Bagaleg umferðarfrekja.

Þegar umferð um Kringlumýarbraut er mest á álagstímum bitnar hin íslenska frekja á þeim sem eru svo óheppnir að vera á beygjuakreinum inn á brautina. Þá er stanslaus bílastraumur allt frá Sæbraut og suður í Hafnarfjörð og bíll við bíl.

Við þessu er svo sem lítið að gera nema að þetta bitnar sérstaklega á bílunum sem ætla inn á Kringlumýrarbrautina því að bílstjórarnir sem eru á henni hrúgast inn á gatnamótin bíll við bíl, þótt þeir lendi þar á rauðu ljósi og sjái fyrirfram að svo muni fara. Þar með þeir nær alveg í veg fyrir að þeir sem koma til dæmis eftir Háaleitisbraut og ætla að beygja til suður komist lönd né strönd.

Mér er kunnugt að víða erlendis varðar það sektum að fara inn á gatnamót ef fyrirsjáanlegt er að þar verði menn innlyksa á rauðu ljósi og komi í veg fyrir að þeir sem koma frá hlið á grænu ljósi geti notfært sér það.

Dæmi um þetta eru mörg í umferðinni í borginni, til dæmis þegar bíll er við bíl á Laugavegi. Þá er bílum, sem ekið er eftir hliðargötum er meinað að fara yfir gatnamótin. Græðir þó enginn í bílaröð Laugavegarins á því að gefa ekki eftir örlítið bil á meðan hann bíður hvort eð er.

Það sem er fyndnast við þetta er það að þeir bílstjórar sem telja sig græða á því einn daginn að þjösnast svona áfram verða síðar fyrir barðinu á sams konar þjösnaskap annarra.

Í umferðarlögum er grein sem kveður á um skyldu bílstjóra til að haga akstri sínum þannig að það greiði sem mest fyrir umferð. Brot við þessu ætti að varða sektum ef í það færi eins og um aðrar greinar umferðarlaga.

Í fyrra fóru lögreglumenn einn dag og sektuðu menn fyrir að nota ekki stefnuljós.
Það mætti senda lögreglumenn oftar til að taka til hendinni, til dæmis við aðstæður eins og skapast víða á hverjum degi á fjölförnum gatnamótum, þó ekki væri til annars en að greiða fyrir eðlilegri, réttlátri og hagkvæmri umferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Hér í Svíþjóð notum við "rennilásaðferðina" það er að segja að öðrum hverjum bíl er hleypt inn við gatnamót. Þetta er kerfi "réttlætisins".  Íslendingar eru svoddan smákóngar. Þeir skilja ekki að einn dag þurfa þeir að komast inn á aðalgötuna og þá eru þeir í sporum hinna sem aldrei er hleypt framhjá.  

Baldur Gautur Baldursson, 6.1.2009 kl. 20:46

2 Smámynd: Steini Thorst

Staðreyndin er nú bara sú Ómar að það eru alltof margir, sko alltof margir í umferðinni í Reykjavík og nágrenni sem kunna bara alls ekki að nota gatnakerfið þannig að sem best gangi. Þetta á við í því sem þú nefnir og þetta á mjög svo við í tilfelli hangsaranna á vinstri akrein. Eins á þetta við um bílstjóra sem aka einbreiðar götur í alltof miklum hægagangi vegna þess að ÞEIR eru í mestu makindum.

Fólk almennt hugsar bara um sjálft sig í umferðinni en er ekki að velta öðrum fyrir sér. Svo ef maður flautar eða blikkar ljósum, þá er maður bara dóni og glanni.

Steini Thorst, 6.1.2009 kl. 20:46

3 Smámynd: Offari

Ég veit ekki en satt best að segja finnst mér höfuðborgarbúar vera kurteysari í umferðini eftir að nýju númerin komu.  Ekki hefur hún minkað síðan þá. 

Offari, 6.1.2009 kl. 21:16

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tek undir flest sem sagt er hér en vil samt hrósa líka

íslendingar virðast almennt vera búinir að fatta til hvers stefnuljós eru á bílum.. og ég meina það !  

Óskar Þorkelsson, 6.1.2009 kl. 22:57

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Akið þið til vesturs úr Skeifuhverfinu í átt að Fellsmúla og reynið að taka beygju til vinstri til suðurs Grensásveg. Um áraraðir hafa bílstjórar, sem koma á móti ykkur og ætla líka að beygja suður Grensásveg ekki haft fyrir því að láta vita af því með stefnuljósunum.

Með því hafa þeir gefið í skyn að þeir ætli ekki að beygja heldur halda beint áfram austur í Skeifuhverfið og látið ykkur bíða af ykkur tækifæri til að aka til vinstri inn á Grensásveg.

Ef þessum bílstjórum er að fækka eitthvað þá er kannski einhver framför í gangi.

Skoðið þið líka umferðina á T-gatnamótum borgarinnar, til dæmis Bolholt-Skipholt og sjáið hve margir þeir eru enn í dag á beinu götunni sem ætla að beygja en gefa ekki stefnuljós og halda með því ökumönnum á Bolholti í gíslingu, gersamlega að óþörfu.

Ómar Ragnarsson, 6.1.2009 kl. 23:52

6 identicon

Já það er algengt að menn gefa ekki stefnuljós þegar það er gagnlegt en gefa þau þegar það er vitað hvert þeir fara og reyndar byrja sumir að gefa stefnuljós í beygjunni sjálfri sem er gagnslaust

Líka mættu margir slappa af í umferðinni, ekki vera að flýta sér og hafa bara gaman að keyrslunni, setja bara á útvarpið eða tónlist og keyra á löglegum hraða. Hvað í ósköpunum gerir það fyrir e-n að flýta sér, það skapar bara stress. Ef þú græðir, segjum 3 mín á því að flýta þér, er það virkilega þess virði? 

Steini Thorst ætti svo að slappa af á vinstri ef þeir á vinstri eru á löglegum hraða. ;)

Ari (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 01:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband