Þeirra tími mun koma.

Ég var á borgarafundi á Selfossi í gærkvöldi eins og kemur fram í öðrum bloggpistli og meðal pallborðsgesta var Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra. Á honum dundu spurningar og sumar mjög hvassar og eitraðar.

Ég gat ekki annað en dáðst að rósemi hans og yfirvegun. Unga fólkið myndi kalla það mega-kúl. Hann svaraði öllu skýrt og vafningalaust. Þetta er ekki öllum gefið.

Þegar ég sé nú hina ungu vonarstjörnuna, vænan og efnilegan mann, Ágúst Ólaf Ágústsson, stíga líka til hliðar, get ég ekki annað en spyrt þessa tvo menn svolítið saman hvað það snertir að þeir vægja nú báðir fyrir óvæginni atburðarás sem þeir gátu ekki séð fyrir.

Þeirra tími reyndist ekki vera fyllilega kominn. En eitt er víst: Þeir eru reynslunni ríkari og báðir þoka nú á þann veg að þeir eiga að geta komið aftur, öflugri en nokkru sinni fyrr. Þeir eru það ungir að þegar þeir til dæmis bera sig saman við Jóhönnu Sigurðardóttur eiga þeir eftir næstum eilífð eftir pólitísku tímatali til að ná þangað sem hæfileikar þeirra og mannkostir segja til um.

Kannski varð það Ágústi Ólafi til trafala að hann skynjaði grasrót flokksins betur en aðrir og flutti forystunni skilaboð frá henni sem ekki voru góð.

Hann tók það til dæmis að sér að koma oftar á ólgandi borgarafundi en aðrir talsmenn Samfylkingarinnar og honum hefði aldrei dottið í hug að segja eitthvað við fundarmenn sem mátti túlka á þann veg að þeir væru ekki þjóðin.

Hann las andrúmsloftið og á þessum fundum snart hann þann hluta þjóðarinnar, sem hrunið mikla bitnar verst og ósanngjarnast á, og sýndi að hann er maður fólksins. Það er tjón fyrir Samfylkinguna og stjórnmálin að þessirungu menn þoki um sinn en þeirra tími mun koma, sannið þið til.


mbl.is Ég er ekki að fara í fússi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég sé svolítið eftir Ólafi, kunni alltaf vel við hann í pólitíkinni.

Úrsúla Jünemann, 27.1.2009 kl. 14:33

2 identicon

Það má vera að Björgvin G. sé mega-kúl að þínu mati.  

Við höfum hins vegar þurft að greiða útrásar- og bankanámskeiðið hans dýrum dómum. 

Við hljótum að meta fólk eftir gjörðum þeirra og árangri í starfi en ekki eftir stöðluðum frösum, skýlausum jántingum og eftiráskýringum.

Maðurinn (sagnfræðingurinn) þurrkaði út blogglofrullurnar sínar um útrásina þegar hrunið varð.  Það er ekki trúverðugt.

Hann verðskuldar ekki annað tækifæri á okkar kostnað.  Hverju lofar hann næst? 

TH (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 15:08

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Þeir þurftu að fara, baðir tveir til að rýma fyrir Flugreyjunni. Nú er efnahagsmálum borgið. Fróðlegt verður að vita hver viðbrögð fjölmiðla annars vegar og mólmælenda hins vegar verða....sennilega enginn. Sannar það eitthvað ? Ég bara spyr.

Haraldur Baldursson, 27.1.2009 kl. 16:08

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Samfó frú vó salt á kúst,
og svika nú þar galt Ágúst,
á Þorra sú valt ló á þúst,
og þjóðarbú var allt í rúst.

Þorsteinn Briem, 27.1.2009 kl. 16:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hárrétt hjá þér TH. Þar kemur þú að mergnum málsins. Þegar valið er fólk til að taka að sér ákveðin verk verða verkin að tala.

Þú getur verið með mesta öðling landsins inni á knattspyrnuvellinum en ef hann er ekki nógu góður í fótbolta verður að taka hann út af.

Það fer ekki alltaf eftir innræti hvort mönnum tekst vel við hlutverk sín.

Ómar Ragnarsson, 27.1.2009 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband