Mesta minnismerkjakynslóð Íslandssögunnar.

Engin kynslóð Íslandssögunnar hefur reist eins mörg og stór minnismerki um sjálfa sig og sú sem nú hefur ráðið ferð.

1. Káranjúkavirkjun. Byrjunin á minnismerkjagerðinni, þenslunni, bruðlæðinu, skammtímagræðginni, áhættufíkninni og tillitsleysinu gagnvart komandi kynslóðum. . Stærsta minnismerki sem nokkur kynslóð hefur reist og mun líklega geta reist á Íslandi. Mesta mögulega eyðilegging náttúruverðmæta landsins.

2. Tónistarhúsið. Átti að keppa við stórkostleg tónlistarhús í Kaupmannahöfn og Osló. Leysir þó ekki vanda óperunnar líkt og Ólafshöllin í Þrándheimi, sem kostaði brot af tónlistarhúsinu í Reykjavík. Í Ólafshöllinni er besta fáanlega aðstaða til bæði tónleikahalds og óperuflutnings. Þar eru ráðstefnusalir, hæfilega stór minni salur, hótel og verslunarmiðstöð. Þetta hús er hugsað sem fallegur og vistlegu framleiðslustaður menningar, ekki sem minnismerki, enda erfitt að finna það í miðborg Þrándheims. Þrándheimur er á stærð við Reykjavík og Þrændalög álíka mannmörg og Suðvesturhorn Íslands. Sama hnattstaða, menningarheimur og kjör, - fram að þessu.

3. 19 hæða turninn við Túnin sem gerir Höfða,frægasta hús Íslands, að spýtukofa í samanburðinum og kostaði niðurbrot fallegs bogadregins húss Ræsis við Skúlagötu. Riðlar öllu samhengi á stóru svæði í borginni.

4. Héðinsfjarðargöng. Sjö milljarða framkvæmd út á ysta nes til 1300 manna byggðar á sama tíma og Vestfirðir eru hálfri öld á eftir öðrum landshlutum í samgöngum. Mun ódýrari göng undir Siglufjarðarskarð hefðu leyst betur úr vanköntunum á leiðinni frá Siglufirði til Skagafjarðar og Reykjavíkur sem áfram verður jafn slæm og áður. Fljótaleiðin svonefnda hefði leyst öll vandamál og skapað þægilega hringleið um Tröllaskaga. En ný kjördæmamörk fengu þingmenn Norðausturkjördæmis til að keyra þetta mál í gegn.

5. Auk síðastnefndu ókláruðu minnismerkja eru ótal auðar og hálfkláraðar byggingar á Reykjavíkursvæðinu sem eru svo margar að varla er hægt að aka neins staðar um þetta svæði nema að sjá einhverja þeirra.


mbl.is Táknmynd góðæris eða kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Já minnismerkin eru mörg. Ég vinn í álveri Alcoa þannig að ég er einn þeirra örfárra sem njóta góðs af afköstum góðærisframkvæmdana. Ég vildi svo sannarlega að fleiri nytu þess. Ég er hinsvegar á því að mestu mistökin séu á suðvestur horni landsins.

Offari, 16.1.2009 kl. 01:01

2 identicon

Auðvitað voru mistökin gerð á Alþingi annarsvegar og LV hinnsvegar. En staðreyndin er sú að Austfirðingar börðust með kjafti og klóm fyrir virkjun sem var svo óraunhæf að ekki fékkst staðist að framkvæmdin myndi standast lágmarks arðsemi þrátt fyrir uppsrengt álverð. Hvað þá að hægt væri að framkvæma hana öðruvísi en að brjóta alla kjarasammninga.

Ég, í heimsku minni, reyndi meira að segja skrifa grein í moggann til að benda á áhættuna og arsemisskortinn til að stoppa vitleysuna. En fékk hana tæpt birta fyrr en mörgum vikum seinna. Reyndar sama dag og Reyðarál var sammþykkt. Ekki það að greinin væri af Kopernikusar stærð enda sannindin þekkt.

LV er svo gott sem gjaldþrota, enda er vaxtarkostnaður af 500 milljarða skuld eins og fjötrar á Fensrisúlfi. Ég vorkenni LV að þurfa að endurnýja dauðadæmt lánsskuldafen.

Við fluttum til köben 2005 enda allt sem við börðumst gegn tapað og ef eitthvað þá ættu hlutirnir að versna. Ég slapp við krísuna en ekki nýt ég þess. Ég reyndar vona að við sigrum, það er að djúpt í tapi og niðurlægingu munum við finna leið út úr feninu og sigra.

Takk fyrir gott blogg Ómar.

Andres Kristjansson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 02:28

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stærsta minnismerkið um þessa snilldartíma er nú í Kaupmannahöfn og heitir Halldór Ásgrímsson.

þar fitnar hann eins og púkinn á fjósbitanum á kostnað almennings, rétt eins og Davíð Oddsson hefur gert alla sína ævi.

Saman eru þeir á við fimm hundruð hálfkláruð tónlistarhús í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 16.1.2009 kl. 02:36

4 identicon

Langar að nefna draugahverfið sem er norðan við Grafarholtið(heitir það ekki Úlfars- eitthvað.... ekki þó Úlfarsfell?), ók í gegnum það um daginn, heilt hverfi af mjög svo ókláruðum húsum og steyptum grunnum, það var skrýtið.

Ari (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 03:41

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvað með minnismerki um Icesafe?

Afleiðingarnar af þessum Icesafe reikningum bankanna eru að sliga Íslendinga. Þeir urðu til þess að hraða för okkar í áttina að niðurlægingu og ofdirfsku. Öll umræða samfélagsins snýst orðið að mestu um þessi afglöp sem rekja má til mjög óskynsamrar ákvörðunar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma. Sú framkvæmd var allt of stór fyrir lítið hagkerfi sem margir skynsamir aðilar vöruðu stranglega við, bæði þú Ómar sem og Vinstri grænir. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur staðfest að þessar aðvaranir áttu við rök að styðjast. Afleiðingin var gervigóðæri sem engin verðmæti voru á bak við, aðeins botnlausar lántökur og peningaflæði erlends gjaldeyris til landsins.

Kárahnjúkavirkjun er dýrasti kosningavíxill sem eg þekki og það var ákvörðun Framsóknarflokksins fyrst og fremst til þess að veiða nokkur atkvæði í þágu Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur!

Væri annars ekki tilvalið að útbúa minnismerki um þessi Ícesafe mistök? Lagt er til að útbúa gínu í íslenska þjóðbúninginn og leggja eins og 50 tonna bjarg ofan á fjallkonuna. Klappa mætti skýrum stöfum orðið ICESAFE á áberandi stað á bjargið. Minnismerki af þessu tagi þyrfti ekki að kosta mikið, aðallega væri flutningur á bjarginu og að koma því fyrir.

Þá mætti setja upp annað minnismerki um framsóknarpláguna!

Meira um þessa minnismerkjaplágu: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/768329

Bestu kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 16.1.2009 kl. 09:41

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég átti við þau minnismerki sem eru mannvirki sem hægt er að sjá og þreifa á. Allar hugmyndir um áþreifanlegt minnismerki um Icesafe eru vel þegnar.

Ómar Ragnarsson, 16.1.2009 kl. 12:44

7 identicon

Líflausar hafnir og bryggjur í sjávarbyggðum umhverfis landið er minnismerki um okkar margrómaða kvótabraskkerfi sem hefur átt stóran þátt í að setja þjóðarskútunna á hliðina.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband