Þingrofsrétturinn 1931 og 1974.

Tvisvar á síðustu öld notaði forsætisráðherra þingrofsréttinn, og í beinu framhaldi urðu kosningar. 1931 las Tryggvi Þórhallsson óvænt upp bréf frá kongungi um þingrof og í kjölfarið fylgdu mikil mótmæli, umrót og deilur um hvort þetta hefði verið löglegt.

Fræðimenn komust flestir að þeirri niðurstöðu síðar meir að þingrofið hefði staðist lög og þess vegna urðu engar deilur um lögmætið 1974 þegar Ólafur Jóhannesson rauf þing.

Hann sjálfur hafði sem prófessor og sérfræðingur í stjórnarfars- og stjórnskipunarrétti áður en hann varð ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að það væri löglegt og ég man enn hvað umræður um það efni voru skemmtilegar og áhugarverðar í tímum hans í lagadeild Háskólans.

Deilurnar um þingrofið 1974 voru hins vegar fyrst og fremst um það hvort þetta hefði verið siðlegt, pólitískt séð.

Geir hefur sagt að það væri ábyrgðarlaust að hér skelli á stjórnarkreppa eða að landið verði stjórnlaust og í ljósi þeirra orða væri það einkennilegt ef hann ryfi þing án þess fyrst reyndi á það hvort hægt væri að mynda stjórn sem sæti fram að kosningum.

Hjó núna rétt í þessu eftir orðum Geirs í viðtali í Sjónvarpinu um það að Íslandshreyfingin hefði ekki fengið "nægan hljómgrunn 2007 til að koma inn þingmanni."

Þetta er í raun ónákvæmt og villandi orðalag. Rétt hefði verið að segja að hreyfingin hefði ekki fengið nægt fylgi til að koma að þremur þingmönnum, því að það er það lágmark sem sett er í ósanngjörnum kosningalögum um að framboð verði að fá til að komast á þing.

Íslandshreyfingin fékk nægt fylgi til að koma að tveimur þingmönnum, ef hinn hái atkvæðaþröskuldur gömlu flokkanna hefði ekki verið við líði.


mbl.is Útilokum ekki breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000:

108. grein. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."

Ef landið hefði verið eitt kjördæmi, sem það á að sjálfsögðu að vera, og engin lágmarksregla verið um atkvæðafjölda, hefði Íslandshreyfingin fengið tvo þingmenn með sín 5.953 atkvæði í síðustu alþingiskosningum.

Ísland er hins vegar örríki, hefur því ekkert með 63 þingmenn að gera, og 50 þingmenn er nóg fyrir þjóðina. Miðað við 50 þingmenn, 5.953 atkvæði og landið sem eitt kjördæmi hefði Íslandshreyfingin aftur á móti einnig fengið tvo þingmenn í síðustu Alþingiskosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 18 þingmenn í stað 25, Samfylkingin 13 í stað 18, Vinstri grænir sjö en ekki níu, Framsókn sex þingmenn í staðinn fyrir sjö og Frjálslyndir fjóra þingmenn, jafn marga og þeir fengu í kosningunum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefði því fallið með 24 þingmenn, eins og hún átti að sjálfsögðu að gera. Og miðað við 63 þingmenn hefði ríkisstjórnin einnig fallið með 23 þingmönnum Sjálfstæðisflokks og sjö þingmönnum Framsóknar. Samfylkingin hefði fengið 17 þingmenn, Vinstri grænir níu og Frjálslyndir fimm þingmenn.

Í báðum tilfellum hefði Íslandshreyfingin því fellt ríkisstjórnina með tveimur þingmönnum.

Og einstaklingur, sem hefði boðið sig fram í kosningunum samkvæmt þessum reglum, hefði einungis þurft 2.892 atkvæði til að komast á þing, miðað við 63 þingmenn, en 3.644 atkvæði miðað við 50 þingmenn.

Þorsteinn Briem, 25.1.2009 kl. 20:04

2 identicon

Það var við Ólaf Jóhannesson sem Vilmundur Gylfason sagði þá frægu setningu: "Semsagt löglegt en siðlaust". Hvað var það? sem var löglegt en siðlaust. Man vel eftir Ólafi og Vilmundi og er að reyna að rifja upp hvert var umræðuefnið í því tilviki.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 20:49

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég held að þeir hafi ekki verið að tala um þetta en það var nóg af öðrum tilefnum.

Ómar Ragnarsson, 25.1.2009 kl. 21:14

5 Smámynd: Bára Friðriksdóttir

Æ, hvað er gott að fá svona upprifjun Ómar!

baráttukveðja, Bára Friðriksdóttir

Bára Friðriksdóttir, 25.1.2009 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband