er að hætta að borga

þá er hægt að semja

Æsir (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 17:28

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aldrei hætta allir að greiða af lánum sem þeir hafa tekið og því meira sem bankarnir tapa af útlánum, því hærri þurfa útlánsvextirnir að vera.

Þorsteinn Briem, 3.12.2008 kl. 17:44

13 identicon

Bla Bla

Æsir (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 20:30

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, þetta er mikið bla bla hjá þér, Æsir minn.

Þorsteinn Briem, 3.12.2008 kl. 22:11

15 identicon

Rétt hjá Steina, Sigvaldi. Til að viðhalda stofni manna þarf hver kona að fæða 2.1 barn hlutfallslega. Sjá:  http://en.wikipedia.org/wiki/Sub-replacement_fertility

Íslendingum fjölgar því örlítið og jafnt og þétt ef þeir halda sig á 2.2  (mesta fjölgunin undanfarið er vegna aðfluttra)

Að telja byggingarkrana er ekki pottþétt samt, þó það geti verið vísbending. Vissulega gæti líka verið mikið byggt að einhverjum hluta vegna vegna flótta af landsbyggðinni í höfuðborgina, eins og hefur verið á tímabilum. Einnig aðfluttra útlendinga. En útlendingarnir eru eins og lánsféð og þenslan hérna, þegar það fer, fara útlendingarnir. Nú er svo komið að sumir útlendingar eru farnir og aðrir fara væntanlega líka, þó aðrir verði eftir enda búnir að koma sér fyrir. Það sem meira er, margir Íslendingar hugsa sér til hreyfings. Maður spyr sig... hrynur ekki húsnæðisverð?

Skondið annars eitt. Það var heimildarmynd í gær um kókaín-innreiðina í Miami síð- 70´s- snemm 80´s. Miami varð að "gateway" borg heimsins f. kókaín frá Kólombíu. Þar varð allt undirlagt af kókaínpeningum sem gegnsýrðu samfélagið á leynilegan hátt og skapaði miklu fleiri banka en áttu að vera undir eðlilegum kringumstæðum í Miami. Fullt af háhýsum og öðrum húsum voru byggð og Miami þandist út. Þegar kókaín-hagkerfið þar hrundi, hrundu sumir bankarnir og fyrirtæki fóru á hausinn. Þetta var falskt hagkerfi. Rétt eins og okkar. Okkar kókaín var hins vegar auðvelt og aðgengilegt lánsfé.

Ari (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 03:33

16 Smámynd: Baldvin Jónsson

Hagfræðingar myndu væntanlega halda því fram að tala byggingakrana gæti aldrei gefið vísbendingu um komandi ástand, svolítið eins og að fjöldi bíla á nagladekkjum spái fyrir um komandi kuldatíð. En þetta er skemtileg hugmynd hjá honum og virðist hafa fylgni skv. hans heimildum.

Allar hugmyndir um húsnæðisverð sem uppi eru núna gefa vísbendingar til verulegrar lækkunar, m.a.s. án kreppu "leiðréttir" húsnæðisverð sig almennt eftir svona mikla verðbólgu á þeim markaði.

Baldvin Jónsson, 5.12.2008 kl. 08:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband